fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Svona náði Portúgal yfirhöndinni í stríðinu gegn fíkniefnum

Sláandi munur á nálgun Portúgals og Bandaríkjanna sem bæði stóðu á krossgötum

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 21. október 2017 20:00

Nú verður gert refsilaust að vera með smáræði af hörðum fíkniefnum í fórum sínum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki þarf að leita marga áratugi aftur í tímann til að finna tímabil þar sem staða fíkniefnamála var sambærileg í Bandaríkjunum og Portúgal. Bæði lönd glímdu við fíkniefnavanda og fór neytendum harðra fíkniefna eins og heróíns ört fjölgandi.

Önnur nálgun

Bæði þessi lönd ákváðu að grípa til ráðstafana með það að leiðarljósi að vinna bug á fíkniefnavandanum fyrir fullt og allt – þótt leiðirnar sem þessi lönd fóru hafi verið ólíkar. Bandaríkjamenn vörðu gríðarlegum fjármunum í að fangelsa þá sem gerðust sekir um neyslu fíkniefna og þá sem voru með neysluskammta í fórum sínum. Portúgal aftur á móti afglæpavæddi alla fíkniefnaneyslu árið 2001, jafnvel neyslu harðra efna eins og heróíns, og varði miklum fjármunum í forvarnir. Frá árinu 2001 hefur verið litið á fíkniefnaneyslu sem heilbrigðistengda áskorun í stað þess að líta á hana sem viðfangsefni réttarkerfisins.

Margfalt færri dauðsföll

Sé litið til stöðu mála í þessum tveimur löndum í dag verður ekki annað sagt en að Portúgal hafi valið betri kostinn; neytendum harðra fíkniefna fjölgar sífellt í Bandaríkjunum og á síðasta ári er talið að 64 þúsund manns, fleiri en féllu í stríðunum í Víetnam, Afganistan og Írak til samans, hafi fallið af völdum of stórra skammta af fíkniefnum.

Til samanburðar hefur neytendum harða fíkniefna í Portúgal fækkað ár frá ári. Í umfjöllun breska blaðsins Independent um þetta mál á dögunum kom fram að árið 2001, þegar yfirvöld í Portúgal ákváðu að fara í átak, hafi heróínnotendum fækkað úr 100 þúsund í 25 þúsund. Á sama tíma hefur neytendum sem látast af völdum of stórs skammts af fíkniefnum fækkað um 85 prósent, en tekið er fram að þessi fjöldi hafi aukist lítillega í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þrátt fyrir það eru dauðsföll af völdum of stórs fíkniefnaskammts hvergi færri en í Portúgal af löndum Vestur-Evrópu – einn tíundi af því sem gengur og gerist í löndum eins og Bretlandi og Danmörku og einn fimmtugasti af því sem gengur og gerist í Bandaríkjunum um þessar mundir.

„Ef ég hefði ekki aðgang að þessum bíl þá veit ég ekki hvort ég væri á lífi.“

Eitt mannslíf á hverjum tíu sekúndum

Í umfjöllun bandaríska blaðamannsins Nicholas Kristof, sem skrifar um málið fyrir Independent, kemur fram að ef Bandaríkin næðu viðlíka árangri og Portúgal í baráttunni gegn fíkniefnum gætu þau bjargað einu mannslífi á hverjum tíu sekúndum að jafnaði. Kristof tekur fram að umfjöllunin sé honum hugleikin enda hafi hann séð hnignunina í heimaríki sínu, Oregon, á undanförnum árum. Þar hafi gamlir skólafélagar og vinir fallið eftir að hafa ánetjast fíkniefnum.

„Þetta er það besta sem hefur gerst í þessu landi,“ segir Mario Oliveira, 53 ára karlmaður í Lissabon sem ánetjaðist heróíni fyrir 30 árum. Vísar hann í stefnubreytinguna sem varð í Portúgal árið 2001. Blaðamaður Independent hitti á hann fyrir utan bifreið á vegum portúgalskra heilbrigðisyfirvalda, en í henni geta þeir sem háðir eru til dæmis heróíni nálgast meþadón sem einkum er notað gegn fráhvörfum. Meþadónið gerir þeim sem háðir eru fíkniefnum meðal annars kleift að stunda vinnu.

Meþadónmeðferðir eru einnig til í Bandaríkjunum en eru oft kostnaðarsamar og ekki aðgengilegar. Talið er að aðeins tíu prósent notenda harða fíkniefna í Bandaríkjunum hafi aðgang að slíkri meðferð; í Portúgal er meðferðin aftur á móti regla fremur en undantekning.

Af braut afbrota

„Ef ég hefði ekki aðgang að þessum bíl þá veit ég ekki hvort ég væri á lífi,“ segir Mario. Áður framdi hann glæpi, innbrot og þjófnaði þar á meðal, til að fjármagna neyslu sína en í dag er hann kominn fjarri þeirri braut. Hann notar meþadón til að trappa sig niður af heróínneyslu og vonast hann til þess að meðferðin skili þeim árangri fyrir rest að hann þurfi ekki lengur að reiða sig á heróín.

Yfirvöld í Portúgal vissu sem var að þau þyrftu að grípa til aðgerða á sínum tíma. Sífellt fleiri ánetjuðust hörðum fíkniefnum og að endingu var ákvörðunin um afglæpavæðingu vegna neyslu fíkniefna tekin undir í valdatíð Antonio Guterres, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals. „Við horfðum fram á skelfilegt ástand og höfðum í raun engu að tapa,“ segir Joao Castel-Branco sem stundum er kallaður arkitekt þessarar hugmyndafræði.

Svona gerðu þau þetta

Til að það komi skýrt fram þá fóru portúgölsk yfirvöld þá leið að refsa þeim áfram sem smygla fíkniefnum til landsins. Þá var varsla fíkniefna ekki gerð með öllu lögleg heldur var dregið verulega úr refsingum gegn þeim sem neyttu fíkniefna eða voru gómaðir með neysluskammta á sér. Í stað þess að eiga yfir höfði sér fangelsi var fjársektum beitt og viðurlögin í raun ekki meiri en að leggja ökutæki ólöglega. Fólk má því í raun vera með skammta á sér, sem duga til neyslu í tíu daga, án þess að eiga á hættu að fara í fangelsi. Þeir sem teknir eru með neysluskammta eiga kost á því að fá ráðgjöf frá starfsmönnum félagsþjónustunnar sem reyna að forða neytendum frá því að festast í viðjum fíknar. Þá er reynt eftir fremsta megni að koma neytendum til aðstoðar og þeir meðhöndlaðir líkt og sjúklingar, en ekki glæpamenn.

Í umfjöllun Independent er rætt við fíkniefnasala til margra ára sem segir að nú sé minna að gera en áður. Þessi fíkniefnasali selur einkum heróín í Lumiar-hverfinu í Lissabon og hann segir að kúnnum hafi farið fækkandi á undanförnum árum. Færri sækist eftir heróíni en áður. Annar, Joaquim Farinha, segir aftur á móti að hann hafi nóg að gera og enn sé töluverð eftirspurn eftir heróíni. Í umfjölluninni er þó bent á það tölurnar tali sínu máli. Frá því að stefnubreyting varð hefur notendum harðra fíkniefna farið fækkandi í Portúgal.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu