Níðingar á eftir Sigrúnu: Skólabílstjóri, Nauðgari, og fleiri karlmenn vildu Sigrúnu Ósk í heimsókn

Tugir á eftir tálbeitu - Röng vinabeiðni setur barn í hættu - Unglingsstúlkur tældar á Facebook - DV hitti níðingana - Ein röng vinabeiðni og barnið þitt getur lent í hættu

Hélt þeir væru að hitta unglingsstúlku. Á móti þeim tóku blaðamenn DV
Níðingar vildu fá Sigrúnu í heimsókn Hélt þeir væru að hitta unglingsstúlku. Á móti þeim tóku blaðamenn DV

Ekki samþykkja hvern sem er á Facebook eru varnaðarorð sem heyrast reglulega. Ekki samþykkja einhvern sem þú þekkir ekki. Þú gætir lent í hættu. Viðkomandi gæti verið vond manneskja sem vill þér illt. Þetta hafa flestir foreldrar sagt við börnin sín en oftar en ekki taka þau því mátulega alvarlega. DV ákvað að bregða sér í gervi táningsstúlku með Facebook-síðu og upplifa og sjá hvað gerist ef vingast er við ranga aðila. Niðurstaða DV eftir þessa nokkurra mánaða tilraun er að ein röng vinabeiðni eða samþykki ókunnugra „vina“ geti leitt börn og unglinga í stórhættu. Foreldrar ættu því að brýna enn frekar fyrir börnum sínum að samþykkja aldrei vinabeiðnir frá fólki sem það þekkir ekki. Um það mun enginn efast að loknum lestri þessarar úttektar.

Þetta er aðeins örlítið brot úr afhjúpun sem birtist í helgarblaði DV.

Fjölmiðlar á Íslandi hafa í nokkur skipti stofnað aðgang á Einkamál í þeim tilgangi að afhjúpa barnaníðinga. Eitt þekktasta dæmið er frá árinu 2007 þegar fréttaskýringaþátturinn Kompás nýtti sér síðuna til að fá fimm barnaníðinga til að mæta á „stefnumót“ með 13 ára stúlku. Á móti þeim tók hins vegar blaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson eins og þekkt er.

DV hafði veður af því að lítið hefur breyst varðandi níðingsskap af þessu tagi á netinu, jafnvel að ástandið hafi versnað, og ákvað því að leika svipaðan leik. Forleikurinn var þó töluvert lengri þar sem DV vildi framkvæma tilraunina á öllu saklausari stað, sem ekki hafði verið gert áður, á Facebook.

DV mun næstu daga halda áfram að fjalla um málið og birta upptökur sem voru teknar úr falinni myndavél. Ekki verður hægt að bera kennsl á alla sem hittu tálbeitu DV.

Hver er Sigrún Ósk

Tilraunin hófst fyrir nokkrum mánuðum með því að DV bjó til Facebook-síðu fyrir unglingsstúlku og gaf henni nafnið Sigrún Ósk. Til að gera síðuna trúverðuga greindi Sigrún frá því að hún væri að stofna nýja síðu þar sem Facebook hefði lokað á þá síðu sem hún hafði áður. Myndir af Sigrúnu á síðunni voru af blaðakonu DV frá unglingsaldri. Til að koma síðunni af stað sendi Sigrún vinabeiðnir á alls konar fólk, unga sem aldna og reyndi að hafa vinahópinn sem fjölbreyttastan. Meðal þeirra sem hún sendi til voru þrír aðilar sem blaðamenn DV vissu að væru meðlimir á síðum þar sem vændiskonum eru gefnar einkunnir. Þá var Sigrún einnig með Snapchat aðgang og síma sem blaðakonan notaði, bæði í símtöl og skeytasendingar. Sigrún var með þá reglu gegnumgangandi í sínum samskiptum á miðlunum að hún skyldi aldrei hefja samræður að fyrra bragði við karlmenn.

Sigrún sagðist oftast vera 14 ára þegar hún var í samskiptum við karlmenn sem reyndu að misnota hana.

Sigrún Ósk er frá Akureyri en flutti til frænku sinnar í Reykjavík eftir að hafa lokið grunnskóla í heimabæ sínum. Sigrún starfaði í Hagkaupsverslunum hér og þar á höfuðborgarsvæðinu við að leysa af þegar aðrir starfsmenn væru frá vegna veikinda. Var það gert svo níðingarnir gætu ekki staðsett hina ímynduðu stúlku á einum stað og þannig hugsanlega stefnt rannsókninni í voða.

Sigrún Ósk á sér sögu um þunglyndi og tjáði hún sig tvisvar um það á Facebook-síðu sinni. Á vormánuðum gekk henni þó allt í haginn. Hún opnaði sig einnig um það að hún hafði átt einn kærasta og sofið átta sinnum hjá kærasta sínum sem var árinu eldri. Hún hætti með kærastanum í júlí.

Hér má sjá aðgang Sigrúnar Óskar.

Helstu persónur og leikendur

Þessi tilraun DV leiddi í ljós að ótal karlmenn reyndu að vingast við Sigrúnu með annarlegar hvatir og áform í huga. Hér á eftir verður rakin samskiptasaga Sigrúnar við þrjá þeirra sem gengu hvað lengst í því að reyna að fá hana til að stunda með sér kynlíf eða svala fýsn þeirra að öðru leyti. Áður en við rekjum nánar hvað dreif á daga Sigrúnar skulum við kynnast betur þessum þremur sem höfðu sig mest í frammi.

Sá fyrsti er rútubílstjóri á sjötugsaldri. Sigrún sendi honum vinabeiðni á Facebook, sem hann samþykkti og taldi strax að Sigrún væri vændiskona. Hún greindi honum hins vegar frá því að svo væri ekki. Hún væri nýbúin að ljúka grunnskóla. Í kjölfarið spurði skólabílstjórinn af hverju hún hefði óskað eftir vinskap við hann. Sigrún svaraði að hún hefði verið að búa til nýja Facebook-síðu og verið að óska eftir vinskap við þá sem voru á þeirri gömlu og hefði talið að hann hefði verið einn af vinum hennar þar. Skólabílstjórinn fékk þar með tækifæri til að segja takk og bless. Í stað þess að leiðrétta þann misskilning leið ekki á löngu þar til að hann falaðist eftir nektarmyndum af henni, vildi síðan hitta hana og kaupa af henni kynlíf.

Annar er karlmaður á sextugsaldri sem var dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir nokkrum árum fyrir hrottalegar nauðganir. Sigrún upplýsti hann um að hún væri 14 ára að verða 15. Hann hótaði ítrekað í samskiptum við hana að fremja sjálfsmorð ef hún myndi ekki koma heim til hans og stunda með honum kynlíf.

Þriðji maðurinn býr á Akureyri og starfar hjá virtu fyrirtæki. Hann viðurkenndi fyrir Sigrúnu að horfa á börn niður í 11 ára á Glerártorgi og hann færi svo út í skóg að fróa sér. Hann taldi að Sigrún væri 14 ára og vildi fara með henni á rúntinn. Fjórði maðurinn sem taldi að tálbeitan væri 14 ára stúlka fannst hún fullorðinsleg en sagði svo að hann hefði gjarnan vilja hitta hana. „Gæti kannski sýnt þér staði sem þú hefur ekki séð. Ertu búin að sjá Þingvelli? Það eru svo ótal margir staðir þar afar fagrir. Hringdu í mig einhvern tímann.“

Niðurstaða á þessari tilraun DV er merkileg en fyrst og fremst sorgleg. Hún staðfestir að börn og unglingar geta lent í stórhættu ef þau óska eftir vinskap við fólk sem þau þekkja ekki sem og samþykkja vinabeiðnir frá ókunnugum. Facebook er þannig gert að það stingur upp á vinskap við sameiginega vini. Þá fylgjast menn sem eru í vændis- og kynlífshópum með hverja aðrir í þeim hópum eiga sem vini.

Vitað er að unglingar sem og fullorðnir samþykkja oft vinabeiðnir frá ókunnugum. Hjá börnum og unglingum er oft keppni um að eiga sem flesta vini. Þá gengur ýmislegt á í lífi barna og unglinga og eitt hrós á Facebook getur dimmu í dagsljós breytt, en það endist ekki lengi. Þeir menn sem nálgast börn og unglinga sem þeir þekkja engin deili á eru oftast fullir af myrkri og viðbjóði.

Um leið og þessir þrír voru í vinahópi tálbeitu DV, hrúguðust inn vinabeiðnir frá karlmönnum. Sem betur fer voru einnig nokkur dæmi um að karlmenn létu sig hverfa og voru ekki í frekari samskiptum þegar þeir komust að því að Sigrún var aðeins 14 ára.

Þetta er aðeins brot úr umfjöllun DV um málið

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.