Skuldar bankinn þér pening?

Lántaki lagði Íslandsbanka í Hæstarétti í fordæmisgefandi máli

Lagði Íslandsbanka eftir fjögurra ára baráttu
Sigurður Freyr Magnússon Lagði Íslandsbanka eftir fjögurra ára baráttu

Samkvæmt niðurstöðu dóms Hæstaréttar í gær má ætla að þúsundir einstaklinga geti átt kröfu um endurgreiðslu umtalsverðra fjárhæða frá sínum banka. Í dóminum staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu áfrýjunarnefndar neytendamála að Íslandsbanki hafi brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán og að bankanum hafi verið óheimilt að hækka vexti lána einstaklinga á grundvelli staðlaðs ákvæðis bankans þess efnis.

Neytandi sætti sig ekki við tilkynningu um vaxtahækkun

Forsaga málsins er sú að Sigurður Freyr Magnússon tók lán hjá bankanum árið 2005 en í láninu var kveðið á um 4,15% vexti. Í láninu, eins og mörgum öðrum sambærilegum lánum, var að finna ákvæði sem heimilaði bankanum að breyta vöxtunum á fimm ára fresti. Slík ákvæði eru einnig algeng hjá öðrum bönkum og kveða jafnan á um að ef lántaki sættir sig ekki við vaxtabreytinguna gefist honum kostur á að greiða lánið upp án uppgreiðslugjalds. Vegna afleiðinga bankahrunsins árið 2008 ákvað Íslandsbanki ekki að nýta sér vaxtabreytingarákvæði samningsins árið 2010 heldur frestaði því til ársins 2013. Það ár tilkynnti bankinn hins vegar Sigurði að vextir lánsins skyldu hækkaðir um 0,7%, þannig að þaðan í frá bæri það 4,85% vexti.

Í þágildandi lögum um neytendalán var að finna ákvæði þess efnis að ef í lánasamningum væri kveðið á um breytilega vexti þá yrði einnig að koma fram í samningnum við hvaða aðstæður slík breyting gæti átti sér stað, hvaða tilteknu forsendur þyrftu að liggja þar að baki. Sigurður taldi að í lánssamningi hans væri hvergi að finna slíkar upplýsingar eða forsendur og sætti sig því ekki við vaxtahækkun bankans. Í kjölfarið beindi hann erindi til Neytendastofu sem í lok árs 2014 gaf út ákvörðun þess efnis að bankanum væri bönnuð notkun umrædds vaxtaendurskoðunarákvæðis. Bankinn skaut þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar neytendamála sem staðfesti ákvörðun Neytendastofu um mitt ár 2015. Við þá niðurstöðu gat bankinn ekki unað og stefndi málinu fyrir héraðsdóm.

Breytt taktík bankans fyrir dómi

Eftir að málið var komið fyrir dómstóla breytti bankinn um taktík í málsvörn sinni og lagði megináherslu á að Neytendastofa hefði ekki haft valdheimild til að taka þá ákvörðun sem málið snerist um, á grundvelli sjónarmiða um lagaskil. Þannig fór málið að snúast meira um lagaleg formsatriði en það hvort umrædd vaxtabreytingarákvæði bankans stæðust lög um neytendalán. Sem annað dæmi um þetta þá byggði bankinn einnig á því fyrir dómi að lán Sigurðar hefði ekki verið lán með breytilegum vöxtum þar sem í fyrirsögn lánsins kæmi fram að lánið bæri fasta vexti. Hélt bankinn því fram þrátt fyrir að málið snerist um breytingar bankans á vöxtum láns Sigurðar, sem sannarlega voru gerðar.

Með dómi í apríl 2016 féllst héraðsdómur á sjónarmið bankans varðandi fyrrgreind formsatriði og felldi úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Sigurður og Neytendastofa áfrýjuðu þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar. Í gær, um það bil fjórum árum eftir að Sigurður bar málið fyrst undir Neytendastofu, fékkst svo loks endanleg niðurstaða, þegar Hæstiréttur sneri niðurstöðu héraðsdóms. Eftir stendur því óhaggaður úrskurður áfrýjunarnefndar Neytendastofu þess efnis að Íslandsbanki hafi brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán og að bankanum sé bannað að breyta vöxtum lána á grundvelli hins umrædda ákvæðis.

Áhrif dómsins líklega víðtæk

Ljóst má vera að þessi niðurstaða Hæstaréttar er fordæmisgefandi og ætti að geta haft mjög víðtæk áhrif. Í ljósi þess að um er að ræða staðlað ákvæði í lánasamningum Íslandsbanka má gera má ráð fyrir að þúsundir einstaklinga hafi tekið lán með slíku ákvæði. Ætla má að allir þeir sem hafa tekið slík lán og hafa þurft að þola hækkun á vöxtum með sama hætti og Sigurður, eigi réttmæta kröfu til þess að fá endurgreidda frá bankanum þá fjármuni sem þeir hafa þurft að greiða vegna ógildrar vaxtahækkunar. Þá má jafnframt ætla að sambærilegt ákvæði sé eða hafi verið að finna í lánasamningum annarra banka, svo að lántakendur hjá þeim bönkum gætu líklega einnig átt kröfu á þá banka um sambærilegar endurgreiðslur.

Við aðalmeðferð málsins fyrir Hæstarétti nýtti Sigurður rétt sinn til að ávarpa dóminn með stuttri ræðu. Í hans máli kom meðal annars fram að Íslandsbanki hefði nýtt sér vel hversu lengi málið var til meðferðar fyrir dómi. Þannig hafi bankinn eftir að úrskurður áfrýjunarnefndar lá fyrir, skipulega endursamið við þá lántaka sem voru með lánssamning með umræddu vaxtabreytingarákvæði. Sé sú fullyrðing Sigurðar rétt kann að vera að þeir einstaklingar sem endursömdu við bankann gætu einnig leitað réttar síns í dag á þeim grundvelli að þeir hafi endursamið á röngum forsendum.

Bankarnir eru að skoða dóminn

Í samtali við DV um niðurstöðu dómsins sagðist Edda Hermannsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Íslandsbanka, ekki geta sagt til um fjárhagsleg áhrif dómsins á bankann. Hún benti þó á að lán með umræddu ákvæði væru aðeins lítill hluti af lánasafni bankans. Í málflutningi lögmanns bankans fyrir Hæstarétti, sem DV fylgdist með, kom þó fram að bankinn teldi úrskurð áfrýjunarnefndarinnar afar íþyngjandi, enda hefði hann áhrif á þúsundir annarra lána og að þau næmu samtals um 60 milljörðum króna í bankanum. Aðspurð hvort bankinn þurfi að endurgreiða lántakendum vaxtamismuninn sagði Edda: "Já, það þarf að koma til móts við þetta." Hún vildi þó ekki segja nánar með hvaða hætti það yrði gert.

DV hefur í dag sent fyrirspurnir og reynt að hafa samband við aðra banka til að fá svör um hvort og þá hvaða áhrif dómurinn hefur á þeirra lán og lántakendur. Flestir segjast vera að skoða dóminn og meta stöðuna. Sömu svör bárust frá Katrínu Júlíusdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja.

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, staðfestir að sams konar ákvæði hafi verið í hluta lánasafns bankans frá árunum 2004 til 2009 en hann vill ekki gefa það upp hversu stór hluti það sé. Landsbankinn hafi þó ekki hækkað vexti sína líkt og Íslandsbanki gerði. Hann segir að bankinn hafi boðið fólki að endurfjármagna lán en það hafi einungis verið gert til að bjóða viðskiptavinum betri kjör. Engir nýir samningar séu með slíkum ákvæðum. Aðspurður um hvort bankinn hafi upplýst viðskiptavini sína um úrskurð Neytendastofu segir Rúnar: „Nei, úrskurðurinn gefur ekki tilefni til þess." Hann telur enn fremur enga ástæðu til þess að bregðast sérstaklega við dómi hæstaréttar.

„Sigur fyrir neytendur“

Blaðamaður DV náði stuttu spjalli við Sigurð í gærkvöldi. Hann var sigurreifur en jafnframt hugsi yfir framgöngu bankans í málinu. „Það er mjög sérstakt að þegar neytandi leitar til stjórnvalds til að verja rétt sinn að hann skuli vera dreginn í gegnum dómskerfið í fjögur ár. Það er umhugsunarefni út af fyrir sig. Viðskiptabanki sem hefur uppi málsástæður sem snúast meira og minna um það að reyna að klekkja á Neytendastofu sem er að banna honum að brjóta lög, hann rís ekki undir ábyrgð sinni.“ Sigurður efast ekki um fordæmisgildi dómsins. „Þetta er sigur fyrir neytendur í heild sinni, þúsundir manna.“

Átt þú endurgreiðslukröfu á þinn banka?

Á meðan þess er beðið að bankarnir skoði málið betur má telja að heppilegt væri fyrir alla lántakendur að skoða sína lánasamninga, gamla sem nýja, og athuga hvort í þeim sé að finna ákvæði um breytingu á vöxtum og rifja upp hvort viðskiptabanki þeirra hafi nýtt sér slíkt ákvæði. Neytendum til aðstoðar má hér í lokin sjá hið umrædda ákvæði sem Hæstiréttur hefur kveðið úr um að stangist á við lög um neytendalán.

„VAXTAENDURSKOÐUN. Íslandsbanka hf. er heimilt að breyta ofanskráðum vöxtum á vaxtagjalddögum en þó ekki fyrr en að liðnum fimm árum frá útgáfu skuldabréfs þessa og síðan á fimm ára fresti. Eigi síðar en einum mánuði áður en breyting á vöxtum á að taka gildi skal Íslandsbanki hf. tilkynna útgefanda um hana. Sætti útgefandi sig ekki við þessa vaxtabreytingu er honum heimilt án sérstaks uppgreiðslugjalds að endurgreiða lánið að fullu ásamt áföllnum vöxtum, verðbótum og kostnaði á þeim vaxtagjalddaga þegar breytingin átti að taka gildi, enda greini hann lánveitanda frá þeirri fyrirætlan með tveggja vikna fyrirvara.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.