Logi braut kosningalög þegar hann kaus á Akureyri í morgun: „Ég asnaðist bara til að gera þetta“

Formaður kjörstjórnar segir lög alveg skýr - „Atkvæðið ætti að ógildast“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, braut kosningalög þegar hann gekk út úr kjörklefanum í fylgd dóttur sinnar þegar hann kaus á Akureyri í morgun. Þetta sást í hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag. Í samtali við DV segist Logi hafa gert klaufaleg mistök.

Í 81. grein laga um kosningar segir meðal annars: „Þá er kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer kjósandi með hann inn í kjörklefann, þar sem kjósandinn má einn vera, og að borði því er þar stendur.“

DV hefur rætt við einstaklinga sem hafa séð um framkvæmd á kjörstöðum víða á landinu. Þeim ber saman um að horft sé framhjá því ef um mjög ung börn er að ræða en það horfi öðruvísi við þegar um stálpaða einstaklinga er að ræða, líkt og í þessu tilfelli.

„Það þarf að beita skynseminni í þessu,“ sagði einn viðmælandi DV. Annar viðmælandi sagði að um leið og barnið hefði þroska til að tjá sig og gæti tjáð sig um það sem fram fer í sjálfum kjörklefanum mætti það ekki fara inn í klefann. Þeim væri þó leyft að bíða inni á kjördeild.

Sveinn Sveinsson, formaður kjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður, segir í samtali við DV að lög séu alveg skýr hvað þetta varðar, atkvæði Loga er ógilt en þar sem hann skilaði því í kjörkassann þá sé lítið hægt að gera í því nú. „Það fer enginn með öðrum inn í kjörklefann nema viðkomandi þurfi á því að halda. Ungbörnin fá að fara með en það gengur ekki að stálpuð börn fari í klefann. Atkvæðið ætti að ógildast,“ segir Sveinn.

Hann segir að viðkomandi gæti kosið á ný en það sé nú of seint. Sveinn segir að kjörstjórn á Norðurlandi hefði átt að vekja athygli Loga á þessum reglum og láta hann kjósa aftur.

Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður yfirkjörstjórstjórnar í Norðausturkjördæmi, hafði ekki séð atvikið þegar DV ræddi við hann og gat ekki svarað því hvort um brot á lögum væri að ræða. Hann vísaði í Helgu Eymundsdóttir, formann kjörstjórnar á Akureyri. Ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar.

DV náði tali af Loga í dag og þá viðurkenndi hann að hafa gert mistök. Hann hafi ekki haft hugmynd um að þetta væri bannað. „Þetta voru klaufaleg mistök hjá mér. Hún er ekki með kosningarétt sjálf og ég asnaðist bara til að gera þetta. Ég hafði ekki hugmynd um það og það voru engin brögð í tafli þarna bara klaufaskapur einfalds manns sem mætti glaður á kjörstað að taka þátt í þessari veislu," segir hann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.