fbpx
Fréttir

Ágúst gagnrýnir heilbrigðiskerfið eftir andlát eiginkonu: „Nú, er líkið ekki farið?“

Hjálmar Friðriksson
Laugardaginn 11. nóvember 2017 13:30

„Við feðgar tókum þá ákvörðun að láta líkið standa uppi þann dag og gefa fólki kost á að eiga hljóða stund við dánarbeðinn. Það komu um 60 manns. – En klukkan hálf fjögur hringdi síminn. „Við erum að koma frá Sjúkratryggingum til þess að sækja sjúkrarúmið hennar Sólveigar,” var sagt rámri röddu. „Já, en bíddu við, líkið stendur hér enn uppi,” svaraði ég. – „Nú, er líkið ekki farið. Þá komum við bara seinna, blessaður,” sagði þessi ráma rödd og lagði á tólið.“

Svo lýsir Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur reynslu sinni af Sjúkratryggingum Íslands í grein á vef sínum. Sólveig Aðalbjörg Sveinsdóttir, eiginkona Ágústs, lést í fyrra eftir þriggja ára baráttu við MND-sjúkdóminn. Ágúst lýsir í greininni hvernig á þessum árum hafi hann orðið vitni af fjölmörgu sem sýni hve illa er staðið að mörgum atriðum í heilbrigðiskerfinu.

Skrif Ágústs hafa vakið athygli og segir fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilson þetta um málið á Facebook-síðu sinni: „ Ágúst H. Bjarnason segir hér frá samskiptum sínum og mikið veikrar eiginkonu sinnar við Sjúkratryggingar Íslands. Fyrir hvern vinnur þessi stofnun? Er það orðið helsta markmið stjórnvalda að koma illa fram við þau sem veikast standa?

Hefði verið fangi í níu mánuði

Eitt dæmi sem Ágúst nefnir í greininni er löng barátta fyrir því að fá lyftu utandyra við íbúð þeirra. „Við ræddum það á fundi með MND-teymi Landspítalans og var sagt, að það yrði athugað. Á næsta fundi í lok janúar 2015 ítrekuðum við þá ósk. Okkur var þá tjáð, að sótt hefði verið um og neitun borizt frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) í nóvember. Þetta kom okkur í opna skjöldu. Í ljós kom, að SÍ hafði sent neitun í svo nefnda „gátt” til Sólveigar, sem var henni algjör nýlunda og ókunn,“ lýsir Ágúst. Ein ástæða þess að SÍ hafnaði beiðninni var að hjónin höfðu ekki reynt að selja íbúðina sem þau höfðu búið í frá árinu 1978.

Stofnuninni var ekki haggað og fór svo að þau hjón ákváðu að kaupa lyftuna sjálf. „SÍ stóð fast á sínu og neitaði að taka þátt í kostnaði. Við kærðum þá ákvörðun til úrskurðarnefndar almannatrygginga og svo fór að nefndin dæmdi okkur í vil, en þó ekki fyrr en síðla í ágúst. Okkur var gert að greiða 10% af uppsetningu lyftunnar, sem kostaði rúmar 400 þúsund krónur […] Hefðum við beðið eftir úrskurði nefndarinnar án þess að aðhafast nokkuð, hefði Sólveig verið fangi á eigin heimili hátt í níu mánuði.

Matarlaus í þrjá sólarhringa

Annað dæmi sem Ágúst nefnir sem sýnir ósveigjanleika kerfisins sem varð til þess að Sólveig var matarlaus í þrjá sólarhringa. „Eitt sinn hringdi ég í Parlogis, sem selur „sondu”-fæði, og pantaði mánaðarskammt. Þetta var á þriðjudegi. Daginn eftir er hringt frá fyrirtækinu og sagt, að leyfi fyrir afhendingu væri útrunnið. Við höfðum ekki hugmynd um, að það væri tímabundið. Ég spurði, hvað væri til ráða og mér bent á að hafa samband við SÍ. Þar á bæ var sagt, að aðeins væri „tekið mark á læknisfræðilegum rökum”. Haft var samband við forstöðukonu Heimahjúkrunar og hún sagðist biðja heimilislækni Sólveigar um nýtt vottorð með hraði. Á fimmtudag hafði ekkert vottorð borizt, svo að ég hafði samband við heimilislækni,“ segir Ágúst.

Læknirinn svaraði því að beiðnin þyrfti að fara í pósti á pappír. „Sem sagt, SÍ krafðist þess að fá vottorð á pappír, sem hafði það í för með sér, að Sólveig yrði matarlaus frá föstudegi til þriðjudags. Nú voru góð ráð dýr. Haft var samband við Landspítala (Fossvogi) og þar fékkst einn lítri af „sondu”-næringu. Síðan varð að kaupa LGG, súrmjólk og sitthvað fleira, sem talið var óhætt að gefa Sólveigu. Sem betur fer tókst að mestu leyti að brúa þetta „matarlausa” bil fram að kvöldi þriðjudags,“ segir Ágúst.

Geta haft hraðar hendur

Ágúst segir að eitt af því sem þarf að bæta sé afgreiðsla Sjúkratrygginga Ísland á hjálpartækjum. „Afgreiðsla SÍ á einföldustu hlutum, eins og þverslá á hjólastól, gat tekið allt að sex vikur. Oft var eina ráðið að hlaupa til sjálfur og kaupa nauðsynlegustu hluti, enda kom nokkrum sinnum í ljós að þeir voru ranglega afgreiddir,“ segir Ágúst.

Hann sýnir að beiðni Sjúkratrygginga um að sækja rúmið þann sama dag og Sólveig lést sýni að stofnunin geti haft hraðar hendur: „Það kom þá í ljós seint um síðir, að þeir hjá Sjúkratryggingum Íslands geta haft snör handtök. En heldur þótti okkur það óviðfeldið, að Heimahlynning Landspítalans skyldi senda það út í tölvupósti strax að morgni, að Sólveig væri látin. Að ósekju hefði það mátt bíða, því að varla er það í þeirra verkahring.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Helgi um Val banamann: „Hversu fullur má maður vera til þess að einhver megi berja mann til dauða?“

Helgi um Val banamann: „Hversu fullur má maður vera til þess að einhver megi berja mann til dauða?“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Eva Joly sérstakur gestur á 10 ára afmæli hrunsins

Eva Joly sérstakur gestur á 10 ára afmæli hrunsins
Fréttir
Í gær

Gyðingar og múslimar telja að umskurðarbann á Íslandi leiði til útskúfunar: „Þetta er það sem gerðist í Þýskalandi nasista“

Gyðingar og múslimar telja að umskurðarbann á Íslandi leiði til útskúfunar: „Þetta er það sem gerðist í Þýskalandi nasista“
Fréttir
Í gær

Hvað á að gera við konu sem er með vesen? Segja henni upp

Hvað á að gera við konu sem er með vesen? Segja henni upp
Fyrir 2 dögum

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?