Sólveig ætlar að stöðva strípalinginn í Breiðholtslaug í dag: Neitar að hylja nekt sína - „Þarna eru ungar stelpur í skólasundi“

„Það er alveg sama hvað við hrópum og köllum á eftir honum, hann bregst ekki við og hann virðist bara fá að ganga þarna um óáreittur. Starfsfólkið virðist vera alveg máttlaust og ég skil ekki af hverju þetta fær að viðgangast,“ segir Sverrir Daðason fastagestur í Breiðholtslaug í samtali við DV.is. Hann kveðst ítrekað hafa lagt fram kvartanir hjá starfsfólki laugarinnar vegna hegðunar annars sundlaugargests. Segir Sverrir manninn ítrekað ganga um nakinn á almenningssvæðinu á leið sinni frá búningsklefanum í gufubað laugarinnar þrátt fyrir síendurtekin og hávær mótmæli annarra gesta. Sólveig Valgeirsdóttir forstöðumaður Breiðholtslaugar segir það rangt að ekki hafi verið reynt að ræða við manninn. Hann taki hins vegar ekki leiðsögn.

Sverrir vakti upprunalega athygli á málinu inni á Facebookhóp fyrir íbúa Breiðholts þar sem töluverð umræða hefur skapast um „sundlaugarperrann“ svokallaða.

Samkvæmt reglum laugarinnar hátta gestir sig í búningsklefa og hylja nekt sína með handklæði eða sundskýlu áður en ganga yfir almenningsvæði laugarinnar og yfir í gufubaðið en rúmlega 2,5 metrar eru þar á milli. Kveðst Sverrir heimsækja laugina reglulega og rekist hann þá á manninn.

„Það skiptir engu máli hvað við hinir sem stundum gufubaðið höfum beðið eða öskrað á hann um að hylja nekt sína, hann hunsar það algjörlega og það versta er að hann kemst upp með það.“

Í samtali við DV.is segist margoft hafa kvartað undan hegðun mannsins við starfsfólk laugarinnar en það hafi engan árangur borið. Þá segist hann vita til að minnsta kosti einn annar gestur hafi lagt fram kvörtun vegna mannsins auk þess sem fastagestum gufubaðsins sé tíðrætt um málið.

„Ég hef kvartað við sundlaugarverði sem þá hafa svarað: „Já, er hann enn þá að þessu?“ Þannig að þau vita greinilega af þessu. Þau hafa lofað að koma þessu á framfæri við yfirmann laugarinnar en svo hefur ekkert gerst.“

Hann kveðst sjálfur haft samband við forstöðukonu laugarinnar í síðustu viku. „Ég lét vita að þetta væri algjörlega ólíðandi þar sem þarna eru ungar stelpur í skólasundi. Forstöðukonan svaraði að það „þyrfti að stoppa þetta.“

Hann segir manninn engu að síður enn þá fá að vaða uppi í lauginni þrátt fyrir ítrekuð brot og nú síðast í gærdag hafi kunningi hans orðið var við manninn í búningsklefanum og skipað honum að „hylja ósómann á sér.“

Segir starfsfólk hafa rætt við manninn

„Það er nú ekki rétt að það sé ekki búið að ræða við þennan mann,“ segir Sólveig Valgeirsdóttir forstöðumaður. „Nú er ég bara að bíða eftir að hann komi svo að ég geti rætt við hann. Við reynum að koma í veg fyrir þetta. Það er ekki rétt að starfsfólk hafi ekki brugðist við og rætt við hann. Mitt starfsfólk og þá fleiri en einn og fleiri en tveir hafa beðið hann að láta af þessari hegðun. Hann virðist ekki hafa tekið þá mark á því, maðurinn.“

Á hann við veikindi að stríða?

„Nei, ekki svo ég viti.“

Á hann þá við strípihneigð að stríða?

„Það er eitthvað. Ég mun alla vega ræða við hann um leið og hann kemur, þá ef hann mætir en ég vil koma því á framfæri að það hefur verið rætt við hann áður og starfsfólk tekið þessum ábendingum sundlaugargesta alvarlega.“

Öryggi barna ógnað

Sverrir bendir á að öryggi barna í lauginni sé ógnað með þessum hætti og rétt eins og á skólalóðum eigi börn rétt á því að vera vernduð gagnvart ósæmandi hegðun af þessu tagi. Því hafi hann talið rétt að vekja athygli foreldra á hegðun mannsins. Hann útilokar ekki að fara lengra með málið.

„Þetta er algjörlega ólíðandi og ég bara varð að vekja máls á þessu, enda leit ég á það sem borgaralega skyldu mína.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.