„Fangelsin okkar eru geymsla“

DV gerði úttekt á stöðu fangelsismála á Íslandi -Páll Winkel fangelsismálastjóri segir þrepaskipta afplánun gefa góða raun -Guðmundur Þóroddson, formaður Afstöðu, segir tíðar endurkomur fanga til marks um að þeim sé ekki nógu vel sinnt

Skjólstæðingar Fangelsismálastofnunnar eru um 1.000 talsins á hverjum tíma. Alls afplána 152 dómþolar refsingar innan íslenska fangelsiskerfisins og 32 sitja í gæsluvarðhaldi. Þar að auki sinna á bilinu 140 til 170 einstaklingar samfélagsþjónustu, á hverjum tíma, og 170 einstaklingar til viðbótar eru á reynslulausn. Þá eru rúmlega 550 einstaklingar á boðunarlista Fangelsismálastofnunnar ríkisins.
Litla Hraun Skjólstæðingar Fangelsismálastofnunnar eru um 1.000 talsins á hverjum tíma. Alls afplána 152 dómþolar refsingar innan íslenska fangelsiskerfisins og 32 sitja í gæsluvarðhaldi. Þar að auki sinna á bilinu 140 til 170 einstaklingar samfélagsþjónustu, á hverjum tíma, og 170 einstaklingar til viðbótar eru á reynslulausn. Þá eru rúmlega 550 einstaklingar á boðunarlista Fangelsismálastofnunnar ríkisins.
Mynd: Mynd DV

Í dag afplána 152 dómþolar refsingu innan íslenska fangelsiskerfisins og 32 sitja í gæsluvarðhaldi. Þar að auki sinna á bilinu 140 til 170 manns samfélagsþjónustu, á hverjum tíma, og 170 til viðbótar eru á reynslulausn. Þá eru rúmlega 550 einstaklingar á boðunarlista Fangelsismálastofnunar ríkisins. Hluti dómþola bíður afplánunar í fangelsi á meðan aðrir bíða þess að hefja störf í samfélagsþjónustu. Skjólstæðingar Fangelsismálastofnunar, þegar allt er talið saman, eru því um það bil 1.000 talsins, á hverjum tíma.

Sitt sýnist hverjum þegar umræðan beinist að því hvort stofnunin nái að sinna lögboðnum verkefnum sínum sem skyldi. Árið 2016 luku 168 fangar, úr öllum þrepum, afplánun á Íslandi. Tæplega helmingur, eða 46 prósent þeirra, hafði áður afplánað dóm einhvern tímann á lífsleiðinni. Á sama tíma, ef miðað er við niðurstöður samnorrænnar rannsóknar frá árinu 2010, er Ísland með næstlægstu endurkomutíðni fanga á Norðurlöndunum. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, segir að ástæða þess að dómþolar brjóti af sér aftur sé sú að íslensk fangelsi séu ekkert annað en geymslur í augum yfirvalda. Því þurfi að breyta, til dæmis með því að auka námsframboð.

Yfirlit yfir fanga og hvort þeir hafi áður verið í afplánun

Taflan sýnir fjölda á árunum 2009 til 2016

Árið 2009 luku 202 afplánun. Þar af voru 121 í sinni fyrstu afplánun (60%). (40%) höfðu afplánað áður. Árið 2010 luku 172 afplánun. Þar af voru 107 í sinni fyrstu afplánun (62%). (38%). höfðu afplánað áður. Árið 2011 luku 216 afplánun. Þar af voru 153 í sinni fyrstu afplánun (71%). (29%) höfðu afplánað áður. Árið 2012 luku 230 afplánun. Þar af voru 146 í sinni fyrstu afplánun (64%). (36%) höfðu afplánað áður. Árið 2013 luku 213 fangar afplánun. Þar af voru 145 í sinni fyrstu afplánun (68%). (32%) höfðu afplánað áður. Árið 2014 luku 189 fangar afplánun. Þar af voru 125 voru í sinni fyrstu afplánun (66%). (34%) höfðu afplánað áður. Árið 2015 luku 210 afplánun. Þar af voru 135 í sinni fyrstu afplánun (64%). (36%) höfðu afplánað áður. Árið 2016 luku 168 afplánun. Þar af voru 90 í sinni fyrstu afplánun (54%). (46%) höfðu afplánað áður.

Guðmundur segir jafnframt að ef tekin yrði upp skýr betrunarstefna í íslenskum fangelsum, að norrænni fyrirmynd, myndi endurkomum fanga snarfækka. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að allur gangur sé á því hvort dómþolar hafi bætt ráð sitt þegar þeir koma aftur út í samfélagið. Fangelsismálastofnun leiti allra leiða til að aðstoða fanga við að fóta sig aftur í lífinu eftir að afplánun lýkur. Til dæmis sé unnið markvisst að því að hafa fjölbreytt námsframboð í fangelsunum. Það takmarkist þó eðlilega af fjárheimildum til málaflokksins. Þá segir Páll að í dag sé meiri áhersla lögð á afplánun utan fangelsa en áður.

Hefur hefur þungar áhyggjur af stöðunni í íslenska fangelsiskerfinu
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga. Hefur hefur þungar áhyggjur af stöðunni í íslenska fangelsiskerfinu

„Fangar eru afgangsstærð í samfélaginu“

„Það verður að viðurkennast. Fangar eru afgangsstærð í samfélaginu,“ segir Guðmundur Ingi. Hann segir stöðuna í fangelsismálum í dag mjög svipaða og undanfarna áratugi. „Við erum með refsistefnu á Íslandi, þrátt fyrir að halda öðru fram. Það er bara svoleiðis.“ Guðmundur vill meina að þó svo að á Íslandi sé þrepakerfi í fangelsisúrræðum, rétt eins og á hinum Norðurlöndunum, þá vanti alfarið betrunarstefnu í fangelsin. „Við erum með lokuð fangelsi, opin fangelsi, ökklaband og samfélagsþjónustu. Það sem vantar á Íslandi er betrunarstefna. Fangelsin okkar eru geymsla, á meðan eru þau betrunarhús á hinum Norðurlöndunum. Það segir sig sjálft að ef fangar fá ekki betrun þá munu þeir, að öllum líkindum, brjóta af sér og fara aftur í fangelsi.“

Greiðslur Fangelsismálastofnunar til fanga

Dagpeningar og fæðisfé fanga er reiknað út frá neysluviðmiði velferðarráðuneytisins.

Fangar fá 1.500 krónur á dag, alla daga mánaðarins, eða 45.625 krónur á mánuði í fæðisfé. Þá fá fangar 630 krónur á dag í dagpeninga, alla virka daga mánaðarins. Samtals 13.652 krónur á mánuði.

Fæðisfé og dagpeningar fanga eru því samtals 59.277 krónur á mánuði. Frá árinu 2007 hefur fæðisfé fanga því hækkað um 600 krónur dag. Þegar fangar byrjuðu fyrst að fá fæðisfé var það 600 krónur á dag. Hækkunin samsvarar 66 prósentum síðustu 10 ár.

Heimsóknir sjaldgæfar

Þá segir Guðmundur það afar mikilvægt að fangar fái fjölskylduleyfi. Það hafi sýnt sig að þeim föngum sem rækti fjölskyldutengsl gangi betur að fóta sig í tilverunni, eftir að þeir koma út, en öðrum. „Hér fá fangar ekki fjölskylduleyfi fyrr en eftir sex ár. Eftir svo langan tíma er fjölskyldan yfirleitt farin. Þar að auki finnst mér föngum gert allt of erfitt fyrir að fá fólkið sitt í heimsókn. Enda er það afar sjaldgæft að fangar fái heimsóknir.“ Guðmundur greinir frá því að á hinum Norðurlöndunum fái fangar persónusniðna áætlun um afplánun. Það vanti alveg á Íslandi. „Á hinum Norðurlöndunum fer félagsráðgjafi yfir málin með fanganum og gerir áætlun. Fanganum er til dæmis boðið að fara í nám – bæði bóklegt og verklegt, í meðferð eða hann spurður hvað hann vilji vinna við á meðan hann afplánar dóminn. “

Fangar eru allt of fókusaðir á sitt daglega líf. Þeir eru einnig, líkt og svo margir starfsmenn innan veggja fangelsanna, orðnir allt of samdauna kerfinu.

Ástandið í íslenska fangelsiskerfinu hefur, að mati Guðmundar, hangið allt of lengi í sama horfinu. Hann vill ekki skella skuldinni á Fangelsismálastofun. Ástæðan er skortur á fjármagni og vinnumenningin í fangelsunum sjálfum. „Stóra vandamálið er að stjórnmálamenn hugsa bara fjögur ár fram í tímann. Það borgar sig heldur ekki fyrir þá að hamast í fangelsismálum á Íslandi. Þau gefa ekki atkvæði. Guðmundur segir fanga heldur ekki nógu duglega að berjast fyrir réttindum sínum. „Fangar eru allt of fókusaðir á sitt daglega líf. Þeir eru einnig, líkt og svo margir starfsmenn innan veggja fangelsanna, orðnir allt of samdauna kerfinu.“

152 dómþolar afplána refsingar

Flestir fangar afplána á Litla-Hrauni

Af þeim 152 dómþolum sem eru að afplána refsingar eru 141 karlmaður og 11 konur. Dómþolarnir afplána á eftirfarandi stöðum:

Fangelsinu Hólmsheiði = 16 Fangelsinu Litla-Hrauni = 46 Fangelsinu Akureyri = 6 Fangelsinu Sogni = 19 Fangelsinu Kvíabryggju = 22 Í meðferð eða á öðrum stofnunum = 5 Vernd = 17 Í rafrænu eftirliti = 21

Guðmundur segir að ákveðnar valdaklíkur embættismanna, sem hafa starfað allt of lengi innan veggja fangelsanna, aftri breytingum og bættu vinnulagi. „Það þarf algjöra uppstokkun. Það þyrfti að segja upp öllum fangavörðum og ráða þá inn aftur undir öðrum formerkjum.“ Þá segir Guðmundur að honum finnist fáránlegt hversu mikið sé búið að lögfræðingavæða stjórnkerfi fangelsanna. „Það er í lögum að forstjóri fangelsanna eigi að vera lögfræðingur. Það er stórundarlegt í ljósi þess að skjólstæðingarnir eru í langflestum tilfellum mjög veikt fólk. Að okkar mati þyrfti að koma inn fleira heilbrigðismenntað fagfólk. Þá helst félagsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar. Eins og staðan er nú þá sjá alltof fáir félagsráðgjafar og sálfræðingar um öll fangelsin. Það er alls ekki ásættanlegt.“

Brot dómþola eru eftirfarandi:

Flestir sitja inni fyrir fíkiniefnabrot

Annað 8 Fíkniefnabrot 40 Kynferðisbrot 32 Manndráp/Manndráp af gáleysi 16 Ofbeldisbrot 17 Auðgunarbrot 29 Umferðarlagabrot/nytjastuldur 10

Ekki hægt að koma í veg fyrir glæpi

Á Íslandi er föngum boðið að stunda nám. „Þetta nám er ekki neitt, neitt. Fangarnir komast aldrei neitt áfram í náminu. Á Hrauninu, til dæmis, er aðeins boðið upp á nokkra grunnáfanga. Svo er restin kennd í fjarnámi. Það verður að segjast að fangar eru ekki sá hópur sem getur verið í fjarnámi, eða bóknámi yfir höfuð. Þetta fólk á miklu frekar heima í verknámi en það er ekki boðið upp á það á Íslandi.“

Guðmundur gagnrýnir skort á aðstöðu fyrir fanga sem myndu vilja læra verkgreinar. „Menntamálaráðuneytið hefur ekki sýnt vilja til að breyta þessu. Samt sem áður eru allir sammála um að verknám í fangelsum sé góð hugmynd. Til dæmis ef fangi myndi læra að keyra vörubíl í fangelsinu. Með meirapróf hefði einstaklingurinn margfalt meiri möguleika á að fá vinnu eftir að hann lýkur afplánun.“

Síðustu ár hefur Guðmundur reglulega bent á hversu hátt hlutfall dómþola endar aftur í afplánun á Íslandi. Til að sporna við því þurfi gagngera endurnýjun og fjármagn inn í fangelsiskerfið. „Allir vita þetta og vilja gera eitthvað í málunum en nú er komið að því að ég vilji fá loforð. Þetta er búið að vera í umræðunni of lengi. Við sendum tilkynningar á alla stjórnmálaflokkana og spurðum hverjir vildu taka þátt í því að bæta þennan málaflokk. Allir mið- og vinstriflokkarnir hafa svarað okkur og sýnt vilja. Það er þó ekki nóg. Ég vil fá loforð.“

Að lokum segir Guðmundur að það sé ekki hægt að koma í veg fyrir glæpi. Það sé þó vel hægt að koma í veg fyrir að sami gerandi fremji glæp oftar en einu sinni. Sú vinna, það er betrunin, ætti að fara fram í fangelsinu en því miður sé raunin önnur.

Dómþolarnir eru frá tíu löndum

Tæplega 87 prósent eru íslenskir ríkisborgarar

Þessir dómþolar eru frá 10 löndum: Albanía 1 Brasilía 1 Holland 6 Ísland 132 Litháen 1 Marokkó 1 Pólland 6 Rússland 1 Spánn 2 Þýskaland 2

Lág endurkomutíðni á Íslandi

„Flestir vilja standa sig að lokinni afplánun,“ segir Páll Winkel en bætir við allur gangur sé þó á því hvort fangar hafi raunverulega bætt ráð sitt þegar þeir losna úr fangelsi. Árið 2016 luku 168 dómþolar afplánun. Þar af voru 90 í sinni fyrstu afplánun. Tæp 46 prósent höfðu þannig afplánað dóm áður einhvern tímann á lífsleiðinni. Páll segir töluna ekki hærri en gengur og gerist á öðrum Norðurlöndum. Þegar endurkomutíðni er reiknuð, það er hlutfall þeirra sem fá nýjan dóm innan tilskilins tíma frá lokun afplánunar, upphafi samfélagsþjónustu, rafræns eftirlits eða skilorðs, er Ísland í heildina með næstlægstu endurkomutíðnina, 24 prósent, en Noregur þá lægstu, 20 prósent.

Segir námsframboð í fangelsum takmarkast af fjárheimildum til málaflokksins
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. Segir námsframboð í fangelsum takmarkast af fjárheimildum til málaflokksins
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Nýtt fyrirkomulag hefur reynst vel

Samkvæmt upplýsingum Fangelsismálastofnunar er meðal biðtími dómþola sem bíða þess að hefja afplánun um það bil tvö ár. Biðtíminn hefur því styst nokkuð en að undanförnu hefur fangarýmum fjölgað. Þá er lögð mun meiri áhersla, en áður, á afplánun utan fangelsa. Páll segir það gert að norrænni fyrirmynd. Til dæmis býðst föngum að vera í lengri tíma undir rafrænu eftirliti og/eða í samfélagsþjónustu. Að auki hafa reglur um reynslulausn verið rýmkaðar. „Plássum í opnum fangelsum hefur einnig fjölgað til muna,“ segir Páll og bendir á að stefna löggjafans sé að aðlaga fanga aftur að samfélaginu og reyna þannig að draga úr líkum á því að þeir brjóti aftur af sér. „Þetta er gert með því að hafa afplánun nokkurn veginn „þrepaskipta“. Það þýðir að menn hefja afplánun í lokuðu fangelsi, síðan er reynt að senda þá í opið fangelsi, þaðan á áfangaheimili (Vernd) og að lokum heim til sín með ökklaband áður en að reynslulausn kemur. Þetta fyrirkomulag hefur gefið góða raun.“

Í gæsluvarðhaldi sitja 32 einstaklingar

Þar af eru 53 prósent Íslendingar

Af þeim 32 einstaklingum sem sitja í gæsluvarðhaldi eru 30 karlar og 2 konur. Fólkið kemur frá átta löndum. Ekki er ekki vitað um þjóðerni eins.

Ekki vitað 1 Frakkland 1 Grænland 1 Holland 1 Ísland 17 Nígería 1 Portúgal 2 Pólland 7 Jemen 1

Ómögulegt að verðleggja fangelsiskerfið

Hjá Fangelsismálastofnun starfa tveir félagsráðgjafar og fjórir sálfræðingar í þremur stöðugildum. Þeir sinna á milli 150 og 200 föngum hverju sinni. Auk þessa sinna þeir dómþolum í samfélagsþjónustu og á reynslulausn. Þá sinnir einn náms- og starfsráðgjafi öllu kerfinu. „Það er alveg ljóst að ekki er unnt að komast hjá því að forgangsraða varðandi þjónustu þessara aðila,“ segir Páll. Aðspurður hvort það komi til greina að auka verklegt námsframboð í fangelsum svarar Páll. „Sífellt er unnið að því að bjóða upp á fjölbreytt námsframboð fyrir fanga en það takmarkast eðlilega af fjárheimildum til málaflokksins.“

Þrátt fyrir að sumir fangar eigi hvorki fjölskyldu né vini til að heimsækja hafa þeir einnig heimild til að fá slíkt leyfi enda gæti slíkt einnig gert þeim gott og hjálpað til við aðlagast samfélaginu á ný.

Páll segir kostnaðinn í fangelsiskerfinu mjög breytilegan. Fangelsin séu ólík í eðli sínu. Til dæmis hvað varðar stærð, fjölda fanga og öryggisstig. Þá sé það skilgreiningaratriði hvaða þætti stoðþjónustu Fangelsismálstofnun eigi að reikna inn í kostnað fanga. Að auki fari stór hluti starfs stofnunarinnar fram utan veggja fangelsanna. Því sé nánast ómögulegt að setja fram tiltekinn kostnað á hvern skjólstæðing. Spurður hvort nógu mikið fjármagn sé sett í fangelsismál á Íslandi svarar Páll. „Það er skilgreiningaratriði og fer eftir því hvað yfirvöld vilja gera.“

Gæsluvarðhaldsfangarnir eru á eftirtöldum stöðum

Flestir gæsluvarðhaldsfangar eru í fangelsinu Hólmsheiði

Fangelsið Akureyri 2 Fangelsið Sogni 2 Fangelsið Hólmsheiði 15 Fangelsið Litla-Hraun 10 Sjúkrahús eða aðrar stofnanir 3

Fjölskyldutengsl mikilvæg

Að sögn Páls er mikið lagt upp úr því að gera föngum kleift að viðhalda tengslum við fjölskyldu sína meðan á afplánun stendur. „Þrátt fyrir að sumir fangar eigi hvorki fjölskyldu né vini til að heimsækja hafa þeir einnig heimild til að fá slíkt leyfi enda gæti slíkt einnig gert þeim gott og hjálpað til við aðlagast samfélaginu á ný.“ Skilyrði fyrir veitingu fjölskylduleyfis er að fanga hafi áður verið veitt dagsleyfi og hann staðist skilyrði þeirra í samfellt tvö ár. „Reglan er sú að dagsleyfi komi fyrst til skoðunar þegar fangi hafi samfellt afplánað þriðjung refsitímans í fangelsi, þó ekki skemmri tíma en eitt ár. Þegar fangi hefur verið samfellt í fjögur ár í fangelsi er heimilt að veita honum slíkt leyfi þótt þriðjungur refsitímans sé ekki liðinn.

Samfélagsþjónar og reynslulausn

Á bilinu 140 til 170 einstaklingar sinna samfélagsþjónustu

Samfélagsþjónar eru þeir einstaklingar sem sinna samfélagsþjónustu í staðinn fyrir, eða sem hluta af, refsingu. Á hverjum tíma eru þeir á bilinu 140 til 170. Samfélagsþjónar vinna ólaunaða vinnu í þágu samfélagsins. Sem dæmi um vinnustaði eru Rauði krossinn, Samhjálp, kirkjur og íþróttafélög.

Þá eru, samkvæmt upplýsingum Fangelsismálastofnunar, 170 einstaklingar á reynslulausn í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.