fbpx
Fréttir

Tara segir Morgunblaðið lítilsvirða og smána feit börn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 12. október 2017 20:00

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir

Morgunblaðið birti í dag grein um aukna offitu barna í heiminum undir fyrirsögninni „Börn blása út“. Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu, gagnrýnir harðlega efnistök Morgunblaðsins og fordæmir bæði innihald greinarinnar og fyrirsögnina.

Í harðorðum pistli á Facebook segir Tara meðal annars:

„Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Á virðingarleysinu sem feitum börnum er sýnt með þessari ógeðslegu, smánandi fyrirsögn og “headless fattie”-mynd í stíl, eða hversu illa unnin fréttin er og að blaðamaður virðist gleypa við upplýsingunum og endurtaka hræðsluáróðurinn gagnrýnislaust?“

Tara bendir síðan á að við rannsóknina sem vísað er til í greininni hafi verið notast við hinn svokallaða BMI stuðul þar sem breyturnar eru þyngd og hæð. Tengir hún síðan á nokkrar erlendar fréttir um börn í eðlilegum holdum sem úrskurðuð hafa verið feit vegna BMI-stuðuls síns. Sjá hér, hér og hér.

Í öllum fréttunum segir af börnum í eðlilegu holdum sem hafa verið flokkuð feit á grundvelli BMI-stuðuls. Tara segir síðan í framhaldinu:

„Ég er ekki að segja að það séu ekki til feit börn en þetta hlýtur að sýna okkur að við þurfum að taka öllum svona yfirlýsingum með fyrirvara. Með því að birta myndir af einstaklingum sem eru ekki dæmigerðir fyrir hópinn með fréttum um offitu hefur smám saman verið búin til röng mynd af “offitufaraldrinum” í hausunum á okkur.

Fjölmiðlar bera stærstu ábyrgðina á þeirri mynd sem hefur skapast, með óábyrgu og fordómafullu myndavali af feitu fólki í steríótýpískum hlutverkum. Slíkar birtingarmyndir stuðla að hlutgervingu feits fólks svo að það missir mannlega eiginleika sína. Þetta veldur því að raddir, tilfinningar, hugsanir og skoðanir feits fólks eru gerðar að engu og í staðinn er það gert að tákni fyrir menningarlegan ótta við fitu. Það gerir það að verkum að þegar við lesum himinháar tölur um offitufaraldurinn súpum við hveljur.

Tara fer síðan vítt og breitt yfir afleiðingar af fitusmánun, vafasamar forsendur offiturannsókna og ýmislegt fleira sem tengist umræðunni um offitu og fitusmánun. Hún vísar í ýmsar greinar þar sem reifaðar eru ranghugmyndir varðandi offitu almennt og offitu barna og skrifar síðan:

„Þessi „frétt“ mbl.is er til skammar. Eins erfitt og mér finnst að sjá svona umfjöllun um feitt fólk verð ég að segja að mér fallast hendur þegar um feit börn er að ræða. Ef við getum ekki sýnt feitum börnum snefil af virðingu og umhyggju hvert erum við þá komin? Hvað þarf ég að skrifa þennan pistil oft til að fólk, og þá sérstaklega fjölmiðlar, fari að vakna? Af hverju þarf einhver að berjast fyrir því að það sé ekki fjallað opinberlega um neinn hóp fólks á jafn smánandi hátt, hvað þá börn? Ég er gjörsamlega búin að missa þolinmæðina. Við höfum staðið vaktina í mörg ár núna og bent fjölmiðlum hvað eftir annað á að 1) þessi umfjöllun eigi ekki rétt á sér og 2) að hún sé skaðleg. Ekkert breytist. Áfram halda fjölmiðlar að smána feitt fólk af öllum aldri og skapa orðræðu sem ýtir undir ofbeldi gagnvart því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Í gær

Svarti pardusinn: Hann var kallaður Vofan – „Við skulum sjá hvort hún er hlaðin,“

Svarti pardusinn: Hann var kallaður Vofan – „Við skulum sjá hvort hún er hlaðin,“
Fréttir
Í gær

Segir að Austur verði lokað í kvöld: Harðvítugar deilur – „Við erum búin að skila leyfinu og loka staðnum“

Segir að Austur verði lokað í kvöld: Harðvítugar deilur – „Við erum búin að skila leyfinu og loka staðnum“
Fyrir 2 dögum

Þið þurfið ekki að taka við þessu öllu

Þið þurfið ekki að taka við þessu öllu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fylgstu með öllum leikjunum í enska boltanum á 433

Fylgstu með öllum leikjunum í enska boltanum á 433