fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Hulda bíður þess að 19 ára sonur hennar finnist látinn

Anton hefur verið á götunni í tæp ár -Engin úrræði fyrir hann hjá Akureyrarbæ -Fær ekki aðstoð á geðdeild þrátt fyrir tíðar sjálfsvígshugsanir

Kristín Clausen
Föstudaginn 13. október 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég bíð eftir símtalinu þar sem mér verður tilkynnt að hann sé farinn.“ Þetta segir Hulda Jóhannsdóttir en 19 ára sonur hennar hefur búið á götunni á Akureyri í tæpt ár. Drengurinn, sem heitir Anton, glímir við geðsjúkdóma og er í neyslu. Hulda gagnrýnir harðlega úrræðaleysi og dómhörku samfélagsins í garð sonar hennar sem hún telur vera í mikilli sjálfsvígshættu. Hulda er orðin úrkula vonar um að Anton fái viðeigandi aðstoð í tæka tíð og hann sjálfur kann ekki að leita sér aðstoðar.

Hulda hefur glímt við kerfið frá því að Anton var tveggja ára. Hún segir að það hafi þó verið ljóst frá upphafi að ekki var allt með felldu hjá syni hennar. Anton er meðal annars greindur með ADHD, hegðunarröskun, mótþróaþrjóskuröskun, talþroskaröskun og málþroskaröskun. Þá sýnir hann einkenni einhverfu, geðklofa og geðhvarfa. „Ég hef alltaf þurft að fara allt á hnefanum þegar kemur því að fá aðstoð fyrir Anton. Hann er með margar greiningar og virka geðsjúkdóma. Ofan á þetta allt saman er hann í neyslu,“ segir Hulda en skömmu eftir að Anton varð 18 ára henti hún honum út af heimilinu. „Þetta var á milli jóla og nýárs á síðasta ári. Þá fór hann í geðrof og sýndi mjög ógnandi hegðun. Hann rústaði herbergi systur sinnar, braut ljósaperu og glerbrotum rigndi yfir mig. Svo tók hann upp hníf og hótaði að drepa sig með honum. Ég var alblóðug þegar lögreglan kom og yngri systkini hans horfðu upp á það þegar hann var fjarlægður í handjárnum.“

19 ára á götunni

Atvikið markaði ákveðin kaflaskil fyrir Huldu en síðan þá hefur Anton verið á götunni. „Ég gat ekki boðið systkinum hans upp á þetta lengur. Það á enginn skilið að lifa í stöðugum ótta.“ Auðvitað hefur þetta tekið gríðarlega á okkur en ég veit að þetta var rétt ákvörðun.

Hulda segir son sin hafa skilið ákvörðunina. Þau óraði þó ekki fyrir því að núna, tæpu ári síðar, væri hann enn á götunni. „Anton er orðinn skugginn af sjálfum sér. Hann er grindhoraður. Líf hans einkennist af óvissu og leitinni að næsta skammti. Anton er heldur ekki í æskilegasta félagsskapnum hérna á Akureyri. Það óhugnanlega við þetta er að hann er bara 19 ára, með greindar geðraskanir og í sjálfsvígshættu. Hann er látinn hírast, mánuð eftir mánuð, einn úti í kuldanum.“

Áður en Anton varð 18 ára sá barnavernd um hans mál. Hulda viðurkennir fúslega að ýmislegt hafi verið reynt í gegnum tíðina þrátt fyrir að flest hafi farið forgörðum. Anton hafi til að mynda dvalið hjá tveimur fósturfjölskyldum sem reyndust honum vel. Anton fór einnig á Stuðla í átta vikur, fjölskyldan fékk sálfræðiráðgjöf og Hulda segir að allir hafi reynt sitt besta, sem var þó aldrei nóg. Að mati Huldu vantar alla eftirfylgni, hvort sem er eftir meðferðir eða læknisheimsóknir. „Það er hægt að setja upp afskaplega flott plön og láta allt líta faglega út, en þegar eftirfylgnina vantar þá segir það sig sjálft að dæmið á aldrei eftir að ganga upp.“

Anton vill ekki lengur leita sér aðstoðar á geðdeild spítalans þar sem hann telur að sér verði hvort eð er vísað frá.
Sjúkrahúsið á Akureyri Anton vill ekki lengur leita sér aðstoðar á geðdeild spítalans þar sem hann telur að sér verði hvort eð er vísað frá.

Mynd: Guðrún Þórsdóttir

Búinn að gefast upp

Eftir að Anton náði lögaldri fluttist mál hans frá barnavernd til fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar. Á sama tíma hætti Hulda, nánast alveg, að fá upplýsingar um gang mála þar sem hann telst sjálfráða. Síðan þá segir Hulda að allt sem fylgi Antoni einkennist af bið og meiri bið. Á sama tíma hefur andlegri og líkamlegri heilsu hans hrakað hratt. En af hverju telur Hulda að syni hennar hafi ekki verið komið í öruggt skjól? „Ástæðan er peningar. Hann er á biðlista eftir húsnæði. Biðtíminn er núna svona tvö til þrjú ár. Fyrir nokkrum mánuðum skoðuðum við, í fylgd félagsráðgjafa, mjög fínt áfangaheimili í Hömrum. Þar eru úrræði fyrir ungt fólk með geðraskanir. Hann var augljóslega ekki kandídat í það þar sem við höfum enn ekkert heyrt. Svo biðin heldur áfram. Stundum hugsar maður líka hvort kerfið sé einfaldlega að bíða eftir því að hann svipti sig lífi. Þá losnar það heldur betur við stóran pakka. Úrræðaleysi fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar gagnvart Antoni er algjört. Þrátt fyrir að allir séu af vilja gerðir, þá gerist nákvæmlega ekki neitt.“

Upp á síðkastið hafa Hulda og fleiri aðstoðað Anton með því að borga eina og eina nótt fyrir hann á gistiheimilum á Akureyri. Hún segir Anton sjálfan langa til að verða edrú. Meðal annars hafi hann sagt henni frá meðferðarheimili í Svíþjóð sem hann langar að komast á í langtímameðferð. Það sé hins vegar alltof kostnaðarsamt og undarlegt að fárveikur fíkill sé farinn að hugsa út fyrir landsteinana með tilliti til aðstoðar.
„Anton er ekki vitlaus. Þegar hann tekur lyfin sín, og er edrú, þá er hann alveg eins og þú og ég. En þegar hann gerir það ekki er voðinn vís. Hann hringir stundum í mig. Þá er hann yfirleitt alveg búinn á því. Núna finnst mér eins og hann sé endanlega búinn að gefast upp. Hann upplifir sjálfan sig sem utangarðsmann sem á engan möguleika á því að lifa venjulegu lífi framar. Það er hryllileg tilhugsun. Þessi maður ætti að eiga allt lífið framundan. En eins og staðan er núna þá á hann ekki langt eftir. Allt vegna þess að hann hefur aldrei fengið viðeigandi aðstoð. Allir hafa alltaf gefist upp á honum og sópað vandamálinu áfram. Nú er það komið á endastöð.“

Vísað frá geðdeild

Hulda greinir frá því að í haust hafi hún farið með Antoni á geðdeild sjúkrahússins á Akureyri. „Hann vildi ekki lifa lengur og var kominn í þrot. Í stað þess að vera boðið pláss var hann sendur heim með nokkrar töflur og þau skilaboð að geðdeildin væri ekki afeitrunarstöð. Þarna var hann að berjast við að vera edrú en hans geðraskanir voru að taka völdin og hann gat ekki meira.“ Hulda segir að þarna hafi þrír læknar komið að máli Antons. Nokkru síðar fékk hún símtal þar sem henni var tilkynnt að Anton myndi komast að á 33A sem er fíknigeðdeild á Landspítalanum við Hringbraut. „Löngu seinna hringdi deildarstjóri á 33A í mig og sagði að Anton þyrfti að bíða í marga mánuði eftir plássi. Þarna fórum við í ákveðið þrot. Stuttu síðar komst Anton að á Vogi. Meðferðin virkaði þó ekki, þar sem hann fékk enga eftirfylgni.“ Hulda segir að ekkert af þessu hafi komið henni á óvart. Þá bætir hún við að Anton sé löngu hættur að vilja sækja sér aðstoð hjá geðdeild sjúkrahússins á Akureyri þar sem hann fái hvort eð er enga aðstoð. „Hann segir að ferlið sé alltaf það sama. Hann er látinn bíða heillengi og eftir viðtalið sé honum vísað aftur út. Þrátt fyrir að vera með sjálfsvígshugsanir og allar þessar greindu geðraskanir.“

Eins og staðan er núna telur Hulda son sinn ekki eiga langt eftir. Á hverju kvöldi, þegar síminn hringir, þá óttast hún það versta. Að á hinum endanum sé manneskja sem þurfi að tilkynna henni um andlát Antons. „Það sem ég vil er hann verði sviptur sjálfræði og komið fyrir í langtíma meðferð. Þar myndi ég vilja að honum yrði hjálpað með fíknina og geðraskanirnar. Í framhaldinu myndi ég vilja að honum yrði útvegað öruggt húsnæði og komið af stað út í atvinnulífið. Eins og staðan er núna þá sé ég ekki fyrir mér að þetta eigi eftir að gerast. Það er ekkert húsnæði að hafa og það eru engin úrræði í boði fyrir fólk eins og hann á Akureyri. Það sem ég vil að fólk skilji er að hann er ekki hræðileg manneskja. Hann er veikur og þarf sárlega á aðstoð að halda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“