Lögreglan varar við vel útfærðu svindli á Facebook

Skjáskot af umræddum pósti.
Skjáskot af umræddum pósti.

Facebook er að mörgu leyti gagnlegur og skemmtilegur samfélagsmiðill en á sér þó sínar skuggahliðar enda er óvandaðar sálir að finna þar sem víðar. Ekki er óalgengt að reynt sé að nota Facebook til að dreifa tölvuóværum eða við svikastarfsemi. Danska lögreglan sendi í gær frá sér viðvörun vegna tilrauna svikahrappa til að fá fólk til að gefa upp aðgangsupplýsingar sínar að Facebook með velútfærðum hætti.

Notendur Facebook fá skilaboð á Facebook sem líta út fyrir að vera frá fyrirtækinu sjálfu. Í skilaboðunum er fólk beðið að staðfesta notendaupplýsingar sínar með því að smella á tengil, að öðrum kosti verði lokað fyrir aðganginn. Þetta á að gera með því að smella á tengil.

En ekki er allt sem sýnist í þessu því netfangið sem þetta er sent úr er ekki lén Facebook og er allt annað en það sem Facebook notar. Það er því rétt að staldra við og ýta ekki á tengilinn.

Ekstra Bladet hefur eftir Niels Denny, hjá embætti danska ríkislögreglustjórans, að þetta líti allt mjög raunverulega út en markmiðið sé að dreifa þessu til fleiri notenda Facebook með aðstoð þeirra sem ýta á tengilinn. Ef ýtt er á tengilinn eru skilaboð, sem innihalda notendanafn og aðgangsorð viðkomandi, send til Facebookvina notandans og sá sem smellti á tengilinn er taggaður. Með þessu berst þetta hratt um Facebook.

Danska lögreglan veit ekki enn hverjar afleiðingarnar af því að ýta á tengilinn eru, hvort þarna sé verið að reyna að komast yfir notendaupplýsingar með eitthvað misjafnt í huga eða hvort hér séu tölvuþrjótar einfaldlega að skemmta sér og einfaldlega að sýna hvers þeir eru megnugir.

Hann sagði að lögreglan hafi ákveðið að vara við þessari óværu þrátt fyrir að óvíst sé hversu skaðleg hún sé. Fólk hafi ekki áhuga á að senda nafn sitt og aðgangsorð til óviðkomandi og því sé rétt að benda því á að varast þennan póst.

Skjáskot af umræddum pósti.
Skjáskot af umræddum pósti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.