Verðandi prestur grunaður um hrottalegt morð á eiginkonu sinni

Krufning á líki ungrar konu frá bænum Raleigh í N-Karólínu varpar gruni á eiginmann hennar um að hann hafi myrt hana. Konan var með fjölmörg hnífstungusár á líkama sínum og var dánarorsök hennar sú að henni blæddi út.

Þau Matthew Phelps, 27 ára, og Lauren Hugelmaier Phelps, 29 ára, höfðu verið gift í innan við ár. Hann hafði lokið prófi frá biblíuskóla í Kentucky og stefndi að því að verða prestur en starfaði hjá lögfræðiþjónustu.

Kvöldið sem Lauren dó hringdi Matthew í neyðarlínuna og sagði að kona sín lægi dáin á gólfinu. Hann hefði verið sofandi á meðan hún var myrt og vaknað upp af draumi. En auk þess sagði Matthew:

„Ég er allur útataður í blóði og það er blóðugur hnífur á rúminu og ég held ég hafi gert þetta.“
Matthew sagði jafnframt í símtalinu að hann hefði tekið inn meiri lyf en hann hefði átt að gera og var um að ræða lyf sem hjálpar honum að sofna. Þá sagði hann enn fremur:

„Ég trúi því ekki að ég hafi gert þetta. Guð minn góður. Hún átti þetta ekki skilið. Hvers vegna?“

Matthew situr í gæsluvarðhaldi en við húsleit gerði lögreglan ýmsa muni á heimilinu upptæka, meðal annars tölvu og hníf.

Matthew er sterklega grunaður um morðið en ekki hefur komið fram nein ástæða fyrir morðinu.

Sjá nánar á Huffington Post

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.