Hver er Þórólfur sýslumaður? Hörð viðbrögð vegna lögbanns og kosningar kærðar - Nátengdur Sjálfstæðisflokknum

Fregnir um að sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu hafi samþykkt lögbann gegn Stundinni og Reykjavík Media hafa vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. Sumir, svo sem Illugi Jökulsson, fyrrverandi ritstjóri, hafa bent á að sýslumaðurinn sjálfur, Þórólfur Halldórsson, hafi boðið sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Aðrir, líkt og Egill Helgason, hafa bent á að lögbannið hafi raunar þveröfug áhrif.

Augljós tengsl

DV fjallaði um Þórólf sumarið 1998 en þá gegndi hann embætti sýslumannsins á Patreksfirði. Tilefni umfjöllunarinnar var kæra á hendur honum fyrir að hafa haft óeðlileg áhrif á úrslit sveitastjórnarkosninganna sem fóru fram þá um vorið.

Þórólfur gegndi um þetta leyti embætti varaformanns Sjálfstæðisfélagsins Skjaldar og var jafnframt kjörstjóri við utankjörfundarkosningu í Vesturbyggð. Var hann sakaður um að hafa farið með kjörkassa í heimahús og á sjúkrahús Patreksfjarðar þar sem hann lét eldra fólk og sjúklinga kjósa. Þá var það kært að hann skyldi sjá um utankjörfundaratkvæði og á sama tíma hafa augljós tengsl við D-lista sjálfstæðismanna. Var jafnvel talið að þessi framkoma Þórólfs yrði til þess að kjósa þyrfti aftur.

Síðar þetta sumar komst félagsmálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu að vinnubrögð Þórólfs hefðu verið ámælisverð en mat það svo að kosningarnar væru gildar. Ekki hefði verið hægt að sýna fram á að þeir ágallar sem voru á framkvæmdinni hefðu haft áhrif á úrslit kosninganna.

„Spurningum sýslumanns var jafnað við fallbyssuskothríð“

Þórólfur hefur lengi verið tengdur Sjálfstæðisflokknum og fjallaði DV um atvik í aðdraganda kosninganna árið 1998 sem vakti nokkra athygli. Reglulega voru haldnir framboðsfundir í Essóskálanum á Patreksfirði þar sem fólki gafst kostur á að spyrja frambjóðendur spurninga. Í sandkorni DV þann 25. maí árið 1998 kemur fram að sýslumaðurinn á Patreksfirði, títtnefndur Þórólfur Halldórsson, hafi gengið óvenjuhart fram í spurningum til andstæðinga sjálfstæðismanna.

„Spurningum sýslumanns var jafnað við fallbyssuskothríð og hann dró ýmislegt fram úr pólitískri fortíð manna og krafðist svara. Sumir voru því nokkuð beygðir undir þessu og haft er eftir einum hinna „lúbörðu" að hann hyggist hafa samband við Þorstein Pálsson dómsmálaráðherra og óska eftir því að Þórólfur verði fluttur til Hólmavíkur og Patreksfirðingar fái hinn útskúfaða sýslumann, Sigurð Gizurarson,“ sagði í sandkorni DV.

Sýslumaður í SUS

Fjölmargir hafa bent á þessi tengsl Þórólfs við Sjálfstæðisflokkinn á samfélagsmiðlum í kvöld. Einn þeirra er Illugi Jökulsson rithöfundur sem segir að „sýslumaður hafi verið í aðalklíkunni“ og sé raunar enn. Birtir hann mynd á Facebook-síðu sinni sem tekin var á formannafundi SUS fyrir margt löngu. Þar er Þórólfur á mynd með Baldri Guðlaugssyni og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, auk annarra.

Þórólfur var eitt sinn formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og þá var hann skipaður sýslumaður í Keflavík af Birni Bjarnasyni, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, árið 2008. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, skipaði Þórólf svo sýslumann á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

„Fullkomlega án lagastoðar“

Þá segir fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan að lögbann sýslumannsins sé bæði fullkomlega galið og raunar án lagastoðar. „Lögbann sýslumannsins í Reykjavík er fullkomlega galið. Það er líka fullkomlega án lagastoðar. Blaðamenn eru ekki bundnir af bankaleynd. Starfsmenn fjármálastofnana eru það,“ segir Helgi Selja á Facebook-síðu sinni. Hann bætir jafnframt við þetta að kosningar séu óþarfar úr þessu: „Það er ástæðulaust að kjósa í samfélagi sem bannar fréttaflutning.“ Hallgrímur Helgason, rithöfundur og frambjóðandi Samfylkingarinnar skrifar við þá færslu: „Erdoğan is here.“

Óska eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Þingmenn Pírata og Vinstri grænna hafa enn fremur fordæmt ákvörðun sýslumanns og segja í sameiginlegri yfirlýsingu að þeir hafi óskað eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna málsins. Píratar gáfu jafnframt út yfirlýsingu og tengdu þar saman myllumerkið #églíka og lögbann sýslumanns.

„Á síðustu sólarhringum hafa ótal konur stigið fram og rofið þöggunarmúrinn í tengslum við kynferðisofbeldi, sem er gríðarlegt framfaraskref. En þöggun leynist víða, og í skugganum þrífst spillingin. Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir, og það er gert út frá upplýsingum. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja að almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir. Þegar ríkisvaldi er beitt til að hindra starfsemi fjölmiðla er verið að næra skuggahlið okkar samfélags með meiri þöggun. Það er ólíðandi,“ segir í þeirri yfirlýsingu.

Lögbann hér en bílsprengja á Möltu

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins og fyrrverandi ritstjóri, tengir saman á Facebook-síðu sinni lögbannið og Daphne Caruana Galizia, blaðmanns sem hafði leitt umfjöllun um Panamaskjölin í Möltu. Hún lést í bílsprengju fyrr í dag. „Á Íslandi var Stundinni lokað í dag en á Möltu var Daphne Caruana Galizia, blaðakonan sem leiddi umfjöllun um Panama-skjölin þar, myrt. Umfjöllun um Panamaskjölin á Möltu snérust um Mizzi-ættina, valdamikla ætt sem er bæði fyrirferðamikil í viðskiptum og stjórnmálum. Konrad Mizzi, heilbrigðis- og orkumálaráðherra, var í skjölunum en var svo kyrfilega innmúraður og innvígður að hann hélt velli, var um tíma ráðherra án ráðuneytis en var gerður að ferðamálaráðherra í sumar,” skrifar Gunnar Smári.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.