„Þetta er hernaður við íbúa Seljahverfis“

Nýfallinn dómur gegn vistmanni í öryggisvistun opinberar svik Reykjavíkurborgar að mati íbúa

Íbúar eru uggandi yfir nýföllnum dómi gegn vistmanni í öryggisvistuninni sem Reykjavíkurborg kom á laggirnar í skjóli nætur. Að þeirra mati á slík starfsemi ekki heima í rólegu íbúðarhverfi.
Rangársel Íbúar eru uggandi yfir nýföllnum dómi gegn vistmanni í öryggisvistuninni sem Reykjavíkurborg kom á laggirnar í skjóli nætur. Að þeirra mati á slík starfsemi ekki heima í rólegu íbúðarhverfi.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þetta eru fullkomin svik við íbúa. Það var búið að lofa okkur því að hættulegir einstaklingar yrðu ekki vistaðir þarna. Núna þurfa íbúar hverfisins að horfa upp á heimsóknir lögreglu og sérsveitar. Það voru ung börn sem urðu vitni að því þegar vistmaður var dreginn handjárnaður upp í sérsveitarbíl. Þessi starfsemi á ekki heima í rólegu íbúðarhverfi,“ segir afar ósáttur íbúi í grennd við íbúðakjarna í Rangárseli þar sem Reykjavíkurborg hefur byggt upp svokallaða öryggisvistun. Á dögunum féll dómur þar sem eini vistmaðurinn í Rangárseli var dæmdur fyrir gróf ofbeldisbrot, meðal annars gegn forstöðumanni og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar. Starfsemin hefur verið umdeild frá fyrstu tíð og eru íbúar afar ósáttir við skort á upplýsingum frá yfirvöldum.

Gróf svik Reykjavíkurborgar

Íbúðarkjarninn við Rangársel var um árabil í eigu Öryrkjabandalags Íslands. Þar dvöldu einstaklingar með ýmsar fatlanir og í góðu sambýli við nágranna sína. Það breyttist þegar Félagsbústaðir keyptu fasteignina í nóvember 2014. Fljótlega var húsnæðið rýmt og tilkynnt um þau áform velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að í húsnæðið myndu flytja einstaklingar með margs konar fötlun, sem glímdu við vímuefnavanda, aðallega ungir karlmenn. Íbúar mótmæltu fyrirætlununum hástöfum og sauð meðal annars upp úr á íbúafundi í Seljakirkju. Á honum héldu borgaryfirvöld því fram að vímuefnaneytendur yrðu ekki markhópur starfseminnar.

Fljótlega fluttu síðan tveir menn með alvarleg geðræn vandamál í íbúðakjarnann. Þurftu íbúarnir fljótlega að þola margs konar uppákomur tengdar vistmönnunum. Meðal annars gerðist annar þeirra sekur um grófa líkamsárás gegn íbúa í næsta nágrenni og hinn fletti sig klæðum fyrir framan nærliggjandi leikskóla.

Tæpum tveimur árum síðar, þann 28. mars síðastliðinn, fjallaði DV um áhyggjur íbúa vegna öryggisgirðinga sem risu í kringum íbúðakjarnann í skjóli nætur. Íbúar í hverfinu voru afar ósáttir við feluleik Reykjavíkurborgar í málinu enda hafði íbúum ekki verið kynnt hvaða starfsemi yrði í húsinu. Þegar íbúar gengu á borgaryfirvöld kom í ljós að um svokallaða öryggisvistun var að ræða. Aftur var ítrekað að engir hættulegir einstaklingar yrðu vistaðir á þessum stað enda eru skólar, leikskólar og dvalarheimili aldraðra í næsta nágrenni. Þá var því heitið að upplýsingaflæði til íbúanna yrði aukið. Þau loforð telja íbúar að borgaryfirvöld hafi gróflega svikið.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.