Uppnám á Kaffistofunni: Lögregla yfirbugaði mann sem hafði í hótunum – „Þeir tóku svo bara stólinn undan honum“

Róbert Gunnarsson er ýmsu vanur í starfi sínu.
Forstöðumaður kaffistofunnar Róbert Gunnarsson er ýmsu vanur í starfi sínu.

Lögreglumenn þurftu í vikunni að beita piparúða á karlmann sem lét öllum illum látum á kaffistofu Samhjálpar. Maðurinn var handjárnaðu á bæði höndum og fótum. Róbert Gunnarsson, forstöðumaður kaffistofunnar, segir að atvikið hafi minnt sig á atriði úr bíómynd, maðurinn hafi tekið yfir eitt borð og var að gera sig líklegan að leggja undir sig kaffistofuna.

Eiríkur Jónsson greindi fyrst frá málinu. „Það var maður í mjög annarlegu ástandi sem kom á kaffistofuna og var með hótanir. Hann ætlaði að leggja undir sig kaffistofuna, eins og þeir vilja oft gera. Fyrir aðra gesti þá þurftum við að hringja í lögregluna. Þetta var mjög fagmannlega gert hjá lögreglunni, þetta voru ungir strákar. Okkur var sagt að það hafi þurft að nota piparúða, því við fengum svolítið í hálsinn. En hann lét öllum illum látum, hann ætlaði ekkert að fara út. Þeir skoluðu hann svo og gáfu honum vatn að drekka,“ segir Róbert en hann telur að maðurinn hafi verið undir áhrifum læknadóps.

Hann segist hafa séð harkalegar handtökur en það hafi ekki átt við nú. „Þetta var faglega unnið hjá þeim og hnitmiðað. Alveg eftir bókinni. Þeir gáfu honum nokkra sénsa en tóku svo bara stólinn undan honum og hann féll auðvitað í gólfið. Þá ætlaði hann að gera eitthvað en þá sýndist mér þeir handjárni hann. Svo tóku þeir hann út. Þeir gáfu honum vatn að drekka svo hann var allavega ekki þyrstur. Hann var reyndar líka búinn að borða,“ segir Róbert.

Róbert segir að það gangi á ýmsu á kaffistofunni og atvik sem þessi séu ekki sjaldgæf. „Þetta gerist annað slagið, kannski ekki daglegt brauð. Reyndar búið að vera voðalega friðsælt núna undanfarið en svo kemur svona eitt og eitt atvik. Það eru til dæmis flogaveikisjúklingar sem koma og ef menn drekka ofan í það þá þarf að hringja í sjúkrabíl. Það er alltaf eitthvað „action“ þarna, ég ætti að skrifa bók um þetta, hver einasti dagur er bók. Þetta er skemmtilegur vinnustaður þannig lagað en tekur sinn toll“ segir Róbert en þess má geta að Róbert hyggst hætta störfum á kaffistofunni um áramótin.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.