Myndband þegar frambjóðandi Flokks fólksins var sagður fullur á fundi nemenda: Inga Sæland: „Algjörlega út fyrir öll velsæmismörk“

Spurningar til frambjóðenda:

Eruð þið hlynnt því að fá áfengi í matvöruverslanir?

„Já já, endilega,“ sagði Pétur og uppskar hlátur og klapp.

Viljið þið hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri?

„Nei, ég vil hafa hann á Akureyri“

Áttu Snapchat?“

„Hvað er það? Hvað er það?“

Er ykkar flokkur fylgjandi að lækka kosningaraldur í 16 ár?

„Ég hef nú aldrei heyrt meiri vitleysu!“

Pétur Einarsson, annar maður á lista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, er sagður hafa angað af áfengi og hagaði sér sérkennilega á kosningafundi á vegum Hugins, skólafélag Menntaskólans á Akureyri, í gær. DV hefur rætt við aðra frambjóðendur á sviðinu og voru þeir á einu máli að framganga Péturs hafi verið óvenjuleg. Myndband af fundinum segir sína sögu. Pétur hóf mál sitt á að ávarpa salinn á frönsku, þá vildi hann flytja Reykjavíkurflugvöll til Akureyrar, sagðist stundum finnast hann vera kona í karlmannslíkama og greindi kröftuglega frá því þegar engra orða var óskað að hann vildi áfengi í búðir. Á þeirri stundu áttu frambjóðendur ekki að svara munnlega, heldur með spjöldum, lyfta grænu fyrir já en rauðu fyrir nei. Pétur ákvað hins vegar að svara öllum spurningum bæði með spjöldum og um leið kalla yfir salinn sínar skoðanir á málunum. Í samtali við DV þverneitar Pétur að hann hafi verið drukkinn.

Fundurinn var sýndur í beinni útsendingu á Facebook-síðu Hugins og er upptakan enn aðgengileg þar. DV hefur tekið saman nokkur brot úr útsendingunni þar sem Pétur tekur til máls. Ingvar Þóroddsson, Inspector scholae Hugins, skólafélag MA, segir í samtali við DV að það hafi verið talsverð umræða um ástand Péturs í kjölfar fundarins. Hann vildi þó ekkert fullyrða um hvort Pétur hafi verið drukkinn en benti á að ef það væri rétt þá væri réttast að stjórn skólans myndi bregðast við því. Ekki náðist í Jón Má Héðinsson skólameistara við vinnslu fréttar.

Inga Sæland, formaður flokksins, segir í samtali við DV að hún harmi þau orð sem Pétur lét falla en segir að það sé alrangt að hann hafi verið drukkinn, þar sem hann sé óvirkur alkóhólisti.

„Kallinn er náttúrlega ekki fullur en hann er með einhvern svartan húmor sem ég kann ekki við. Hann er þarna bláedrú, ég er búin að hitta hann tvisvar og þetta er bara hann. Þessi maður er óvirkur alkóhólisti þannig að hann er ekki að drekka neitt vín. Ég er afskaplega döpur yfir því sem hann sagði þarna hins vegar. Það var algjörlega út fyrir öll velsæmismörk,“ segir Inga.

Líkt og fyrr segir hafnar Pétur því að hann hafi verið drukkinn.

Inga Sæland: „Það var algjörlega út fyrir öll velsæmismörk“

„Ég er á svona fundum eins og breskur stjórnmálamaður, ég haga mér þannig og hef alltaf gert. Ég er í kosningabaráttu og það er alveg útilokað. Ég er algjörlega klár á því. Þetta er bara þannig að ég er þannig stjórnmálamaður að ég er nákvæmlega eins og þeir í breska þinginu og það er kannski það sem fólki hefur fundist undarlegt. Hins vegar var ég búinn að keyra þrjú þúsund kílómetra á rétt rúmum fjórum sólarhringum, fara á tólf fundi, vaka mikið, skrifa alveg endalaust. Við höfum þurft að vinna eins og hundar því það er svo stutt í kosningar. Ég tek öllu af fullri alvöru sem ég tekst við, af fullri alvöru,“ segir Pétur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.