Brotið á barnshafandi konum á Suðurnesjum

Mynd: Mynd Photos.com

„Þetta er ólíðandi í svona stóru heilbrigðisumdæmi sem þjónar um 25.000 manns, samkvæmt tölum Hagstofunnar,“ segir Berglind Ásgeirsdóttir íbúi á Suðurnesjum en hún kom nýlega á fót undirskriftasöfnun þar sem óskað er eftir því að barnshafandi konur á Reykjanesi hafi aðgang að ljósmóður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja allan sólahringinn og allt árið. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.

Síðan árið 2013 hefur ljósmæðravaktin verið lokuð í einn mánuð að sumri þar sem aðeins er veitt mæðravernd en konur sem þurfa frekari þjónustu er gert að leita á Landspítalann í stað þess að fá þjónustu á HSS eins og hina mánuði ársins.

Fram kemur á heimasíðu söfnunarinnar að fyrirkomulagið valdi barnshafandi konum og fjölskyldum þeirra óöryggi, óþægindum og jafnvel tekjuskerðingu og slítk sé ólíðandi í svo stóru heilbrigðisumdæmi, en það þjónar um 25.000 manns samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu segir að heilbrigðisþjónustu skuli veita á „viðeigandi þjónustu stigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga“ og eru lög því brotin þegar barnshafandi konur á Reykjanesi þurfa að sækja þjónustu, sem annars er veitt á HSS, til Reykjavíkur vegna lokunar ljósmæðravaktar.

Rúmlega 1.500 manns hafa skrifað undir listann en Berglind segir fyrirkomulagið skapa stress og erfiðari upplifun á meðgöngunni hjá barnshafandi konum á Suðurnesjum. „Við þurfum að nýta kraft fjöldans til að knýja fram breytingar svo það verði ekki nein sumarlokun á fæðingardeildinni árið 2018. Andrúmsloftið og aðstaðan á fæðingardeild HSS er frábær og það er yndislegt að koma þangað. Ég átti báðar stúlkurnar mínar þar og gæti ekki hugsað mér annað.“

Hér má finna heimasíðu undirskriftasöfnunarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.