Össur les í ákvörðun Brynjars að hætta á Facebook: Kom skipun frá Bjarna?

Brynjar tilkynnti nokkuð óvænt að hann væri hættur á Facebook.
Hættur á Facebook Brynjar tilkynnti nokkuð óvænt að hann væri hættur á Facebook.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, veltir því fyrir sér hvort eitthvað liggi að baki þeirri ákvörðun Brynjars Níelssonar að hætta á Facebook.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Eins og DV greindi frá í morgun hefur Brynjar, nokkuð óvænt, tekið þá ákvörðun að hætta á Facebook. Hingað til hefur Brynjar verið nokkuð virkur á Facebook og því kom ákvörðunin mörgum á óvart.

Einhverjir hafa þó velt tímasetningunni fyrir sér en Brynjar tilkynnir ákvörðunin aðeins sólarhring eftir að tilkynnt var að þingflokkur VG hefði samþykkt að ganga til viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn um myndun ríkisstjórnar.

Össur segir að nú sé búið að skrúfa fyrir Brynjar á Facebook.

„Bjarni leggur með því sitt af mörkum til að slökkva eldana sem nú loga í baklandi Katrínar. Uppreisnin, sem braust fram gegn henni með fordæmalausri ályktun Ungra VG-ara gegn samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, verður ekki bæld meðan Brynjar leikur lausum hala á Facebook og hellir olíu á alla elda vinstri manna sem hann kemst nálægt,“ segir Össur sem bætir við að Bjarni sýni því „einbeittan samstarfsvilja með því að skrúfa fyrir vin sinn Brynjar.“

„Það er mikil fórn því Brynjar hefur verið sá sem segir upphátt það sem Sjálfstæðisflokkurinn hugsar - en þorir ekki að segja. Á bak við þetta kann líka að vaka sú hugsun að gera Brynjar "stueren" á nýjan leik og taka hann fram fyrir Sigríði Andersen þegar skipað verður í stól dómsmálaráðherra,“ segir Össur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.