Danska útlendingastofnunin kom upp um víðtækt svindl hjá hælisleitendum – Voru með nákvæmar leiðbeiningar um hvað ætti að segja

Flóttamenn á leið til Evrópu.
Flóttamenn á leið til Evrópu.
Mynd: EPA

Eftir margra mánaða rannsókn dönsku útlendingastofnunarinnar hefur hún komist að þeirri niðurstöðu að umsóknir 634 hælisleitenda séu byggðar á röngum upplýsingum og að fólkið hafi logið til um stöðu sína. Mál 700 hælisleitenda voru tekin til rannsóknar og reyndust 634 hafa gefið rangar upplýsingar í hælisumsóknum sínum.

Fólkið sagðist vera úr ríkisfangslausum, ofsóttum og kúguðum minnihlutahóp í Kúveit. Dönsk yfirvöld hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að 634 af þessum umsækjendum séu ekki frá Kúveit heldur frá Írak. Umsóknum þeirra hefur því verið hafnað og áfrýjunarnefnd hefur staðfest þær hafnanir í fyrstu 16 málunum sem hún hefur tekið til meðferðar.

Jótlandspósturinn hefur eftir Anders Dorph, aðstoðarforstjóra útlendingaeftirlitsins, að þetta sé stærsta málið þessarar tegundar sem upp hefur komið. Áður hafi verið dæmi þess að fólk hafi logið til um þjóðerni sitt en ekki hafi verið um svo umfangsmikið svindl að ræða eins og í þessu máli.

Rannsóknarteymi útlendingastofnunarinnar kortlagði fjölskyldutengsl fólksins og rakti ferðir þeirra með því að skoða samfélagsmiðla, farsímagögn og með samvinnu við önnur ríki. Niðurstaðan var að fólkið sé líklegast frá Írak en ekki Kúveit.

Í ljós koma að rúmlega 300 af þessum 700 hælisleitendum eru úr sömu fjölskyldunni og hjá tveimur fundust nákvæmar upplýsingar um hvað þeir ættu að segja og gera í viðtölum hjá útlendingastofnuninni til að styrkja þá sögu að þeir væru ríkisfangslausir og frá Kúveit.

Jótlandspósturinn hefur eftir Thomas Gammeltoft-Hanse, prófessor við Raoul Wallenberg-stofnunina í Svíþjóð sem rannsakar málefni flóttamanna, að leiðbeiningarnar og umfang málsins bendi til að skipulögð samtök standi á bak við þetta. Hann sagði að það væri kostur fyrir Íraka að segjast vera ríkisfangslausir Kúveitbúar þegar þeir sækja um hæli. Í fyrra hafi aðeins 13 prósent hælisleitenda frá Írak fengið hæli. Ekki liggi fyrir neinar tölur um þá fáu ríkisfangslausu Kúveitbúa sem hafi sótt um hæli á undanförnum árum en á síðasta ári hafi 82 prósent allra ríkisfangslausra hælisleitenda fengið hæli.

„Það er mikill viðskiptagrundvöllur fólginn í að falsa skjöl og hjálpa fólki við að koma sér upp fölskum sjálfsmyndum ef það tryggir þeim nær örugglega hæli. Ef Íraki getur aukið líkurnar á að fá hæli um 80 til 90 prósent þá er augljóst að það getur verið aðlaðandi fyrir marga að reyna að nota annað þjóðerni en sitt eigið.“

Sagði Gammeltoft-Hansen.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.