Fréttir

Alvarlega veikur faðir Völu fastur í hrörlegu húsi frá 1884: Getur ekki búið einn – „Enginn vill eiga týnda fólkið“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir skrifar
Föstudaginn 13 október 2017 13:31

Faðir Völu Sólrúnar glímir við erfið veikindi dag hvern, bæði líkamlega og andlega. Hann er með króníska lungnabólgu, tekst á við fíkn og er mjög illa haldinn og hrakinn eftir lífsbaráttuna á götum úti síðustu 15-20 árin. Hann var útskrifaður í gær af gjörgæslunni í Fossvogi, en þar hafði hann verið nánast meðvitundarlaus í einn og hálfan sólarhring. Hann átti að fara inn á geðdeild en var neitað um vist því starfsfólk treysti sér ekki að taka við honum vegna veikinda hans. Hann var sendur á bráðamóttökuna í Fossvogi þar sem hann er nú. Faðir Völu býr í húsi sem honum var úthlutað en vegna andlegra og líkamlegra veikinda getur hann ekki búið einn og þarf nauðsynlega á faghjálp að halda. Hann fær ekki inngöngu í Gistiskýlið og þegar Vala spyr starfsmenn þar um ástæðuna fyrir því er svarið einfaldlega þetta: „Hann er með húsnæði.“ Húsnæðið sem um ræðir er í niðurníslu og eitt af eldri húsum bæjarins með brattann stiga sem veikur faðir Völu kemst upp með herkjum en á hæðinni fyrir ofan er svefnherbergi hans.

„Innlagnir á bráðamóttöku og lungnadeild síðustu mánuði eru mun fleiri en ég hef tölu á. Hann hefur í rúmt ár verið að mestu í gistiskýlinu eða úti en nú er honum neitað um aðgang þar vegna þess að „hann er kominn með húsnæði““ segir Vala Sólrún.

Vala Sólrún
Vala Sólrún

Mynd: Mynd: Ásta Kristjánsdóttir

Hefur ítrekað reynt að fá inn á Gistiskýlið

Reykjavíkurborg úthlutaði föður Völu húsnæði gegn mánaðarlegu leigugjaldi.

„Heilsu hans hefur hrakað verulega eftir að hann flutti þangað. Þar að auki getur hann ekki búið einn, er of veikur til að reka heimili og sjá um sig. Hann hefur ítrekað reynt að fá inni í gistiskýlið undanfarið því honum finnst það betri staður en þetta húsnæði þar sem hann kemur að lokuðum dyrum.“

DV fór með Völu í húsið en þar hefur enginn verið í viku því faðir hennar hefur verið á Landspítalanum í Fossvogi. Vala segir að faðir hennar geti ekki hugsað um sig sjálfur og henni finnst óskiljanlegt af hverju hann er í þessu húsnæði.

Húsið er í miðbæ Reykjavíkur og var friðað 2012. Samkvæmt Minjastofnun var húsið byggt 1884. Húsið stendur eitt og sér nálægt íbúðablokk og höfninni. Í húsinu er eldhús, baðherbergi, geymsla og fjögur herbergi. Það er einnig, eins og nefnt hefur verið, afar brattur stigi en erfitt er fyrir 68 ára gamlan veikan mann að ganga upp hann.

Það var byggt 1884 og friðað 2012.
Húsið Það var byggt 1884 og friðað 2012.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Vala segir blaðamanni DV að starfsmenn á vegum Gistiskýlsins fari daglega til föður hennar í heimsókn þegar hann er þar. Vala hringdi í Gistiskýlið sama dag og DV tók myndirnar. Sagt var við hana að það „væri smá drasl“ í húsinu, en starfsmaður þurfti að koma með lykla til að opna húsið fyrr um daginn. Eins og sést á myndunum með fréttinni þá er húsið nánast óíbúðahæft og faðir Völu greinilega of veikur til að búa þar einn og hugsa um sig sjálfur. Forráðamenn gistiskýlisins vita af stöðu hans og stöðunni á heimilinu en neita honum um aðstöðu sökum þess að hann er með húsnæði.

DV reyndi að komast að því hvaða stofnun hjá Reykjavíkurborg úthlutaði honum húsnæðinu. Eftir þó nokkur símtöl við fimm stofnanir hjá Reykjavíkurborg fékk blaðamaður þau svör að húsið væri í eigu Reykjavíkurborgar og Velferðarsvið Reykjavíkur er að nýta það. DV ræddi við starfsmann Velferðasviðs og spurði hvað kom til að 68 ára mjög veikum manni var úthlutað þessu húsi og af hverju hann var settur í hús með svona bröttum stiga, hann ætti erfitt með að komast á klósettið á kvöldin og næturnar. Stiginn er einnig hættulegur en auðvelt er að detta í honum. DV fékk engin svör við þessum spurningum, einungis lýsingu á starfi Velferðasviðs.

Engin dýna er í rúminu en Vala segir að það teljist til undantekninga að faðir hennar eigi húsgögn.
Svefnherbergið Engin dýna er í rúminu en Vala segir að það teljist til undantekninga að faðir hennar eigi húsgögn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Völu finnst óskiljanlegt af hverju faðir hennar er í þessu húsnæði.
Eldhúsið Völu finnst óskiljanlegt af hverju faðir hennar er í þessu húsnæði.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Faðir Völu er of veikur til að hugsa um sig sjálfur. Hann þarf að fá faghjálp.
Baðherbergið Faðir Völu er of veikur til að hugsa um sig sjálfur. Hann þarf að fá faghjálp.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Engin tenging virðist á milli innlagna

Í hverri innlögn á spítala virðist að föður hennar sé tekið sem nýju máli og engin tenging virðist vera á milli innlagna að sögn Völu.

„Hann er útskrifaður í hvert skipti þegar ástand hans er orðið stöðugt og er iðulega kominn inn aftur innan örfárra daga.“

Faðir Völu fékk höfuðhögg síðustu helgi sem leiddi til innlagnar á heila- og taugaskurðdeild.

„Hann hefur sýnt vilja til þess að komast í meðferð sem byrjar á Vogi. Á þriðjudaginn fór ég með pabba frá heila- og taugaskurðdeild og inn á Vog. Hann hafði verið útskrifaður vegna þess að hann þurfti ekki uppskurð. Ég spyr af hverju var hann ekki færður á viðeigandi deild? Það er lífsspursmál að hann sé inni á stofnun en ekki á götunni, þar er hann að deyja mun hraðar en hann þarf.“

Hann var því miður mjög stutta stund inni á Vog en eftir aðeins nokkurra klukkustunda dvöl þá leið yfir hann. Hann var með allt of lágt súrefnismagn í blóðinu.

„Hann er með alvarlega lungnabólgu, mjög veikburða lungu og á erfitt með andardrátt. Hann var sendur á bráðamóttöku og eftir rannsóknir, enn og aftur, var hann lagður inn á gjörgæslu þar sem hann var í nokkra daga nánast án meðvitundar í ytri öndunarvél.“

Tveimur vikum áður fór hann einnig inn á Vog en var rekinn þaðan þremur dögum síðar fyrir að láta illa og neita að taka lyfin sem honum voru gefin.

Geðdeild vildi ekki taka á móti honum vegna veikinda

Í gær útskrifaðist faðir Völu af gjörgæslu Landspítalans í Fossvogi. „Hann var útskrifaður aðallega vegna þess að hann er orðinn ógnandi gagnvart starfsfólki og öðrum sjúklingum. Hann vildi ekki fara á geðdeild frekar en að vera á gjörgæslu. Það er ekki hægt að gefa honum róandi lyf til þess að hann sé viðráðanlegri vegna þess að lungun þola það ekki og hann rífur af sér öndunarpípur.“

Stiginn sem er í húsinu. Faðir Völu er 68 ára og á mjög erfitt með að komast upp og niður stigann.
Brattur stigi Stiginn sem er í húsinu. Faðir Völu er 68 ára og á mjög erfitt með að komast upp og niður stigann.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Vala reyndi að ræða við hann í símann í gær en skildi ekki mikið hvað hann sagði.

„Mér fannst hann ekki vita hvar hann væri. Hann var verulega ringlaður og þvoglumæltari en venjulega.“

Faðir hennar var færður á geðdeild með sjúkrabíl en geðdeild treysti sér ekki að taka við honum vegna líkamlegu veikindanna. Hann var sendur aftur með sjúkrabílnum inn í Fossvog á bráðamóttöku. Rannsóknir hefjast nú að nýju.

Beðið eftir að útskrifa hann

Vala segir að henni finnst sama sagan sífellt endurtaka sig og muni gera það þangað til faðir hennar deyr.

„Nú er bara að bíða eftir að hann verði stöðugur svo hægt sé að útskrifa hann ekki satt? Fara svo nokkra hringi í viðbót í þessari langavitleysu eða eins marga og hann þolir áður en hann er dauður. Hann virðist einfaldlega vera fyrir í þessu batteríi. Það er engin eftirfylgni eða yfirsýn með hans veikindum.“

Vala segir að hennar mati þyrfti að losa föður hennar við lungnabólguna ef hægt er og leggja hann síðan inn á geðdeild, sama hvort hann samþykki það eða ekki.

„Koma honum svo á viðeigandi lyf, næra hann og hvíla þangað til hann er nægilega hraustur til að vera á Vogi eða hvar sem best væri fyrir hann að vera innan sjúkrastofnana. Reyndar hefur geðdeild síður en svo reynst öruggur staður fyrir innliggjandi sjúklinga.“

Faðir Völu fær ekki inngöngu í Gistiskýlið því honum var úthlutað þessu húsnæði. Hann vill frekar vera í Gistiskýlinu.
Vill vera í Gistiskýlinu Faðir Völu fær ekki inngöngu í Gistiskýlið því honum var úthlutað þessu húsnæði. Hann vill frekar vera í Gistiskýlinu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Svo kallaður „útigangsmaður“

Vala segir að pabbi hennar geti verið óviðráðanlegur og farið í geðrof mislangt hverju sinni.

„Að útskrifa pabba er engin lausn þó það sé léttir að losna við hann af deildinni því hann getur vægast sagt verið mjög óviðráðanlegur og farið í geðrof mislangt hverju sinni. Pabbi er mjög veikur, líkamlega og andlega. Ég óska þess að kerfið horfi lengra en einungis á sína deild og daginn í dag, þrátt fyrir að faðir minn sé svo kallaður „útigangsmaður.““

„Mikið að í heilbrigðiskerfinu“

Vala segir að mikið sé að í heilbrigðiskerfinu. „Sumir virðast ekki passa inn og eru sendir á milli eins og búmmerang þangað til þeir gefast upp og deyja. Aðstandendur eru oft á tíðum mjög illa farnir líka. Enginn vill eiga týnda fólkið.“

Vala vill taka það fram að hún efast ekki um að starfsfólk spítalanna geri það sem hægt er hverju sinni og segist hún undantekningarlaust mæta góðvild sjúkrastarfsfólks á hvaða deild sem um ræðir. Ekki er við starfsfólkið að sakast, sama segir hún um starfsfólk Gistiskýlisins. „Það er umgjörðin sem er alls ekki í lagi,“ segir Vala.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Fyrir 51 mínútum síðan
Alvarlega veikur faðir Völu fastur í hrörlegu húsi frá 1884: Getur ekki búið einn – „Enginn vill eiga týnda fólkið“

Það reyndist konu dýrt að deila upplýsingum úr líkamsræktarappi – Missti tryggingabætur fyrir vikið

Fréttir
í gær
Það reyndist konu dýrt að deila upplýsingum úr líkamsræktarappi – Missti tryggingabætur fyrir vikið

Birgir og Tyson drápu þvottabjörn á Reykjanesi í gær: Ekki vitað hvernig dýrið komst til landsins

Fréttir
í gær
Birgir og Tyson drápu þvottabjörn á Reykjanesi í gær: Ekki vitað hvernig dýrið komst til landsins

Sprengjuvargurinn í Texas þykir minna óhugnanlega mikið á hinn alræmda Ted Kaczynski

Fréttir
í gær
Sprengjuvargurinn í Texas þykir minna óhugnanlega mikið á hinn alræmda Ted Kaczynski

Fær að nota sæði úr látnum eiginmanni sínum

Fréttir
í gær
Fær að nota sæði úr látnum eiginmanni sínum

Sjómenn á Fjölni GK fundu fótinn: Skór fylgdi með – „Ósk áhafnarinnar að fundurinn veiti manneskju sálarró“

Fréttir
í gær
Sívar er látinn: Ásdís Halla minnist bróður síns

Örn fór af spítalanum eftir hjartaáfall: „Ég varð að fara að spila – Það er ekkert sem stoppar þig“

Fréttir
í gær
Örn fór af spítalanum eftir hjartaáfall: „Ég varð að fara að spila – Það er ekkert sem stoppar þig“

Umfangsmiklar aðgerðir á Faxaflóa: Kafbátur var notaður til að ná upp líkamsleifunum

Mest lesið

Ekki missa af