Farsakennt gjaldþrot Okkar bakarís

Starfsmenn sitja eftir með sárt ennið - Væntanlegur kaupandi segist svikinn

Í vikunni var greint frá því að Okkar bakarí ehf., sem rekur þrjú bakarí, tvö í Garðabæ og eitt í Hafnarfirði, hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Eigandi fyrirtækisins er Jón Heiðar Ríkharðsson en hann keypti og tók við blómlegum rekstri fyrirtækisins árið 2012. Síðan þá hefur smátt og smátt hallað undan fæti í rekstrinum og hefur gæðum, úrvali og þjónustu hrakað mjög undanfarna mánuði. Fjölmargt starfsfólk situr uppi með sárt ennið eftir gjaldþrotið. Þá telur Jarek Kuczynski, sem á og rekur Hverafold bakarí, sig hafa verið illa svikinn í viðskiptum sínum við Jón Heiðar. Hann hafði skrifað undir samning um kaup á fyrirtækinu skömmu fyrir gjaldþrotið. Hann hafi þegar byrjað að reyna að laga reksturinn og farið í talsverð fjárútlát til þess. Viku síðar hafi lögfræðingur Jóns Heiðars tilkynnt honum að fyrirtækið yrði selt til samkeppnisaðila. „Þetta er algjört rugl. Ég skil ekki hvernig er hægt að hegða sér á þennan hátt í viðskiptum,“ segir Jarek í samtali við DV.

Fastakúnnum blöskraði ástandið

Okkar bakarí var tekið til gjaldþrotaskipta þann 26. september síðastliðinn og verður skiptafundur haldinn þann 19. desember. Rekstrinum hafði hrakað hratt undanfarin misseri og aðdragandi gjaldþrotsins virðist hafa verið farsakenndur í meira lagi. Starfsfólk situr eftir með sárt ennið. „Það var orðið erfitt að fá vörur til að selja. Allt bakkelsið var bakað í versluninni í Iðnbúð en tækin voru orðin lúin. Það sem kom til okkar var stundum hrátt eða brennt. Það er fjöldi eldri borgara hérna í nágrenninu sem voru fastir viðskiptavinir og þeim var farið að blöskra ástandið. Að lokum gáfust flestir upp á að versla við okkur,“ segir starfsmaður fyrirtækisins sem var staðsettur í útibúi bakarísins í Sjálandshverfi.

Að sögn starfsmannsins hafi flestir starfsmenn gefist upp og hætt undanfarna mánuði. „Það voru margir sem hættu 1. september enda fékk fólk ekki laun greidd. Bakararnir voru líka flestir horfnir til annarra starfa og það var aðallega treyst á nema í bakstrinum,“ segir starfsmaðurinn. Sem dæmi um slæmt ástand rekstursins hafði útibúið í Sjálandi ekki verið þrifið í marga mánuði. „Ástandið var enn verra í Iðnbúð. Þar var ógeðslega skítugt.“ Þá segir starfsmaðurinn að skömmu fyrir gjaldþrotið hafi ósáttur eigandi útkeyrslufyrirtækis mætt á útsölustaðina í Garðabæ og hreinsað út flestar vörurnar sem eftir voru í kælinum upp í skuld.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.