Illugi um Ingu Sæland: „You can‘t make this shit up“ - Inga: Skítkastinu ætti að vera lokið

Segist engu hafa gleymt og markmiðið sé enn að útrýma fátækt

Illugi Jökulsson rithöfundur skýtur föstum skotum að Ingu Sæland, formanni Flokks flokksins, og gagnrýnir hana fyrir meintan tvískinnung. Sjálf segist Inga engu hafa gleymt og markmið Flokks fólksins séu þau sömu og áður: Að útrýma fátækt á Íslandi.

Hörð gagnrýni

„Inga Sæland táraðist í sjónvarpinu yfir því hvað fátækt fólk, örykjar og eldri borgarar ættu erfitt líf á Íslandi. Því næst þáði hún far í glæsikerru milljarðamærings út á Bessastaði þar sem hún lagði til við forseta Íslands að annaðhvort milljarðamæringurinn eða hinn milljarðamæringurinn yrðu fengnir til að mynda ríkisstjórn. Báðir höfðu orðið uppvísir að því að eiga fyrirtæki á aflandseyjum. You can't make this shit up,“ segir Illugi á Facebook-síðu sinni.

Eins og greint var frá í gær mættu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Inga Sæland saman þegar formenn þeirra flokka sem náðu kjöri á Alþingi funduðu með Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Inga sat í aftursæti Land Cruiser-bifreiðarinnar sem Sigmundur kom í. Í Fréttablaðinu í dag kemur svo fram að Inga hafi lagt til við Guðna Th. Jóhannesson að annað hvort Bjarni Benediktsson eða Sigmundur Davíð fengju umboð til stjórnarmyndunar.

Bauðst til að skutla henni

Sumir sáu ástæðu til að gagnrýna Ingu í gær en sjálf sagði hún í samtali við Eyjuna að ekki ætti að lesa of mikið í það að þau hefðu komið saman til fundar með forsetanum. Hún hafi verið að koma af öðrum fundi og fengið far með Sigmundi. Hún væri ekki með bílpróf og Sigmundur hafi boðist til að skutla henni. Þegar hún var spurð hvort þau stefndu að því að vinna saman eftir kosningar, sagði hún:

„Við höfum spjallað saman og átt óformlegar viðræður eins og aðrir flokkar. Er það ekki pólitík,“ spurði hún blaðamann Eyjunnar.

„Ég hef engu gleymt og mun berjast af öllu afli fyrir hugsjóninni okkar.“

„Guð blessi Panama“

Sem fyrr segir var Inga nokkuð gagnrýnd í kjölfarið og sagði Kristinn Hrafnsson, fjölmiðlamaður til dæmis, á Facebook-síðu sinni í gær: „Bandalagið Gunnlaugsson & Sæland í boði Útvarps Sögu er smart vending í farsa stjórnmálanna. Þetta er virðingarverð aðstoð við að einfalda spilið. Nú þarf bara að brúa frá Sælandi í Engey og bandalag stjórnarandstöðunnar er orðið að veruleika. Guð blessi Panama.“

Inga segist engu hafa gleymt

Inga svaraði gagnrýnisröddum á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hún þakkaði fyrir góðar kveðjur undanfarna daga. „Ég hef engu gleymt og mun berjast af öllu afli fyrir hugsjóninni okkar. Við viljum breytingar. Við viljum réttlæti. Við viljum að samfélagið okkar sé fyrir okkur öll en ekki bara sum,“ sagði Inga sem áréttaði það sem kom fram í nýgenginni kosninabaráttu og til hvers Flokkur fólksins var stofnaður.

„Flokkur fólksins var stofnaður til að útrýma fátækt og við höfum sannarlega ekki gleymt neinu um það."
Það undrar mig fremur annað að til skuli vera sá þjóðfélagshópur sem áttar sig ekki á því að skítkasti kosningarbaráttunnar ætti í raun að vera lokið og við loksins komin að ræðupúltinu þar sem röddin okkar fær að heyrast. En nú er kominn tími á koddann góða. Góða nótt og dreymi ykkur fallega,“ sagði hún.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.