Skuggahliðar Costco: Matarsóun og slæm framkoma yfirmanna

Nokkrir fyrrverandi starfsmenn Costco tjá sig um það sem fram fer bak við luktar dyr verslunarinnar

Stórverslunin hefur slegið í gegn hérlendis en ýmsir brestir eru í rekstrinum, meðal annars slæm framkoma yfirmanna og gegndarlaus matarsóun.
Costco Stórverslunin hefur slegið í gegn hérlendis en ýmsir brestir eru í rekstrinum, meðal annars slæm framkoma yfirmanna og gegndarlaus matarsóun.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Óhætt er að fullyrða að stórverslunin Costco hafi með komu sinni inn á íslenskan markað stuðlað að byltingu varðandi verð og vöruúrval sem ekki sér fyrir endann á. Íslenskir neytendur hafa tekið verslunarrisanum fagnandi og samkeppnisaðilar hafa þurft að aðlagast breyttum veruleika. Saga Costco á Íslandi er á yfirborðinu samfelld sigurganga en undir niðri kraumar reiði starfsfólks varðandi aðstæður á vinnustaðnum. DV hefur undanfarnar vikur fengið ábendingar frá starfsfólki um ýmsa bresti sem eru í rekstri stórverslunarinnar. Meðal annars um gegndarlausa matarsóun sem starfsmönnum blöskrar og slæma framkomu yfirmanna í garð undirmanna sem stuðlar að gríðarlegri starfsmannaveltu. DV ræddi við nokkra starfsmenn, sem fæstir vildu koma fram undir nafni af ótta við að það myndi skemma fyrir framtíðaratvinnumöguleikum.

Heilu brettunum af mat hent í ruslið

Einn heimildarmaður DV, sem við skulum kalla Arnar, er nýhættur hjá Costco. Hann starfaði í versluninni frá því að hún var opnuð í vor, en sagði nýverið starfi sínu lausu þegar betra starf bauðst. Arnar segir að framkoma yfirmanna sé skelfileg og var það meðal annars ástæða þess að hann leitaði að annarri vinnu. „Þessi breski vinnustaðakúltúr og stéttaskipting er ekki eitthvað sem Íslendingar eru vanir. Undirmenn mega varla líta á eða yrða á yfirmenn. Það skapar hræðilegan anda og almennt myndi ég segja að starfsfólki líði illa í vinnunni,“ segir Arnar. Það sem fór þó einna mest fyrir brjóstið á honum er matarsóun Costco sem hann segir að sé gegndarlaus: „Þetta er viðbjóður. Ég hef aldrei séð svona miklu af mat hent í ruslið. Heilu brettin enda í ruslagáminum á hverjum einasta degi,“ segir Arnar. Hann tók myndir af lager verslunarinnar, rétt áður en hann hætti, og myndirnar birtast með fréttinni. Með því að sýna almenningi þær vill Arnar opna enn frekar umræðuna um matarsóun.

Lágt verð réttlætir ekki sóun

„Costco hefur gert frábæra hluti fyrir Íslendinga, þegar kemur að því að bjóða upp á vöru á lægra verði, en það réttlætir þó ekki hvernig farið er með mat. Yirmenn verslunarinnar tala ekki um mat, heldur kalla þetta úrgang. Í flestum tilfellum er maturinn í góðu lagi þegar honum er fleygt. Fyrirtækið hefur enga umhverfisstefnu sem heitið getur og að mínu mati eigum við Íslendingar, sem upplýst þjóð, að krefjast þess að erlend stórfyrirtæki, staðsett á Íslandi, fylgi okkar leikreglum,“ segir Arnar.

Hann segir að ekki aðeins sé mat, sem er kominn yfir síðasta söludag, fleygt í ruslagám heldur útlitsgallaðri vöru sem og vöru sem er að nálgast síðasta söludag. Þá má starfsfólk, undir engum kringumstæðum, taka matvöru sem á að fleygja með sér heim. „Costco lækkar ekki verð á vöru sem er að renna út, eins og til dæmis Krónan er farin að gera, heldur einfaldlega losar sig við hana. Þeir hafa heldur ekki fyrir því að flokka úrganginn heldur safna öllu saman í ruslagám. Það er lífrænn úrgangur, gler, gormar og plastumbúðir. Allt endar þetta í einum hrærigraut í ruslagámnum. Það eina sem er flokkað sér er pappi. Hann er pressaður. Stundum eru nokkrir troðfullir gámar fyrir utan verslunina og bíða þess að verða fjarlægðir.“

Virðast skammast sín

Arnar segir jafnframt að lyktin í og við gáminn muni seint líða honum úr minni. Stuttu fyrir starfslok sín hafi yfirmenn bannað almennu starfsfólki að fara sjálft með rusl í gáminn. „Þá tók ekki betra við. Þá byrjaði ruslið að safnast upp á lagernum og eftir daginn er lyktin óbærileg. Mér skilst að þeir læsi gámnum núna og aðeins nokkrir einstaklingar hafi lykla að honum. Það er eins og þeir skammist sín fyrir þetta, eða hafi fengið ábendingar um að matarsóun sé ekki í lagi og séu að reyna að fela hana. Kannski hafa komist rottur í þetta. Það kæmi ekki á óvart,“ segir Arnar.

Sem dæmi um stefnu Costco varðandi matvöru segir Arnar: „Ef það sést að eitt til tvö jarðarber eru ónýt í bakkanum þá er honum hent. Það sama gildir um eplin. Ef eitt epli er ónýtt í pokanum þá er öllum pokanum hent. Sömu sögu má segja um allan mat í búðinni. Grænmeti, brauð, osta, kjöt, þurrvöru, sósur og krydd. Öllu er hent þegar neyslutíminn er liðinn.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.