Fékk aðstoð við að deyja: Fyrrverandi kærasta fyrir dómi vegna dauða hans

Mark fékk hjálp við að deyja eftir fólskulega árás kærustu sinnar

Var 29 ára þegar hann lést.
Mark van Dongen Var 29 ára þegar hann lést.

Berlinah Wallace, tæplega fimmtug kona á Englandi, er nú fyrir dómi vegna dauða fyrrverandi kærasta síns, Mark van Dongen. Van Dongen ákvað að binda endi á líf sitt með svokölluðu líknardrápi í Belgíu fyrr á árinu.

Forsaga málsins er sú að í september 2015 reiddist Berlinah mjög þegar hún komst að því að Mark, kærasti hennar til fimm ára, hefði haldið framhjá henni. Þegar upp komst um framhjáhaldið sagðist Mark sjá eftir gjörðum sínum og tjáði hann Berlinuh að hann ætlaði að hætta að hitta hjákonu sína.

Það gerði hann þó ekki og þá varð fjandinn laus. Nótt eina í september árið 2015 helti Berlinah brennisteinssýru yfir Mark þegar hann lá sofandi í rúmi sínu. Um var að ræða talsvert magn en sýran er mjög ætandi og slasaðist Mark lífshættulega í árásinni.

Honum tókst þó að koma sér til nágranna sinna og tjáði þeim að fyrrverandi kærasta hans hefði ráðist á hann.

Líf Marks tók gríðarlegum breytingum þetta kvöld því hann missti fótlegg, eyra og annað augað auk þess sem hann missti nær alla sjón á hinu auganu. Þá lamaðist hann fyrir neðan háls og gat aðeins tjáð sig með svokölluðu stafabretti.

Mark, sem var 29 ára og verkfræðimenntaður, ákvað ekki löngu síðar að binda endi á líf sitt. Hann sótti um leyfi til líknardráps í Belgíu árið 2016 og þann 2. janúar síðastliðinn lést hann.

Saksóknarar í Englandi gáfu út ákæru á hendur Berlinuh í kjölfarið og er hún sökuð um að hafa stuðlað að dauða Marks. Ef ekki hefði verið fyrir árásina væri Mark á lífi. Hún kom fyrir dóm í Bristol í vikunni þar sem hún neitaði sök og segist hafa talið að um vatn væri að ræða þegar hún hellti sýrunni yfir Mark. Verði Berlinah fundin sek gæti hún átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.