Össur: „Vaxandi líkur eru á djúpri, og hugsanlega langri, stjórnarkreppu“

„Eftirleikur bankahrunsins þarf líklega 10-15 ár í viðbót til að spilast á enda“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Össur Skarphéðinsson fyrrverandi ráðherra segir að miðað við könnun MMR sem birtist í dag séu vaxandi líkur á djúpri og hugsanlega langri stjórnarkreppu. Í könnun MMR mælast Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn nánast jafn stór með rúmlega 21% fylgi. Samfylkingin bætir við sig nokkru fylgi en flokkurinn mælist nú með 13% fylgi. Miðflokkur Sigmundar Davíðs mælist með stuðning 10,7% kjósenda og er því með örlítið meira fylgi en Píratar, sem mælast með 10,5% fylgi. Flokkur fólksins mælist með rúmlega 7% fylgi og Framsókn með rúmlega 6% fylgi. Viðreisn og Björt framtíð myndu ekki ná manni inn á þing ef kosið yrði í dag.

„Það var engin ríkisstjórn í þeim kortum sem slegið var upp af skoðanakönnun MMR í dag. Það eina sem má lesa úr henni er að vaxandi líkur eru á djúpri, og hugsanlega langri, stjórnarkreppu,“ segir Össur á Fésbók og bætir við: „Yrðu niðurstöður kosninganna svipaðar þá er ekki útilokað að kosið verði enn einu sinni á á stuttum tíma – og yrði þá í síðasta lagi á vori útlíðanda. Nema auðvitað VG léti reka sig í að nota stjórnarkreppu til að mynda ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði hinn burðarásinn. Ég á ekki von á því. Eftirleikur bankahrunsins þarf líklega 10-15 ár í viðbót til að spilast á enda. En hvað veit ég....“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.