Margrét óttast slæm áhrif hrekkjavöku á sálarlíf barna: Vill englahátíð einu sinni á ári

Margrét Friðriksdóttir, frumkvöðlafræðingur og einn stjórnanda Stjórnmálaspjallsins á Facebook, spyr á Facebook-síðu sinni hvort það væri ekki hægt að koma á stað hátíð til mótvægis við hrekkjavöku, sem verður sífellt vinsælli hér á landi.

„Þessi Halloween hátíð er frekar óhugnanleg, má ekki hafa englahátíð einu sinni á ári líka, svona til að búa til smá jafnvægi?,“ spyr Margrét.

Einn vinur hennar spyr á móti í athugasemd: „Eru jól og páskar ekki nóg? Þá flýja púkar í sukk og svínarí“. Því svarar Margrét: „Jól og páskar er öllu heldur frelsarans Jesú hátíð, en væri til í svona grímuballshátíð þar sem börnin klæða sig upp eins og englar, en ekki liðin lík eða djöflar.“

Ein vinkona Margrét bendir á öskudaginn en þá klæða börn sig upp sem alls kyns verur en ekki einungis púkar. „Einmitt en á Halloween sér maður bara liðin lík, blóð og djöfla, finnst það ekkert voðalega jákvætt ef ég á að segja alveg eins og er,“ segir Margrét.

Margrét segir enn fremur að í sjónvarpsfréttum þar sem fréttamaður heimsótti leikskóla hafi hún einungis séð djöfla og liðin lík.

„Maður spyr sig einnig hvernig áhrif þetta hefur á sálarlíf ungra barna, í sumum tilvikum getur þetta ef til vill valdið martröðum og hræðslu. Börnin eru jú missterk, viðkvæm og svo framvegis? Það er til dæmis ástæða fyrir að hryllingsmyndir eru bannaðar börnum og svo framvegis,“ segir Margrét og bætir við að hún velti fyrir sér hvort eigi að banna hátíðina fyrir ung og ómótuð börn.

Fréttamaður Stöð 2 heimsótti leikskóla í gær.
„Djöflar og liðin lík“ Fréttamaður Stöð 2 heimsótti leikskóla í gær.

Margrét var þá spurð hvort það eigi að banna jólasveina, þar sem mörg börn séu hrædd við þá.

„Jólasveinar bera með sér góðan boðskap og gjafir til handa börnunum, eitthvað uppbyggilegt á ég við, kannski ekki Grýla og Leppalúði en þau sjást sjaldnar en jólasveinarnir, get hins vegar ekki séð að blóð, djöflar og liðin lík geri sama gagn fyrir börnin heldur þvert á móti,“ svarar Margrét.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.