Agnes biskup borin þungum sökum: „Var ekki um kynferðisbrot að ræða“

Agnes M. Sigurðardóttir biskup
Agnes M. Sigurðardóttir biskup
Mynd: Mynd: DV Eyþór

Agnes M. Sigurðardóttir er sökuð um að fara gegn lögum og byggja á slúðri og dylgjum við ákvörðun sína um að setja séra Ólaf Jóhannsson, sóknarprest í Grensáskirkju, í leyfi í sumar vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Lögfræðingur Ólafs heldur því meðal annars fram að ásakanir kvenna á hendur Ólafi einar og sér lýsi ekki einu sinni kynferðislegri áreitni, en hann er meðal annars sagður hafa tekið utan um konu og kysst hana á vangann.

Í frétt á dv.is þann 21. september síðastliðinn segir að séra Ólafur sé sakaður um kynferðislega áreitni í þremur tilvikum. Þar eru síðan tilfærð ummæli Agnesar M. Sigurðardóttur biskups í Fréttablaðinu:

„Ég sendi sr. Ólaf í leyfi í sumar því ég líð ekki svona mál á minni vakt. Ég beitti þeim úrræðum sem lög og reglur segja til um, og eitt af því var að senda hann í leyfi. Ég veitti honum tiltal og sendi hann í meðferð hjá sálfræðingi.“

DV hefur undir höndum langt bréf sem lögfræðingur séra Ólafs, Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður, hefur sent biskupi. Þar er staðhæft að ákvarðanir Agnesar í málinu standist ekki lög. Þannig hafi hún veitt Séra Ólafi áminningu án þess að hann fengi andmælarétt og síðan veitt honum tækifæri til andmæla eftir áminninguna. Þá byggi hún ákvörðun sína eingöngu á ásökunum kvennanna á hendur séra Ólafi en ekki á hans framburði. Auk þess séu atvikalýsingar af meintum afbrotum séra Ólafs með þeim ætti að samkvæmt þeim einum sé ekki um kynferðisbrot að ræða. Í bréfi Einars Gauts segir meðal annars orðrétt:

Þann 11.4. sl. Var umbj. m. með örstuttum fyrirvara boðaður á fund biskups. Á honum voru einnig Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir úr fagráði kirkjunnar og sr. Gunnar R. Matthíasson fyrrv. formaður fagráðsins. Þar var umbj. m. tjáð að kona teldi á sér brotið. Síðan romsuðu menn einhverri atvikalýsingu. Samkvæmt þeirri lýsingu var ekki um kynferðisbrot að ræða. Andrúmsloftið var undarlegt og minnti helst á rannsóknarrétt sem komin var að niðurstöðu og markmið rannsóknarinnar væri að týna til sannanir um það sem menn töldu sig vita. Var eins og litlu skipti hvað umbj. m. hefði til málanna að leggja. Umbj.m. fékk ekki skriflega lýsingu fyrr en mörgum mánuðum síðar.

Séra Ólafur Jóhannsson
Séra Ólafur Jóhannsson
Mynd: Þjóðkirkjan

Þá segir að séra Ólafur hafi fengið bréf frá biskupi í maí þess efnis að kona hefði kvartað við prófast um kynferðislega áreitni af hálfu hans. Lögfræðingurinn segir að eftir lestur frásagnar konunnar sé honum ljóst að hún lýsi ekki kynferðislegri áreitni. Ekkert annað liggi fyrir en að séra Ólafur hafa tekið utan um konuna og kysst hana á báðar kinnar. Það flokkist ekki undir kynferðislega áreitni.

Einar Gautur segir enn fremur í bréfi sínu að biskup hafi gert þau mistök að taka ákvörðun í málinu áður en það hafði verið rannsakað og án þess að andmælaréttur þess sem var ásakaður hafi verið virtur. Segir hann enn fremur að séra Ólafi hafi verið mjög brugðið við þessar ásakanir og „ekki er ofsagt að hann hafi orðið fyrir vægu áfalli.“

Í bréfinu segir enn ennfremur:
„Niðurstaða mín er sú að biskup telur kynferðisbrot felast í upplifunum og hugtakanotkun þess sem kvartar en ekki af lögum. Hann telur sönnun ekki byggjast á gögnum og frásögnum beggja málsaðila heldur af eigin upplifunum.“

Telur Einar Gautur enn fremur að séra Ólafi hafi orðið fyrir einelti og andlegu ofbeldi af hálfu biskups. Hann hafi að ósekju verið sendur í leyfi og gert að sæta sérfræðirannsókn og hafi auk þess verið rægður á vinnustaðnum, auk þess sem biskup fjallaði um málið í fjölmiðlum.

Séra Ólafur sneri aftur til starfa – og var síðan settur aftur í leyfi

Eftir að sálfræðingur skilaði af sér því áliti að séra Ólafur „hefði skilning á því hvernig ætti að nálgast fólk þannig að engum yrði hverft við og að hann myndi gæta að sér“ er biskup sagður hafa lokið málinu og séra Ólafur sneri aftur til starfa þann 12. ágúst.

Hins vegar ákvað biskup að halda fund um málið í Grensáskirkju þann 12. september. Eru gerðar í bréfi Einars Gauts alvarlegar athugasemdir við að sóknarnefnd og starfsfólk hafi þannig byrjað að velta sér aftur upp úr máli sem var lokið. Séra Ólafur hafi ekki mátt vera á fundinum:

Sérstaklega var tekið fram að umb.m. mætti ekki vera á fundinum meðan væri verið að rægja hann við samstarfsfólk og sóknarnefnd eða velta öðrum upp úr ósönnuðum upplifunum annarra af samskiptum við hann.

Þá kemur enn fremur fram í bréfinu að Séra Ólafur hafi aftur verið neyddur í leyfi vegna málsins seint í september. Þá voru til skoðunar þrjár kvartanir vegna framferðis prestsins. Um þær segir í bréfinu:

Þegar þessar þrjár kvartanir eru skoðaðar kemur í ljós að hvergi er um kynferðislega áreitni að ræða og alls ekki í skilningi laga. Þar með er heldur ekki um neina refsiverða háttsemi að ræða, ekki einu sinni þótt umdeildar frásagnir málshefjenda af upplifunum sínum séu lagðar til grundvallar. Að auki eru frásagnir tveggja þeirra af einhverju sem á að hafa gerst fyrir tæpum áratug og þaðan af meira.

Í bréfinu er biskup sakaður um alvarlega valdníðslu með því að hafa neytt séra Ólaf í leyfi án málsmeðferðar. Hann hafi verið rægður, ráðist hafi verið á virðingu hans og sjálfsmynd og stöðu hans í samfélaginu og á vinnustaðnum. Er þetta sagt vera brot á þeirri friðhelgi sem mælt sé fyrir um í stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í niðurlagi bréfsins segir meðal annars að með bréfinu sé freistað að forðast það að aðilar þurfi að útkljá málið fyrir dómstólum . Mál séra Ólafs er nú fyrir Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar sem á eftir að ljúka umfjöllun um það og kveða upp úrskurð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.