Óttaslegnir íbúar: Ragnheiður keyrði næstum út af eftir snjókast - „Ég var dauðhrædd með tárin í augunum“

Ragnheiður Rún Daðadóttir var mjög óttaslegin þegar ungir strákar köstuðu snjó í framrúðu hennar sem gerði það að verkum að hún keyrði næstum út af veginum. „Ég var dauðhrædd með tárin í augunum,“ segir Ragnheiður um atvikið.

Nokkuð hefur verið um það að íbúar í Grafarholti og Grafarvogi hafi kveinkað sér undan drengjum sem hafa kastað snjóboltum í hús og bíla. Margir telja það nánast gang lífsins að þegar snjóar fari börn og unglingar að hnoða bolta úr snjó sem þeir síðan kasta í bíla er aka hjá. Á meðan sumir fagna því að börn fari enn út að leika sér er stór hópur fólks sem telur börnin setja ökumenn í stórhættu með því að grýta snjóboltum í bíla. Í grúppunni, Ég er íbúi í Grafarholti er að finna heitar umræður um uppátæki barnanna.

Dældaði bílinn

„Þessir eru að henda snjóboltum í bíla núna. .. foreldrar taliði við börnin ykkar þetta er stórhættulegt!!!!“ segir einn íbúinn. Þá segir annar: „Ég lenti í því í dag að það voru krakkar (ca. 9-11 ára) að kasta snjóboltum í bíla þegar ég var að keyra niður Jónsgeislann um kl. 14:30, með þriggja mánaðar gamla dóttur mína í bílnum. Ég fékk einn grjótharðan snjóbolta í minn bíl sem skildi eftir sig dæld og hann er því tjónaður. Ég vil bara góðfúslega benda foreldrum á að brýna fyrir börnum sínum að þetta getur haft leiðinlegar og jafnvel alvarlegar afleiðingar í för með sér.“ Þá segir sá þriðji: „Ég fékk líka í minn bíl í gær og var handviss um að það hefði komið dæld miðað við kraftinn en slapp. Gott ađ krakkarnir leiki sér úti en annar leikur væri velþeginn sem felur ekki í sér hættur eða eignaspjöll.“

Eru þetta þrjú innlegg af mörgum.

Dauðhrædd

DV heyrði einnig eins og áður segir í Ragnheiði Rún sem segir grafalvarleg að kasta snjóboltum í bíl. Ragnheiður var að keyra upp Vættaborgirnar í Borgarhverfi í Grafarvogi síðastliðið föstudagskvöld. Þar voru nokkrir strákar að leika sér í snjónum. Ragnheiður segist halda að strákarnir hafi verið í sjötta eða sjöunda bekk í grunnskóla.

„Þegar ég keyrði fram hjá þeim köstuðu þeir frekar miklu magni af snjó á framrúðuna hjá mér sem olli því að ég sá ekkert og keyrði næstum út af götunni,“ segir Ragnheiður. Hún segist hafa stöðvað bílinn og farið út til að láta strákana heyra það.

„Ég sagði þeim að þetta væri stórhættulegt. Sumir strákarnir hlógu en aðrir sögðu: „Já allt í lagi.“ Ég sá að það var ekki mikið á bak við það hjá þeim, þeir skömmuðust sín ekkert.“

Þegar Ragnheiður keyrði af stað köstuðu drengirnir tveimur snjóboltum til viðbótar í afturrúðuna á bílnum hennar.

„Ég var dauðhrædd með tárin í augunum,“ segir Ragnheiður.

Segir málið alvarlegt

Ragnheiður segir að hún hafi verið reið en ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við þegar strákarnir köstuðu aftur snjó í bílinn hennar.

„Ég vissi að þeir myndu ekkert kippa sér upp við það þó ég færi að tala við þá aftur. Spurning hvort lögreglan myndi hafa afskipti af svona löguðu.“

Ragnheiður segist vilja vekja athygli á málinu því hún telur það mjög hættulegt þegar krakkar kasta snjó í bíla.

„Ég held að krakkar geri sér ekki grein fyrir því hversu hættulegt þetta sé. Ég myndi helst vilja að einhverjir foreldrar í Grafarvoginum könnuðust við þessa stráka og myndu ræða við þá.“

Viltu koma einhverju á framfæri?

„Foreldrar, ræðið við börnin ykkar! Þetta er orðið ansi alvarlegt þegar það er hent það miklum snjó á framrúðu á bíl að það blindi ökumanninn. Tala nú ekki um þegar bíllinn er á ferð.“

Hér má sjá myndskeið sem DV fékk sent og tekið var upp í Grafarholti:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.