Vísindamenn uggandi vegna nýrrar rannsóknar: Eru flugurnar, fiðrildin og vespurnar að hverfa?

„Ef við missum skordýrum þá mun allt hrynja,“ segir Dave Goulson, prófessor við Sussex University í Bretlandi. Niðurstöður nýrrar rannsóknar gefa til kynna að fljúgandi skordýrum hafi fækkað um allt að 76 prósent á náttúruverndarsvæðum í Þýskalandi – og það á aðeins rúmum aldarfjórðungi.

Goulson er einn þeirra vísindamanna sem stóðu fyrir rannsókninni og breska blaðið Guardian fjallar um.

Afar mikilvæg

Skordýr gegna afar mikilvægu hlutverki í náttúrunni. Um þau segir á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: „Skordýr eru afar mikilvæg í náttúrunni og nauðsynleg í ýmsum ferlum, s.s. niðurbroti lífrænna efna og frævun blóma. Þau eru lífsnauðsynleg fæða fyrir aragrúa dýra og jafnvel plöntur. Skordýr eru ómissandi í vistkerfum lands og ferskvatns og er þjónusta þeirra við vistkerfin bráðnauðsynleg fyrir afkomu mannsins.“

Skordýraeitur og fleira

Rannsóknin sem um ræðir stóð yfir í 25 ár og var markmiðið að fylgjast með fjölgun eða fækkun fljúgandi skordýra. Samskonar rannsókn hefur ekki verið gerð áður þó rannsóknir á vissum tegundum skordýra hafi verið gerðar. Þær hafa til dæmis gefið til kynna fækkun nokkurra tegunda fiðrilda í Evrópu, en í þessari rannsókn voru öll fljúgandi skordýr tekin með í reikninginn.

„Það virðist einfaldlega vera þannig að við séum að gera stór landsvæði óbyggileg fyrir skordýr,“ segir Ghoulson um niðurstöðurnar.

Ástæður þessarar miklu fækkunar liggja ekki alveg fyrir en rannsóknin náði til 63 svæða vítt og breitt um Þýskaland sem flokkast sem friðlönd eða náttúruverndarsvæði. Í niðurstöðunum er látið að því liggja að nokkrir samliggjandi þættir liggi að baki fækkuninni; þannig sé sífellt meira land notað undir iðnað eða landbúnað og þá hefur notkun á skordýraeitri aukist mikið síðastliðinn aldarfjórðung. Þá er ekki útilokað að loftslagsbreytingum sé að einhverju leyti um að kenna.

76 prósenta fækkun

Niðurstöðurnar birtust í vísindaritinu Plos One en að rannsókninni stóð fjöldi skordýrafræðinga. Fljúgandi skordýrum, vespum og fiðrildum þar á meðal, var safnað í þar til gerðar gildrur og þær voru síðan vigtaðar með reglulegu millibili. Á þeim 27 árum sem söfnunin stóð yfir komu færri og færri skordýr í gildrurnar. Var munurinn 76 prósent milli áranna 1989 til 2016. Niðurstöðurnar sveifluðust nokkuð milli ára; var þá einkum hægt að kenna óhagstæðu veðurfari um fækkun eða hagstæðu veðurfari um fjölgun milli ára. En staðreyndin er engu að síður sú að marktæk fækkun varð frá því að rannsóknin hófst árið 1989 og þar til henni lauk. Hana er ekki hægt að útskýra með breytingum í veðri.

Caspar Hallmann, vísindamaður við Radboud University sem tók þátt í rannsókninni, segir að niðurstöðurnar séu sérstaklega slæmar í ljósi þess að söfnunin fór fram á verndarsvæðum, það er að segja svæðum sem njóta verndar frá hverskyns raski.

Vísindamennirnir sem stóðu fyrir rannsókninni segja að frekari rannsókna sé þörf áður en hægt verður að draga endanlega ályktun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.