Sagt upp í Costco: Starfsmenn grátandi inni á klósetti - Guðrún: „bolurinn of fleginn“

Nokkrir fyrrverandi starfsmenn Costco tjá sig um það sem fram fer bak við luktar dyr verslunarinnar

DV hefur undanfarnar vikur fengið ábendingar frá starfsfólki um ýmsa bresti sem eru í rekstri stórverslunarinnar. Meðal annars um gegndarlausa matarsóun sem starfsmönnum blöskrar og slæma framkomu yfirmanna í garð undirmanna sem stuðlar að gríðarlegri starfsmannaveltu. DV ræddi við nokkra starfsmenn, sem fæstir vildu koma fram undir nafni af ótta við að það myndi skemma fyrir framtíðaratvinnumöguleikum.

Slæm framkoma yfirmanna

Öllum mat er hent saman í eina hít í umbúðunum. Costco flokkar ekki lífrænan úrgang frá umbúðunum.
Bland í poka Öllum mat er hent saman í eina hít í umbúðunum. Costco flokkar ekki lífrænan úrgang frá umbúðunum.

Andrew Meekin er 41 árs Englendingur, upprunalega frá borginni Liverpool, sem flutti til Íslands í janúar á þessu ári. Fyrstu mánuðina vann hann á gistiheimili í Vík í Mýrdal en hóf síðan störf í Costco í byrjun júní. Andrew og tveir aðrir fyrrverandi starfsmenn, sem verða í þessari frétt nefndir Jón og Guðrún, lýsa slæmri framkomu yfirmanna fyrirtækisins gagnvart starfsfólkinu.

Andrew vann á aðildarkortaborðinu þar sem hefur verið mikið álag allt frá opnun. Ef smá lægð kom í umsóknirnar var hann settur í vinnu á búðarkassa, en það hafði hann ekki samþykkt við ráðningu og hafði enga reynslu á því sviði. „Ég vissi ekkert hvað ég var að gera og þurfti ítrekað að ýta á takka til að fá hjálp frá yfirmanni. Þá komu þessir reiðu, bresku yfirmenn og helltu sér yfir mig. Þeir gerðu þetta við marga aðra sem unnu á aðildarkortaborðinu og höfðu enga þjálfun.“ Hann segist hafa fengið litla sem enga aðstoð og að hann hafi þurft að læra á kerfið sjálfur.

Ráðinn á fölskum forsendum

Þetta er viðbjóður. Ég hef aldrei séð svona miklu af mat hent í ruslið

Jón sótti um stjórnunarstöðu hjá Costco í vor, áður en búðin var opnuð. Áður hafði hann unnið sem verslunarstjóri í átta ár og vegna slyss þoldi hann illa líkamlegt erfiði. Hann var ráðinn, án samnings, en var sagt að hann myndi vinna við að taka á móti aðildarumsóknum þar til búðin yrði opnuð. „Daginn sem ég byrjaði að vinna var ég sendur út í vöruhús og fyrstu þrjár vikurnar gerði ég lítið annað en að sópa gólf.“

Jóni var sagt að hann fengi stjórn yfir einni deild búðarinnar síðar og við það sat í einhvern tíma. „Síðan var ráðinn bandarískur maður í stöðuna, með enga reynslu af þjónustustörfum eða mannaforráðum.“ Jóni bauðst að halda áfram sem almennur starfsmaður í vöruhúsinu við að taka á móti vörubrettum en hætti skömmu síðar vegna lélegra launa, líkamlegs erfiðis og slæmrar framkomu yfirmanna gagnvart honum.

Þora ekki að leita sér hjálpar

Viðmælendurnir tala allir um slæma framkomu yfirmanna fyrirtækisins gagnvart þeim og öðru starfsfólki. Sérstaklega átti þetta við breskra og bandarískra yfirmenn sem þau segja að hafi litið niður á undirmenn sína. Guðrún hóf störf rétt fyrir opnun búðarinnar en hætti í ágúst vegna framkomu þeirra. Hún segir álagið hafa verið gríðarlegt þegar búðin var opnuð.

„Það var gargað á mann fyrir að hafa mætt mínútu of seint. Ég hef ekki töluna á því hversu margar stelpur, ég sjálf meðtalin, hlupu grátandi inn á salernið út af vanlíðan.“ Hún segir einnig að yfirmennirnir hafi skammað starfsfólkið fyrir framan viðskiptavinina.

Andrew segir sömu sögu. „Starfsfólkið var undir miklu álagi og öskrað var á það fyrir framan búðargestina. Mörgum þeirra var greinilega mjög brugðið. Sumir starfsmenn kiknuðu undan álaginu og hættu.“

Álagið var slíkt að það bitnaði á löglegum hvíldartíma starfsfólksins. Andrew segir: „Þegar mjög mikið var að gera fékk fólk ekki einu sinni pásu. Ég veit að margt fólk á aðildarkortaborðinu var að vinna vel fram yfir vinnutíma sinn en fékk ekki aukalega borgað.“ Guðrún tekur undir það og segir að matartímarnir hafi verið styttir um 15 mínútur og það hafi verið rætt á starfsmannafundi. „Það var skellihlegið að okkur og apað eftir okkur með grínröddu: „Hvað með 15 mínúturnar?“ Þessir bresku yfirmenn sögðu að við værum bara löt.“ Jón segir að starfsfólkið hafi átt rétt á 15 mínútna pásu á morgni og eftirmiðdegi. „En það var ekki alltaf sem maður fékk þær.“

Viðmælendurnir lýsa allir hótunum yfirmannanna og segja að margir hafi ekki þorað að leita aðstoðar, til dæmis frá verkalýðsfélagi. Nokkrir starfsmenn leituðu þó til VR vegna samgöngumálanna en samkvæmt kjarasamningi VR og SA er fyrirtæki skylt að greiða fararkostnað til og frá vinnu ef almenningssamgangna nýtur ekki við. Guðrún segir að yfirmennirnir hafi hlegið þegar starfsmenn báðu um að fá greiddan leigubíl. Andrew segir sömu sögu, yfirmennirnir hafi harðneitað og VR látið þetta viðgangast.

Guðrún þekkir þetta einnig vel.

„Vinkonu minni var sagt upp og ástæðurnar sem henni voru gefnar voru annars vegar að hún passaði ekki inn í teymið og hins vegar að klæðaburður hennar væri ósæmilegur, það hafi sést of mikið í handleggina og bolurinn hafi verið of fleginn.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.