Hildur ver biskup: „Ænei, þetta er bara óforsvaranleg þöggunarþrá“

„Mér finnst til dæmis ekki siðferðilega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós. Við þurfum að byrja upp á nýtt með sannleikann að leiðarljósi og þá eru trúmennska, virðing og kærleikur ekki langt undan í þeirri vegferð.“

Þessi ummæli Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups yfir Íslandi hefur vakið mikla athygli. Lét hún þau falla í samtali við Morgunblaðið. Reynir Traustason hjá Stundinni brást illa við og tilkynnti að hann ætlaði að segja sig úr þjóðkirkjunni. Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan gagnrýndi Agnesi M. Og benti á að segir að umfjöllun Kastljóss um barnaníðinginn Karl Vigni Þorsteinsson hafi verið að hluta byggð á slíkum gögnum, sem Agnes væri nú að tala um. Hildur Eir Bolladóttir prestur á Akureyri lætur til sín taka í umræðunni og hefur skrifað tvö innlegg um málið í dag. Í fyrri skrifum sínum sagði hún biskup hafa fullt leyfi til að tjá sig um siðferðisleg álitamál og fólk gæti í kjölfarið andmælt rökum Agnesar.

„ ... þetta heitir lýðræði og þykir mjög eftirsóknarvert á heimsvísu, í almáttugs bænum hættið að láta eins og einhver kirkjumafía sé farin af stað að ganga erinda Sjálfstæðisflokksins.“

Illugi Jökulsson setti ofan í við Hildi og benti á að Agnes væri að leggja leið sína til að fordæma uppljóstrara:

„Í þessu sambandi má benda á að ekki einu sinni Bjarni Benediktsson hefur treyst sér til að fordæma lögbannið sem "siðferðilega rangt" líkt og Agnes virðist gera þarna. Þá má líka geta þess að Agnes hefur ekki - frekar en við hin - minnstu hugmynd um hvort skjölin sem Stundin hefur verið að birta hafi verið stolin. Hún slær því einungis föstu, auk þess sem hún bætir við einhver sé að "fara á bak við fólk". Hvað á hún við? Ænei, þetta er bara óforsvaranleg þöggunarþrá.“

Hildir tjáði sig svo aftur um biskup og kvaðst ekki vita hvort gögnin sem Stundin hefur undir höndum hafi verið stolin.

„Hins vegar má alveg rökræða hvenær réttlætanlegt er að taka eitthvað ófrjálsri hendi og hvenær ekki. Ég myndi segja að það væri rétt að stela til að bjarga mannslífi og leysa fólk úr ánauð og standa vörð um grundvallar mannréttindi og þá stendur eftir siðaklemman (það er að segja ef þessum tilteknum gögnum hefur verið stolið) hvort það verji öryggi og mannréttindi almennings að stela þeim, ég hef ekki svarið við því en það er mjög áhugaverð spurning sem mér finnst að við eigum að ræða og þurfum ræða [...] Ef þessum gögnum hefur hins vegar ekki verið stolið, nú þá er framsetning biskups auðvitað vandræðaleg en biskup er sjálfstæður kennimaður og stendur og fellur með sínum málflutningi. En ergo.... ef gögnunum hefur hins vegar verið stolið þá er allt í lagi að eiga samtal um réttmæti þess.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.