Dætur Sigríðar og Tótlu eiga engan föður: „Við viljum ekki að talað sé um eða við börnin okkar um pabba þeirra“

Sigríður og Tótla ásamt dætrum sínum
Litla fjölskyldan Sigríður og Tótla ásamt dætrum sínum

Sigríður Eir Zophoníasardóttir útvarpskona hjá RÚV og Anna Þórhildur I. Sæmundsdóttir grafískur hönnuður eignuðust nýlega litla stúlku en fyrir eiga þær dótturina Úlfhildi. Báðar stúlkurnar voru getnar með gjafasæði frá óþekktum erlendum sæðisgjafa og hafa þær Sigríður og Anna margoft fengið að finna fyrir þeim ranghugmyndum sem enn ríkja í samfélaginu varðandi hina hefðbundu kjarnafjölskyldu og hlutverk feðra í uppeldishlutverkinu. Benda þær á að fjölskyldutengsl geti orðið til án þess að blóðbönd séu til staðar og að dæturnar séu fyrst og fremst heppnar að eiga foreldra sem elska þær skilyrðislaust.

Í opnu bréfi á facebookbíðu Sigríðar kveða þær Sigríður og Anna, eða Tótla eins og hún er oftast kölluð, niður ýmsar af þeim ranghugmyndum sem þær hafa orðið varar við eftir að dæturnar komu í heiminn. Veitti hún DV.is góðfúslegt leyfi til að birta færsluna.

„Dætur okkar eiga ekki pabba. Þær voru búnar til úr eggjum okkar hjóna og karla-frumum sem við keyptum af einhverjum andlitslausum manni í Danmörku með millilendingu í sæðisbanka. Hann er örugglega ágætur gæi sem vildi hjálpa fólki að búa til fjölskyldu eða nemi sem vantaði nokkra auka aura en hann er svo sannarlega ekki pabbi. Alla vega ekki pabbi þeirra. Hann er sæðisgjafinn þeirra.“

Benda þær á hlutverk föðursins í uppeldinu sé ekki síðra en hlutverk móðurinnar.

„Að vera pabbi er mjög félagslegt hlutverk. Það er alveg jafn mikilvægt og stórt og að vera mamma. Það er að vera til staðar fyrir börnin sín, gefa þeim að borða, skipta um bleyjur, þvo þeim, kyssa þau og knúsa og sjá um þau. Við viljum ekki að talað sé um eða við börnin okkar um pabba þeirra af þeirri einföldu ástæðu að þær eiga ekki pabba. Spurningar eins og „eiga þær sama pabbann?“ eru algengar eftir að yngra barnið fæddist. Eða „er pabbi þeirra með svona blá augu/stór/ljóshærður?” o.s.frv. Við viljum ekki að þær upplifi að það sé einhver maður út í heimi sem hafi yfirgefið þær. Eða að með þessum spurningum sé gefið í skyn við þær að það vanti eitthvað í fjölskylduna okkar, því það er svo sannarlega ekki okkar upplifun.

Eru ekki hálfsystur

Eftir að eldri dóttirin kom í heiminn fengu þær Sigríður og Anna yfir sig holskeflu af spurningum um faðerni hennar. Á þeim tíma voru málin rædd við nánustu fjölskyldu og hverjar aðstæður voru tæklaðar fyrir sig. Nú hefur yngri dóttirin bæst við fjölskylduna og sú eldri orðin nógu gömul til að vera hluti af samtalinu.

„Úlfhildur var eins og hálfs árs þegar hún gat orðað það við okkur að hún ætti ekki pabba. Svo snemma gera börnin sér grein fyrir því hvernig þau skera sig úr. Hún fór yfir persónur í bókum sem við höfðum lesið fyrir hana og benti á pabbana og svo endaði hún á að benda á sig og sagði: Úa, ekki pabba. Við fengum smá áfall en áttuðum okkur á því að þetta væri að sjálfsögðu engin sorg heldur væri hún einungis að taka inn að hún væri öðruvísi.

Þær munu nógu oft í lífinu verða settar í þær aðstæður að þurfa að útskýra sig og hvaðan þær komu sem verður eflaust í ýmsum tilfellum erfitt eða í það minnsta þreytandi. Með hverju skiptinu sem hún eða við erum spurðar um ,,pabbann“ fyrir framan hana þá fer það að síast inn að það vanti kannski eitthvað, að hún eigi kannski pabba sem við séum að halda frá henni eða að við séum ekki nóg sem fjölskylda. Svo okkur langar eftir fremstu getu að hlífa þeim við þessum tilfinningum svo þær geti af einlægni sagt frá því hvernig þær urðu til án þess að upplifa í því einhverja sorg.“

Þær benda jafnframt á að Úlfhildur og yngri systir hennar séu ekki hálfsystureins og sumir virðast halda.

„Þær eru systur. Fæddar inn í sömu fjölskyldu og hafa alist upp hjá sömu mæðrunum frá upphafi. Við sjáum ekki hvar hinn helmingurinn ætti að koma ef þetta er að vera hálf. Það er eins og að segja að við séum báðar stjúpmæður barnanna okkar.

Það stingur svolítið líka þegar við erum spurðar hvort þær séu skyldar. Við vitum alveg hvað átt er við en þetta orð er líka félagslega hlaðið og heppilegra væri að spyrja um blóðtengsl ef fólki finnst mikilvægt að vita hvernig blóð streymir um æðar þeirra. Ég held að Úlfhildur gæti ekki fundið neina manneskju í heiminum sem hún er jafn skyld og systir sín og þau tengsl sem myndast hafa á milli þeirra nú þegar eru tengsl og skyldleiki sem engin heimsins gen eða blóð gætu styrkt enn frekar.“

Þær gera sér grein fyrir að fólk meini vel með spurningunum en benda á að orðræða af þessu tagi geti ruglað dæturnar auk þess að gera lítið úr tengslunum á milli þeirra og mæðra þeirra.

„Úlfhildur og Eyrún er heldur ekkert heppnari en börn gagnkynhneigðra para að eiga tvær mæður eins og sumir halda fram. Þær eru heppnar að eiga foreldra sem elska þær skilyrðislaust. Alveg jafnheppnar og önnur börn sem eiga foreldra eða fjölskyldur sem elska. Alveg sama hvernig sú fjölskylda lítur út. Svo erum við mömmurnar auðvitað heppnastar af öllum í þessu dæmi að hafa eignast svona dásamlegar dætur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.