Telur að erfitt verði að mynda stjórnina

Egill Helgason, fjölmiðlamaður og stjórnmálaskýrandi, telur að örðugt muni reynast að mynda stjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, ekki síst vegna heiftarlegrar andúðar á Sjálfstæðisflokknum á vinstri vængnum. Þá minnir Egill á að eiginlegar stjórnarmyndurnarviðræður séu ekki hafnar þó að könnunarviðræður flokkanna séu sagðar ganga vel.

„Skammirnar hellast yfir Vinstri græn og Katrínu Jakobsdóttur fyrir það eitt að kanna möguleikann á að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki,“ skrifar Egill í pistli á Eyjuna og tilfærir heiftarleg ummæli ýmissa um þessar samstarfsþreifingar. Þannig skrifar til dæmis Hallgrímur Helgason rithöfundur:

Hér gildir hið fornkveðna: Frekar þann versta en þenna næstbesta. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sem og hinn óstýriláti lausaleikskrói þeirra sem skírður var Miðflokkur, eru og verða í tröllahöndum. Þetta eru eitraðir flokkar. Sá sem sest í stjórn með þeim deyr í stólnum. Á staðnum.

Tröllin munu hvort eð er stjórna áfram, með eða án okkar. Það breytir engu hvort við komumst í bland við þau eða ekki.

Á meðan þau tóra verða ælan og öskrið okkar eina skjól.

Egill skrifar: „Það eru semsé engar líkur á að þessi þriggja flokka ríkisstjórn fái nema neikvæð viðbrögð á vinstri vængnum, Vinstri græn hjóta að vera eins og milli steins og sleggju með þetta. Kannski er ógerningur að sannfæra hina hörðu sveit í vinstrinu að þetta verði í lagi.“

Fyrrverandi varaformaður VG, Björn Valur Gíslason, hefur hins vegar undanfarið talað fyrir samstarfi flokkanna á bloggsíðu sinni en hann hafði áður lýst Sjálfstæðisflokkinn óstjórntækan. „Gæti orðið farsæl ríkisstjórn,“ skrifar Björn Valur um mögulega samstjórn þessara flokka, VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.