Maðurinn sem kastaði sér út úr bíl við Ásbrú er látinn

Karlmaður frá Kína sem henti sér út úr leigubíl í lok ágúst er látinn. Frá þessu er greint á Vísi. DV fjallaði um málið í byrjun september. Þar var greint frá því að atvikið hefði átt sér stað við Ásbrú.

Maðurinn steig upp í leigubílinn við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og pantaði sér far að Ásbrúar-svæðinu. Þegar á áfangastað var komið virkaði ekki kort mannsins og því gat hann ekki greitt fyrir bílinn. Hann og leigubílstjórinn urðu sammála um að snúa við og athuga hvort kortið myndi virka í öðrum posa.

Þegar stutt var liðið af ferðinni til baka þá opnaði farþeginn fyrirvaralaust dyrnar og henti sér út. Samkvæmt heimildum DV var bílinn þá á um 40 kílómetra hraða á klukkustund. Farþeginn stórslasaðist við fallið og hringdi bílstjóri aðvífandi leigubíls samstundis á sjúkrabíl. Leigubílstjórinn var sem von er í miklu áfalli en hann treysti sér ekki til að ræða við fjölmiðla. Þá er vert að taka fram að lögreglan hefur útilokað að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað.

Maðurinn hlaut mikla höfuðáverka. Hann var kínverskur ríkisborgari og tæplega fertugur. Hann komst aldrei til meðvitundar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.