Ung kona sökuð um að hafa stungið lögreglumann á Akureyri með sprautunál

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ung kona á Akureyri hefur verið ákærð fyrir þrjár sérlega hættulegar líkamsárásir. Konan er sökuð um að hafa stungið lögreglumann í handarbakið með sprautunál en konan er smituð af lifrarbólgu C.

Hún er jafnframt sökuð um að hafa í heimahúsi skorið konu í andlitið með skærum eða hnífi. Auk þessa er hún ákærð fyrir að hafa ráðist á aðra konu á Café Amor og sparkað ítrekað í höfuðið á henni.

RÚV greinir frá þessu. Þar segir að konan hafi slegið til lögreglumanns með sprautu í september í fyrra. Hann reyndi að verja sig og setti höndina fyrir andlitið en þá hafnaði sprautunálin í handarbaki hans. Því næst hljóp konan að lögreglumanninum með sprautuna á lofti og hótaði að drepa hann. Lögreglumaðurinn smitaðist ekki af lifrarbólgu C en hann hefur þurft að fara reglulegu í blóðprufu undanfarið ár.

Árásin á Café Amor átti sér stað sumarið 2015 en samkvæmt frétt RÚV veitist konan að annarri konu, togaði hana niður í gólf og reif í hárið á henni. Konan er sökuð um að hafa sparkað að minnsta kosti fimm sinnum í höfuð konunnar. Í viðbót við fyrrnefnd atvik er konan sökuð um að hafa hrækt til lögreglumanns í Kópavogi eftir að hann hafði afskipti af ökumanni bifreiðar sem hún var farþegi í.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.