fbpx
Miðvikudagur 12.desember 2018
Fréttir

Ragnheiður fékk blóðtappa í heila vegna pillunnar og glímir í dag við spasma: „Vil brýna fyrir konum að kynna sér hætturnar“

Glímir í dag við taugasjúkdóm sem veldur spasma og hreyfitruflunum – „Fast í hugum margra að þetta gerist ekki fyrir mann sjálfan“

Auður Ösp
Laugardaginn 21. október 2017 16:00

„Það getur auðvitað engin stjórnað því hvað hver og ein kona gerir og hvaða getnaðarvarnir hún kýs, en ég vil brýna fyrir konum að kynna sér hætturnar sem þetta getur skapað. Það er einhver ástæða fyrir því að það stendur í fylgiseðlinum að það sé aukin hætta á blóðtappamyndun,“ segir Ragnheiður Smáradóttir en hún fékk blóðtappa í heilann í desember árið 2014 sem olli því að hún glímir í dag við spasma og hreyfitruflanir. Orsök blóðtappans var rakin til þess að Ragnheiður hafði tekið inn getnaðarvarnartöflur í nokkur ár. Hún telur brýnt að vekja athygli á þeim áhættuþáttum sem fylgja notkun pillunnar.

Ragnheiður birti frásögn sína á Facebook á dögunum en í samtali við DV.is segir hún markmiðið með birtingu færslunnar hafa verið að gera ungum stúlkum og konum grein fyrir hættunni.

„Ég fékk blóðtappa í heilann í desember 2014 og er orsökin notkun getnaðarvarpillunnar til nokkurra ára. Í dag er ég með taugasjúkdóm sem heitir helftarvöðvaspennutruflun sem veldur spasma og hreyfitruflunum. Þessi helftarvöðvaspennutruflun orsakast nær alltaf af heila- eða mænuáverka. Í mínu tilfelli olli blóðtappinn í heilanum áverkum sem orsökuðu þetta ástand.“

Ragnheiður tekur í dag lyf sem minnka spasmann en þau virka nó ekki nógu vel. Þá hefur hún einnig þurft að taka flogaveikislyf. Að hennar sögn eru það helst bótox sprautur sem geta hjálpað fólki í þessu ástandi og í raun það eina sem er hægt að gera til að lama vöðvana sem eru mest í þessum spösmum. Fyrstu sprautuna fékk hún í hnakkann fyrradag og var þá meðfylgjandi mynd tekin. Þá hefur Ragnheiður einnig verið á bið hjá lækni í rúm tvö ár til að láta sprauta bótoxi í fótinn til að lama vöðvana þar.

„Stundum þarf ég að nota hækjur af því að hægri fóturinn á mér tekur spasmaköst þar sem hamstring vöðvinn og fleiri vöðvar eru í stöðugum herpingi tímunum saman og þá get ég ekki labbað án stoðtækja. Í kjölfarið koma síðan viðbjóðslegir verkir. Stundum fer höndin á mér í svona köst og þá á ég erfitt með að nota höndina og þarf að hafa hana vafna eða í spelku. Hnakkinn á mér er líka góður í þessu, þá kreppast vöðvarnir saman og hausinn á mér festist. Ég tek ógrynni lyfja til að reyna að halda þessu í skefjum en þau virka ekki almennilega.“

Bótoxsprautur eina ráðið

Hún segir ástandið vissulega hamla sér í daglegu lífi.

„Suma daga er ég góð og get gert hitt og þetta en aðra daga þarf ég að liggja í rúminu og gera ekki neitt. Ég þurfti að hætta að í vinnunni minni eftir þetta. Ég var stuðningsfulltrúi á sambýli og ákvað að mennta mig og fara í háskóla. Er að klára viðskiptafræði og get þá farið að vinna við eitthvað sem krefst ekki líkamlegrar áreynslu. Ég þarf að vera dugleg að hreyfa mig, stunda yoga til að teygja á vöðvum og liðka mig til, styrkja vöðva í kringum þá sem eru að spasma til að líkaminn sé betur í stakk búinn til að takast á við þegar spasmaköst og verkjakjöst ganga yfir

„Ég passa mig líka á því að vera í kjörþyngd af því mér finnst auðveldara að nota hækjur og að ,,bjarga“ mér ef ég er ekki þyngri. En stundum eru þessi köst í nokkra daga, þá get ég ekkert hreyft mig og verð að liggja út af, þá stífnar líkaminn upp og þá er ég komin í vítahring sem ég verð að ná mér rólega út úr með því að hreyfa mig og lyfja mig upp.

„Það er kannski fullt af konum sem hafa lent í þessu en það er bara ekkert talað um það“

Fjölmargar konur hafa ritað athugasemd við færslu Ragnheiður og greint frá svipaðri reynslu af inntöku pillunnar en umdeilt er meðal heilbrigðisstarfsfólks hvort inntaka hennar auki hættuna á blóðtappa.

„Svo virðist sem læknar séu ekki sammála um skaðsemi pillunnar. Gamli kvensjúkdómalæknirinn minn sagði vitleysu að ég hefði fengið blóðtappann út af pillunni og segir hana skaðlausa á meðan taugalæknirinn minn skilur ekki af hverju læknar bendi ekki á eitthvað blóðþynnandi meðferðis pillunni. Svo er þetta einhverra hluta vegna aldrei á yfirborðinu þannig það er kannski fullt af konum sem hafa lent í þessu en það er bara ekkert talað um það,“ segir Ragnheiður en hún telur gagnrýnisvert hversu auðveldlega læknar skrifi upp á pilluna.

Það eru vel til einhverjar aðrar lausnir heldur en hormónagetnaðarvarnir. Ég held bara að það sé svo fast í hugum margra að það sé svo sjaldgæft að fá blóðtappa út af pillunni og að það gerist ekki fyrir mann sjálfan. Satt að segja þá bjóst ég alls ekki við þessum viðbrögðum og vissi ekki hvað þetta er í raun algengt, en það er frábært að koma umræðunni í gang um þetta.

Blóðtappar geta verið lífshættulegir og það ætti ekki að vanmeta eitthvað svoleiðis. Auðvitað getur pillan verið allra meina bót fyrir einhverjar konur og hjálpað til við aðra líkamlega kvilla, en það er ákveðin hætta sem fylgir því að taka þetta inn og eins og maður segir þá er góð vísa aldrei of oft kveðin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Ágúst Ólafur svarar Báru Huld: Misræmið byggir á ólíkri upplifun

Ágúst Ólafur svarar Báru Huld: Misræmið byggir á ólíkri upplifun
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Veikindi Hafdísar hættu um leið og kísilverið í Helguvík lokaði: „Hóstaði stanslaust og enginn skildi hvað var í gangi“

Veikindi Hafdísar hættu um leið og kísilverið í Helguvík lokaði: „Hóstaði stanslaust og enginn skildi hvað var í gangi“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Telja að dýraverndunarlög hafi verið brotin við hvalveiðar

Telja að dýraverndunarlög hafi verið brotin við hvalveiðar
Fréttir
Í gær

Aleksandr er verkamaður í byggingarvinnu og spilar rússnesk ástarlög: „Ég þrái konu sem elskar mig“

Aleksandr er verkamaður í byggingarvinnu og spilar rússnesk ástarlög: „Ég þrái konu sem elskar mig“
Fréttir
Í gær

Jón ósáttur við Frosta og Mána: „Þessi ósmekklega árás var ekki bara á mig heldur á alla fjölskylduna mína“

Jón ósáttur við Frosta og Mána: „Þessi ósmekklega árás var ekki bara á mig heldur á alla fjölskylduna mína“
Fréttir
Í gær

Aftur tekist á um Gunnar Nelson: „Maður á nærbuxunum fagnar því að hafa slasað annan mann“

Aftur tekist á um Gunnar Nelson: „Maður á nærbuxunum fagnar því að hafa slasað annan mann“