Björt sendi Brynjari koss: „Áreittur með rafkossi!“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann sé staddur í Helsinki og tekur hann það sérstaklega fram hve stoltur hann sé af Björt Ólafsdóttur, fráfarandi umhverfisráðherra.

„Er staddur á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki. Hlustaði í gær á forsætisráðherra þjóðanna halda ræður um samstarfið og mikilvægi þess. Kristján Þór Júlíusson, staðgengill forsætisráðherra, flutti frábæra ræðu og bar af öðrum. Sat svo fund núna í hádeginu með umhverfisráðherrum landanna að ræða eiturefni og örplast í umhverfinu og loftlagsmál. Þar var ég stoltur af umhverfisráðherra okkar, sem var skýr í framsetningu og talaði af þekkingu. Það fer ágætlega á með okkur hér á þinginu enda forðast ég að ræða stjórnarslitin,“ segir Brynjar.

Björt Ólafsdóttir, sem datt um helgina af þingi, tekur vel í þetta hrós Brynjars í athugasemdum. „Ef það er eitthvað sem hefur reynst mér sérstaklega erfitt á þingi þá er það að vera pirruð út í þig Brynjar minn. Sama hvað í fjandanum gengur á. Hérna færðu svo rafkoss,“ skrifar Björt og lætur slíkan broskall fylgja.

Ritstjórinn fyrrverandi, Reynir Traustason, segir allt sem segja þarf og vísar í uppákomu þegar Brynjar spurði Steinunni Þóru Árnadóttur hvort hann mætti kyssa hana: „Brynjar áreittur með rafkossi!!!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.