Sigurður Ingi fordæmir Þórarin sem kennir Framsóknarflokknum um að hann sé þunglyndur alkóhólisti

Formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, fordæmir skrif Þórarins Þórarinssonar um Framsóknarflokkinn í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag. Þórarinn segir að það sé flokknum að kenna að hann sé þunglyndur alkóhólisti og útbrunninn blaðamaður, en ekki sjálfum sér. Þórarni finnst að það ætti að gefa Framsóknarflokknum frí svo hann geti átt á áhyggjulaust ævikvöld.

„Ég hef verið með Framsóknarflokkinn á bakinu í 46 ár og er orðinn ansi þreyttur á honum. Ég er varla einn um þetta enda flokkurinn hundrað ára meinsemd og fólk streymir nú úr honum sem aldrei fyrr. Flóttafólkið mætti þó hafa í huga að hvert sem maður fer tekur maður sjálfan sig alltaf með,“ segir Þórarinn í pistlinum.

Hann segir að sér hafi verið strítt í æsku vegna tengsla sinna við Framsóknarflokkinn. „Ég er skírður í höfuðið á afa mínum. Hann sat á þingi fyrir flokkinn í nítján ár og ritstýrði málgagni hans í rúma hálfa öld. Afi var Tíma-Tóti og vann náið með Hriflu-Jónasi, Hermanni, Eysteini, Óla Jó. og Steingrími. Ég var ekki orðinn eins árs þegar tíu miðar frá happdrætti Félags ungra framsóknarmanna duttu óumbeðnir inn um bréfalúguna hjá ungum foreldrum mínum. Ég bara fæddist inn í flokkinn! Mér var strítt í æsku og fyrsti tengdapabbi minn úrskurðaði mig ónýtan til undaneldis. Kærði sig ekki um barnabörn sem bæru hinn arfgenga og ólæknandi framsóknar­vírus,“ segir Þórarinn.

Sigurður Ingi bregst við þessum pistli á Facebook-síðu sinni og segir hann það dapurlegt að Þórarinn hugsi svo um flokkinn. „Hversu lágt er hægt að leggjast í skrifum þegar menn tala um að útiloka stjórnmálaafl, fjöldahreyfingu,12.000 manns frá því að eiga þátt í að móta sameiginlega framtíð okkar Íslendinga? Hvar er umburðarlyndið fyrir ólíkum skoðunum og lífsviðhorfum? Hvert erum við eiginlega komin sem þjóð þegar baksíða þess blaðs, sem auglýsir sig „sem mest lesna blað landsins“ birtir grein um að „losna við“ slíka fjöldahreyfingu. Hvaða hóp á næst að „losna við“?,” spyr Sigurður Ingi.

Hann segir að Þórarinn þekki ekki Framsóknarflokkinn. „Sá sem skrifar slíkt, þekkir ekki Framsóknarflokkinn, enda aldrei kynnst því góða fólki sem í honum er. Þeir sem hafa valið að starfa í Framsóknarflokkum vilja standa vörð um lýðræðið og setja manninn og velferð hans í öndvegi. Fólk velur að fara í flokksstarf til að starfa að ákveðnum hugsjónum. Það þýðir ekki að við þurfum að vera sammála um alla skapaða hluti, án rökræðunnar verður engin framþróun. Við sem í flokknum erum tökum málefnalegar umræður og komust að niðurstöðu og göngum óhikað til verks til að vinna að markmiðum um að bæta samfélagið fyrir fólkið í landinu,“ segir Sigurður Ingi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.