fbpx
Fréttir

Þriggja barna móðir fær tveggja ára dóm fyrir gróft ofbeldi: Sló börn sín og kallaði þau djöfla og nirða

Auður Ösp
Miðvikudaginn 1. nóvember 2017 12:58

Þriggja barna móðir hlaut í gær tveggja ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa beitt börnin sín grófu ofbeldi á árunum 2012 til 2016. Fram kemur í dómnum að brot konunnar séu alvarleg en hún var fundin sek um að hafa endurtekið beitt börnin sín, tvo drengi og stúlku ofbeldi, andlegum og líkamlegum refsingum, ógnað þeim og sýnt þeim vanvirðandi háttsemi, yfirgang og ruddalegt athæfi.

Var móðirin fundin sek um að hafa rasskellt öll börnin auk þess sem hún sló þau víðsvegar um líkamann bæði með höndunum og með belti. Meðal annars kemur fram að hún hafi í eitt skipti slegið dóttur sína í líkamann með leikfangagítar þannig að gítarinn brotnaði og slegið hana síðan með moppu í andlitið.

Hafa málefni barnanna verið til skoðunar hjá barnaverndaryfirvöldum síðan móðir þeirra flutti með þau tvö elstu til landsins í byrjun árs 2011. Hóf hún þá sambúð með manni sem beitti börnin ofbeldi. Fékk hún aðstoð frá Barnavernd við að komast af heimilinu með börnin og kom fljótlega í ljós eftir það að hún var barnshafandi. Fram kemur að síðan í janúar 2016 hafi Barnavernd sex sinnum borist tilkynningar frá lögreglu og undir nafnleynd þar sem greint er frá því að elsta dóttirin hafi þurft að sjá að mestu um heimilið og bera ábyrgð á yngri bræðrum sínum, börnin séu illa hirt og skítug og grunur leiki á móðirin neyti fíkniefna. Hún var svipt forsjá barna sinna í maí 2016.

Skýrslur voru teknar af börnunum fyrir dómi þar sem elsta dóttirin greindi frá því að hún hefði þurft að elda, þrífa og hugsa um bræður sína á hverjum einasta degi. Á meðan hún hefði séð um húsverkin hefði móðir hennar oftast verið í símanum og þá hefði verið erfitt að ná sambandi við hana. Þannig hefði þetta verið lengi, en þetta hefði byrjað smám saman. Hún hefði þurft að vakna klukkan sex á morgnana vegna þessa. Lýsti hún því að hún hefði verið mjög þreytt af þessum völdum. Ef hún gerði þetta ekki trylltist móðir hennar. Lýsti hún því einnig að móðir hennar yrði alltaf reið þegar þau systkinin gerðu eitthvað af sér og þá lemdi hún þau. Á öðrum stað sagði hún móður sína oftast líka kalla sig ljótum nöfnum, eins og djöful og að hún segði það sama við bræður hennar.

Þá sagði eldri drengurinn að móðir hans hefði stundum öskrað á hann, stundum meitt hann með belti, stundum sett hann inn í herbergi og látið hann sitja lengi. Hún hefði stundum meitt hann mikið. Hún lemdi með belti, rassskellti hann og léti hann fara inn í herbergi og setjast, stundum í marga klukkutíma. Svo hafi hún látið hann setjast eða leggjast og meitt hann með belti. Þá lýsti hann því hvernig hún bryti beltið saman og lemdi mjög fast með því. Þegar hún væri að fara að skamma hann segði hún honum að ná í belti en hún tæki alltaf beltið sem hann meiddi sig mest á. Sagði hann jafnramt að stundum hefði hún öskrað á þau systkinin, skammað þau og sagt ljóta hluti, til dæmis kallaði hún þau nirði.

Þá kvaðst yngri sonur frekar vilja vera hjá fósturmóður sinni sem hann væri ekki lengur hjá af því að „venjulega“ móðir hans meiddi hann. Þegar hann væri óþekkur meiddi hún hann, til dæmis rassskellti hún hann með belti.

Neitaði sök

Móðir barnanna neitaði alfarið sök fyrir dómi og sagði enga af þeim áverkum sem fundust á börnunum við lækniskoðun hafa verið af sínum völdum. Kom hún með útskýringar á borð við slys og óhöpp og að börnin hefðu meitt sig i leikjum og íþróttum. Sagðist hún ekki geta skýrt af hverju börnin greindu frá ofbeldi af hennar hálfu, en svo virtist sem þau hermdu hvert eftir öðru. Þá gæti þetta verið þeirra leið til að fá athygli og aðstoð. Þá sagðist hún telja að börnin hefðu hugsanlega brugðist við vanrækslu og bágum aðstæðum með því að bera á hana ofbeldi.

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að brotin séu alvarleg og hafi staðið yfir um margra ára skeið og beinst að þremur ungum börnum hennar. Þá hafi þau verið framin á heimilum þeirra þar sem þau eiga að hafa öruggt skjól.

Auk fangelsisdómsins er henni gert að greiða dóttur sinni 1,5 milljónir í bætur og sonunum tveimur 1,2 milljónir hvorum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Helgi um Val banamann: „Hversu fullur má maður vera til þess að einhver megi berja mann til dauða?“

Helgi um Val banamann: „Hversu fullur má maður vera til þess að einhver megi berja mann til dauða?“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Eva Joly sérstakur gestur á 10 ára afmæli hrunsins

Eva Joly sérstakur gestur á 10 ára afmæli hrunsins
Fréttir
Í gær

Gyðingar og múslimar telja að umskurðarbann á Íslandi leiði til útskúfunar: „Þetta er það sem gerðist í Þýskalandi nasista“

Gyðingar og múslimar telja að umskurðarbann á Íslandi leiði til útskúfunar: „Þetta er það sem gerðist í Þýskalandi nasista“
Fréttir
Í gær

Hvað á að gera við konu sem er með vesen? Segja henni upp

Hvað á að gera við konu sem er með vesen? Segja henni upp
Fyrir 2 dögum

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?