Lögregla ók utan í bíl ökumanns á flótta

Laust fyrir klukkan þrjú í nótt átti sér stað það atvik við Arnarbakka að ökumaður svaraði ekki merkjum lögreglu um að stöðva. Hann jók hraðann til að koma sér undan sem varð til þess að lögregla ók utan í bifreið hans við Bakkabraut en þar lauk eftirförinni. Ökumaður var handtekinn og vistaður í fangageymslu en hann var undir áhrifum fíkniefna.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar segir einnig frá því að umferðaróhapp varð um hálffjögurleytið í nótt á gagnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Ökumaður stakk af frá vettvangi en kom nokkru síðar akandi aftur á vettvang. Þrír erlendir men voru handteknir og vistaðir í fangageymslu vegna málsins. Íbúi í hverfinu segir bílinn hafa oltið við áreksturinn við lögreglubílinn og hann hafi náð meðfylgjandi mynd af veltunni: „Vakna um 3 leytið i nótt við mikið sírenuvæl stuttu seinna kemur stór hvellur og húsið nötrar allt, fer fram og kíki hvað er í gangi þá hefur eltingarleikurinn endað með að jeppinn hefur oltið svona einsog myndin sýnir,“ segir íbúinn í skilaboðum til DV.

Klukkan þrjú í nótt var óskað eftir aðstoð í miðborginni en þar var ráðist á öryggisvörð frá Securitas. Málið er í rannsókn, að sögn lögreglu.

Laust fyrir klukkan tvö í nótt datt drukkinn maður á hausinn við Ölhúsið í Hafnarfirði og var hann færður á Slysadeild Landspítalans til aðhlynningar.

Upp úr klukkan eitt í nótt var lögregla kölluð að Fáksheimilinu en þar hafði drukkinn maður brotið rúðu. Hann var handtekinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.