Þriðja morðið í átökum glæpagengja í Kaupmannahöfn á skömmum tíma – 42 skotárásir síðan í júní

Um klukkan 15.30 að staðartíma í gær var 22 ára maður skotinn til bana í Mjølnerparken í Kaupmannahöfn. 19 ára maður var skotinn í handlegg í sömu skotárás. Morðið er talið tengjast stigmagnandi átökum skipulagðra glæpagengja í borginni. Þetta er þriðja morðið, tengt þessum átökum, á skömmum tíma.

Á fréttamannafundi lögreglunnar í gærkvöldi var skýrt frá atburðunum. Þar kom fram að þriðji maðurinn hefði verið í för með þeim látna og þeim sem særðist en sá hefði stungið af frá vettvangi og hefur lögreglan ekki enn náð tali af honum.

Fram kom að tveir dökkklæddir og grímuklæddir menn hafi komið akandi á skellinöðru að bíl, sem þremenningarnir sátu í, og skotið á hann. Árásarmennirnir óku síðan á brott en lögreglan fann skellinöðruna á Austurbrú. Talið er að árásarmennirnir hafi farið inn í bíl þar.

Ekki löngu eftir árásina handtók lögreglan 28 ára karlmann á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn en hann var þar á ferð í bíl með sænskum skráningarnúmerum. Sá handtekni er talinn tengjast málinu en hann er liðsmaður glæpagengis.
Sá látni var ekki fullgildur meðlimur í glæpagengi en hafði þó einhver tengsl við glæpagengið Brothas sem heldur til í Mjølnerparken en hverfið hefur verið helsti vettvangur átakanna undanfarna mánuði.

Á miðvikudaginn var 25 ára meðlimur glæpagengis skotinn og særður í Griffenfeldtsgade á Norðurbrú. Það mál tengist hugsanlega morðinu í gær að sögn lögreglunnar.

Frá 12. júní hafa 42 skotárásir verið gerðar í Kaupmannahöfn í tengslum við átök glæpagengja. 25 hafa særst í þessum árásum og 3 látist en morðin hafa öll átt sér stað frá 31. október. Þessu til viðbótar eru síðan morð og skotárásir sem ekki tengjast átökum skipulagðra glæpagengja.

Anne Tønnes, lögreglustjóri í Kaupmannahöfn, sagði á fréttamannafundi gærdagsins að lögreglan muni ekki gefa neitt eftir í baráttunni við glæpagengin og að götur borgarinnar verði aftur öruggar fyrir almenna borgara. Hún hvatti almenning til að halda áfram að lifa lífi sínu og treysta á lögregluna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.