Íbúar í Neskaupstað enn í sárum eftir snjóflóðið – Þörf á áfallateymi við frumsýningu: „Ég mokaði ofan af litla drengnum“

Aðstandendur heimildamyndarinnar Háski - Fjöllin rumska telja þörf á því að áfallateymi verði til staðar þegar myndin verður frumsýnd á Neskaupstað á sunnudaginn. Myndin fjallar um snjóflóðið í Neskaupstað þann 20. desember árið 1974. Þá féllu tvö gríðarmikil snjóflóð á bæinn með þeim afleiðingum að tólf manneskjur létust.

Þórarinn Hávarðsson, framleiðandi myndarinnar, segir í samtali við DV að þó nærri hálf öld sé liðin frá snjóflóðinu þá hafi það verið afar erfitt fyrir íbúa að rifja upp þessa atburði. „Þetta er búið að vera í vinnslu í nærri tvö ár og við ræddum við 40 manns sem lentu í flóðinu og misstu ættingja. Það fórust tólf í þessu flóði, þar af tvo börn, þriggja og átta ára. Þetta eru svakalegar lýsingar og margir eru ekki búnir að vinna úr þessu áfalli þó það séu komin 43 ár síðan þetta var,“ segir Þórarinn.

Á Youtube má sjá stiklu úr myndinni og er ljóst af henni að lýsingar viðmælenda eru átakanlegar. „Þau fundust ekki fyrr en síðdegis, þegar ég mokaði ofan af litla drengnum hennar,“ segir Víglundur Gunnarsson í lok stiklunnar en þar vísar hann til annars barnsins sem lést í flóðinu. „Hann er bróðir Gylfa Gunnarssonar, sem missti konu sína í flóðinu. Hann er líka skyldur konunni sem átti börnin tvö. Hann horfir á snjóflóðið falla og taka húsin,“ segir Þórarinn.

Myndin verður sýnd í Laugarásbíó frá 17. nóvember næstkomandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.