Þetta er ástæðan fyrir því að Guðmundur treystir sér að starfa á Alþingi en ekki almennum vinnumarkaði

Mynd: Mynd DV / Róbert Reynisson

Nokkur umræða hefur sprottið upp á samfélagsmiðlum í kjölfar fréttar mbl.is um að bæði Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmenn Flokks fólksins, missi réttindi sín til örorkubóta þar sem þau séu nú bæði launamenn eftir kjör sitt á Alþingi. Sumir hafa spurt hvers vegna þau treysti sér til að starfa á Alþingi en hafi ekki treyst sér til að vinna skrifstofustörf svo eitthvað sé nefnt. Inga Sæland er lögblind og Guðmundur Ingi hefur verið örykri frá árinu 1993 þegar hann lenti í bílsslysi.

Í samtali við DV segir Guðmundur Ingi að svarið við þessu sé fremur einfalt, á Alþingi geti hann kallað út varaþingmann ef hann treysti sér ekki að mæta í vinnu. Það sé ekki í boði á almennum vinnumarkaði. Hann treysti sér þó vel til að stafa á Alþingi. „Ég horfi á Alþingi þannig að ef ég gæti ekki unnið þá er varamaður til staðar. Á almennum vinnumarkaði myndi það aldrei vera gúdderað, að það væri einhver auk sem væri tilbúinn að taka við. Það getur allt gerst, ég renn alveg blint í sjóinn og veit ekkert hvernig þetta verður, en ég geri mitt besta. Ég hætti ekki að vera til hvort sem ég sé á Alþingi eða hérna heima,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Ingi hefur ekki starfað á almennum vinnumarkaði frá árinu 1993 en þá lenti hann í bílsslysi. Áður hafði hann starfað sem verslunarstjóri Brynju á Laugaveginum og þar áður sem lögreglumaður í Grindavík og Keflavík. „Ég er með uppáskrifað frá lækni að hausinn á mér er í lagi. Ég fékk það nefnilega í síðasta mati, þar var það sérstaklega tekið fram. Ég hef fengið allskonar skrýtin möt, eitt var þannig að ég ætti ekki að starfa í vinnu þar sem væri annað hvort andlegt né líkamlegt álag. Ég spurði nú hvaða vinna það væri. Ég var nú að grínast við Geðhjálp um daginn að loksins væri ég búinn að finna hana og það væri á Alþingi,“ segir Guðmundur og hlær.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.