Nýir límmiðar settir yfir þá gömlu á sælgæti frá Íslenskri dreifingu – Þorgeir: „Ég er orðinn þreyttur á þessum vinnubrögðum“

„Það eru þrír kassar af útrunnum sleikjó frá heildsöluversluninni Íslensk dreifing í hillum Iceland. Það er búið að setja annan límmiða yfir með nýrri „best fyrir“ dagsetningu en gamli límmiðinn sést vel í gegn,“ segir Þorgeir Pétursson, framkvæmdarstjóri hjá Sælgætisgerðin Víkingur.

DV hafði samband við Hafþór Guðmundsson, framkvæmdastjóra Íslenskrar dreifingu, vegna málsins. Hafþór sagði að það væri líklegast búið að færa sleikjóana á gamla standa í versluninni. DV ræddi við vaktstjóra Iceland sem sagði að verslunin notaði ekki gamla standa heldur þá sem sleikjóarnir kæmu í.

Í fyrra var mikið fjaðrafok vegna sælgætis sem Íslensk dreifing hafði selt Seyðisfjarðarkaupstað. Sælgætið var tæplega tíu ára gamalt og hafði Seyðisfjarðarkaupstaður keypt sælgætið fyrir öskudaginn.

Hér má sjá límmiða utan á pakkningu Tívolí sleikjó sem eru til sölu í Iceland Arnarbakka. Hægt er að sjá gamla miðann í gegnum þann nýja. Það er búið að breyta bæði framleiðsludag og síðasta söludag.
Þorgeir Pétursson tók myndirnar.
Breytt dagsetning Hér má sjá límmiða utan á pakkningu Tívolí sleikjó sem eru til sölu í Iceland Arnarbakka. Hægt er að sjá gamla miðann í gegnum þann nýja. Það er búið að breyta bæði framleiðsludag og síðasta söludag. Þorgeir Pétursson tók myndirnar.

Þreyttur á þessum vinnubrögðum

„Ég er orðinn þreyttur á þessum vinnubrögðum hjá þeim,“ segir Þorgeir Pétursson í samtali við DV.is. Þorgeir segir það mikið áhyggjuefni að Íslensk dreifing sé að selja gamalt sælgæti í verslanir.

„Ég er sjálfur með litla heildverslun að flytja inn vörur og er því að keppa við Hafþór Guðmundsson hjá Íslenskri dreifingu. Ég er þreyttur á því að það sé oft sagt að hann sé með betri verð en ég. Sem er kannski rétt því hann er með útrunnar vörur. Svo límir hann einnig yfir dagsetningarnar. Ég er svo þreyttur á að það gerist aldrei neitt. Ég er búinn að hringja í Neytendasamtökin og heilbrigðiseftirlitið en ekkert er gert í þessu.“

Þorgeir tók nokkrar myndir í Iceland í Arnarbakka fyrr í dag. Á myndunum má sjá meðal annars Tívolí sleikjó. Aftan á kassanum má sjá miða með pökkunardagsetningu og ‚best fyrir‘ dagsetningu. Það eru tveir miðar á kassanum, nýr miði hefur verið límdur yfir þann gamla.

Hér má sjá nærmynd af miðunum. Rauða línan undirstrikar söludaginn sem stendur á gamla miðanum. „Best Before Date: 13.09.2016“
Á límmiðanum sem var settur yfir stendur: „Best Before 23.09.2018“
Framleiðsludagurinn er einnig öðruvísi á límmiðanum sem var settur yfir þann gamla.
Best fyrir 2016 Hér má sjá nærmynd af miðunum. Rauða línan undirstrikar söludaginn sem stendur á gamla miðanum. „Best Before Date: 13.09.2016“ Á límmiðanum sem var settur yfir stendur: „Best Before 23.09.2018“ Framleiðsludagurinn er einnig öðruvísi á límmiðanum sem var settur yfir þann gamla.

Hér má sjá sleikjóinn sem um ræðir. Íslensk dreifing er skráð á kassann og einnig vörumiðann í hillunni.
Íslensk dreifing Hér má sjá sleikjóinn sem um ræðir. Íslensk dreifing er skráð á kassann og einnig vörumiðann í hillunni.

Eldra nammi í hillum

Þorgeir fór einnig í verslun 10-11 Hjarðarhaga og tók myndir af sælgæti frá Íslenskri dreifingu. Í 10-11 var standur af sleikjó frá Íslenskri dreifingu þar sem miði hafði verið settur yfir annan með nýrri dagsetningu. Gamli miðinn sést ekki almennilega en hægt er að sjá standa „Best Before Date ?.10.2012.“ Á nýja miðanum er síðasti söludagur 23. september 2018.

Það má sjá glitta í gamla miðann undir þeim nýja. Þar sést illa hvað stendur en hægt er að gera grein fyrir ártalinu fyrir síðasta söludag sem er 2012.
2012 Það má sjá glitta í gamla miðann undir þeim nýja. Þar sést illa hvað stendur en hægt er að gera grein fyrir ártalinu fyrir síðasta söludag sem er 2012.

Blaðamaður hringdi í Hafþór Guðmundsson, framkvæmdastjóra Íslenskrar dreifingar, og gerði grein fyrir erindi sínu.

Þegar Hafþór áttaði sig á því um hvað blaðamaður var að ræða um þá sagði hann að það væri búið að færa sleikjóana á milli standa.

„Það er eitthvað sem er fært á milli standa. Vörurnar hafa verið færðar á milli standa.“

Blaðamaður: „Veistu þá af hverju það er búið að breyta dagsetningunni á miðanum?“

Hafþór: „Ég veit ekki af hverju það er. Ef einhver hefur tekið sleikjó og sett á annan stand. Ef ég skil þig rétt. Sleikjó varan og standurinn bæði með dagsetningu sem er búið að merkja yfir?“

Blaðamaður: „Nei sleikjóinn er ekki merktur með dagsetningu en standurinn er það.“

Hafþór: „Þú ert að tala um eitthvað tvennt ólíkt sem er fært á milli standa. Það hefur einhver tekið gamlan stand og fært yfir á hann væntanlega.“

Blaðamaður: „Kemur sleikjóinn sem sagt ekki í sínum eigin stand frá ykkur?“

Hafþór: „Ef það [standurinn] hefur skemmst eitthvað frammi í búð, ég veit ekkert um það skilurðu. Það er líklegasta skýringin.“

Iceland segist ekki nota gamla standa

Blaðamaður hringdi í Iceland Arnarbakka og ræddi við vaktstjóra. Blaðamaður spurði hvort tívolí partý sleikjóarnir væru í standinum sem þeir kæmu í. Vaktstjórinn svaraði játandi.

Blaðamaður: „Þegar þið fáið svona sleikjó sendingar og eruð að setja þá upp, koma þeir í stöndunum sem þeir eru í frammi í búð?“

Vaktstjóri: „Já, svona pappastandar.“

Blaðamaður: „Þið eruð sem sagt ekki að færa sleikjó yfir á gamla standa eða eitthvað svoleiðis?“

Vaktstjórinn svaraði neitandi.

Blaðamaður: „Þannig þegar þið fáið partýsleikjó, þá eruð þið með þá í stöndunum sem þeir komu í?“

Vaktstjóri: „Já, þetta eru svo þægilegir standar sem þetta kemur í.“

Blaðamaður: „Þið notið nákvæmlega þá standa sem þið fáið með hverri sendingu?“

Vaktstjóri: „Já“

Blaðamaður: „Ókei og til að hafa alveg á hreinu þið eruð ekki með gamla standa sem þið færið til á?“

Vaktstjóri: „Nei nei nei nei. Það væri frekar ef við værum að setja upp nýja að við myndum taka úr gamla standinum og færa yfir á nýja“

Engin dagsetning á vörum

Þorgeir segir að Íslensk dreifing sé oft á tíðum ekki með miða á vörum sínum þar sem kemur fram hvenær varan rennur út.

„Hann er núna með jólasokk og það er engin dagsetning á honum,“ segir hann.

Þorgeir tók myndir af sælgæti frá Íslenskri dreifingu í Nettó í Mjóddinni. Hann tók myndir af fjórum mismunandi tegundum af sælgæti sem á það sameiginlegt að það vantar síðasta söludag á það.

„Þessar vörur eru ekki með neinni dagsetningu heldur aðeins lotu nr. sem hann telur vera nóg að merkja vörurnar með,“ segir Þorgeir.
Síðasti söludagur „Þessar vörur eru ekki með neinni dagsetningu heldur aðeins lotu nr. sem hann telur vera nóg að merkja vörurnar með,“ segir Þorgeir.

Seldi rúmlega tíu ára gamalt sælgæti fyrir öskudaginn

Á öskudeginum í fyrra keypti Seyðisfjarðarkaupstaður sælgæti af Íslenskri dreifingu. Það kom í ljós að sælgætið hafði runnið út fyrir tæpum tíum árum. Sælgætið var framleitt árið 2004 og rann út 2007.

„Eins og glöggir tóku eftir / hafa tekið eftir þá var börnunum gefið löngu útrunnið sælgæti á bæjarskrifstofunni í gær, öskudag. Ekki er ástæðan svona mikill niðurskurður hjá bænum, heldur vöruskiptin sem áttu sér stað,“ sagði í frétt á vef Seyðisfjarðarkaupstaðar um málið.

Hafþór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar dreifingar, vildi lítið tjá sig um málið þegar Austurfrétt náði tali af honum. „Það er búið að ræða þetta, það þarf ekki að ræða þetta neitt frekar,“ sagði Hafþór. Ekki lá ljóst hvernig mistökin urðu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.