Íslensk kona kynntist Nígeríumanni á einkamálasíðu og flæktist inn í peningaþvætti

Málið sagt teygt anga sína til margra landa

Mynd: 123rf.com

Þrír Íslendingar og einn Nígeríumaður sæta ákæru fyrir tugmilljóna peningaþvætti. Snýst málið um millifærslur milli landa en annar Nígeríumaður er talinn vera höfuðpaurinn í málinu. Hans er enn leitað.

Fram kemur á vef RÚV að upphaf málsins megi rekja til þess að höfuðpaurinn hafi sett sig í samband við einn af sakborningunum, íslenska konu í gegnum einkamálasíðu árið 2006. Áttu þau nokkra fundi í kjölfarið, annars á Ítalíu og hins vegar í öðru ónefndu Evrópulandi. Konan sá um að útvega honum íslenskan bankareikning en sá bankareikningur var stílaður á fyrirtæki í eigu annars Íslendings sem jafnframt er ákærður í málinu.

Í kjölfarið komst maðurinn inn í tölvupóstsamskipti sem fram fóru á milli íslensks útgerðarfyrirtækis og viðskiptavinar þeirra sem er suðurkóreskt fyrirtæki.

Í lok janúar voru síðan 30 milljónir lagðar inn umræddan íslenskan bankareikning. Annar maðurinn notaði hluta upphæðarinnar til að kaupa jeppa og þá sendi konan hluta upphæðarinnar til fjögurra mismunandi aðila erlendis.

Í kjölfarið millifærðu Íslendingarnir þrír 23 milljónir inn á reikning í Arion banka og var upphæðin síðan aftur millifærð inn á reikning í Íslandsbanka. Þaðan voru 20 milljónir millifærðar á reikning fyrirtækis í Hong Kong og tveimur dögum síðar var ein milljón millifærð til viðbótar. Nokkrum dögum síðar voru 22 milljónir lagðar inn á íslenska bankareikninginn sem konan útvegaði Nígeríumanninum í upphafi og var sú upphæð millifærð yfir á reikning annars Íslendingsins.

Nígeríumaðurinn sem ákærður er ásamt Íslendingunum þremur kom til Íslands á vegum höfuðpaursins í febrúar í fyrra til að skipuleggja peningaþvættið og gefa Íslendinunum fyrirmæli.

Fram kom á vef Vísis að lögreglu hafi verið gert viðvart í febrúar í fyrra eftir að ein millifærslan var flögguð í bankakerfinu og þótti grunsamleg.

Þremenningarnir voru handteknir í kjölfarið en Nígeríumaðurinn var þá farin af landi brott. Hann var handtekinn á flugvellinum í Bologna á Ítalíu í febrúar á þessu ári en þá hafði verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hann og hafi skrifstofa almannaöryggis innanríkisráðuneytisins óskað eftir því að hann yrði framseldur til Íslands en þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Hæstaréttar. Hann var fluttur til landsins 17.ágúst og settur í gæsluvarðhald.

Þá greinir RÚV frá því í byrjun mars á þessu ári að einn af sakborningunum hafi í þrígang hlotið dóm fyrir kynferðisbrot.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.