Skapa menningarmiðstöð með samfélagslegri áherslu

Iðnó hefur opnað dyr sínar á ný eftir að nýir rekstraraðilar tóku við húsinu

Mynd: Brynja

Nýir rekstraraðilar hafa tekið við hinu fornfræga menningarhúsi Iðnó og er markmið þeirra að búa til listrænt og samfélagslegt rými sem er opið öllum Reykvíkingum og vegfarendum. „Húsið er í eigu borgarinnar og borgarbúar ættu að upplifa þetta sem sitt rými,“ segir René Boonekamp, nýr framkvæmdastjóri Iðnó. Fjölbreytt dagskrá viðburða verður í Iðnó auk veitingahúss og vinnurýmis fyrir fólk í skapandi greinum.

Lifandi staður

Frá því að Iðnó var byggt af Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur árið 1896 hefur það sinnt mikilvægi hlutverki í reykvísku menningar- og samkvæmislífi. Það var lengi vel eitt helsta samkomuhús borgarinnar, auk þess sem Leikfélag Reykjavíkur hafði aðsetur í húsinu til ársins 1989. Frá því að Reykjavík eignaðist húsið hefur rekstur hússins verið boðinn út á fjögurra ára fresti, en í útboði borgarinnar fyrr á þessu ári voru René og Þórir Bergsson veitingamaður hlutskarpastir. Þórir hefur rekið veitingastaði undir merkjum Bergsson undanfarin ár en René hefur staðið fyrir fjölda menningar- og samfélagsverkefna bæði í heimalandi sínu, Hollandi, og á Íslandi. Má þar nefna eftirtektarvert verkefni þar sem niðurnítt verksmiðjuhverfi í Keilewerf í Rotterdam var breytt í lifandi vettvang fyrir skapandi fólk, vinnustofur, markaði og viðburðarými.

René segir að helsta markmið nýrra rekstraraðila sé að gera Iðnó að lifandi húsi þar sem almenningur upplifi sig ávallt velkominn. „Við ætlum að reyna að gera Iðnó að opnara húsi en það hefur verið, meðal annars með því að reka kaffihús á jarðhæðinni. Við höfum fært barinn í anddyrið þannig að hann taki betur á móti fólki. Þar getur fólk fengið sér morgunmat, hádegismat eða kaffi, bara vafrað inn án erindis og forvitnast um hvað sé að gerast þann daginn,“ segir René.

„Við munum nota bæði aðalsalinn og efri hæðina sem viðburðarými. Við munum ennþá leigja rýmin út fyrir einkasamkvæmi, en viljum ekki að þau verði of fyrirferðarmikil. Utanaðkomandi aðilar geta einnig sótt um að fá að nýta salina fyrir viðburði, og svo munum við einnig skipuleggja okkar eigin viðburði. Þannig ættu rýmin að vera fullnýtt og alltaf eitthvað um að vera í húsinu.

Hugmyndin er svo að á efstu hæðinni, á háaloftinu, verði miðstöð fyrir skapandi fólk. Annars vegar verða þar vinnurými sem hægt verður að leigja til skemmri eða lengri tíma og hins vegar eru uppi hugmyndir um að koma þar upp hljóðupptökuveri. Hér getur skapandi Reykjavík því komið saman og vonandi mun afraksturinn svo seytla niður eftir húsinu.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.