Bjarni brást hart við spurningu unglings: „Ómerkilegur áróður“ – Nemandi: „Bjarni Ben að rakka niður 18 ára strák“

Bjarni Benediktsson brást hart við spurningu úr sal á pallborðsumræðu stjórnmálaflokka sem Málfundafélag Verslunarskólans hélt fyrr í dag. Bjarni sakaði pilt sem spurði um Borgunarmálið um pólitískan áróður.

Í fyrsta lagi Bjarni, þá verð ég pirruð þegar þú kemur hingað og talar við hóp af ungu fólki og kallar einn þeirra ómerkilegan.

Upplifun sumra nemenda var að Bjarni hefði rakkað niður átján ára dreng fyrir að varpa fram spurningu um Borgunarmálið og Landsrétt. Öðrum þykir það djúpt í árina tekið en Bjarni hafi vissulega verið hvass. Aðrir segja að forsætisráðherra hafi aðeins svarað hinum unga nemanda af festu. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, gagnrýndi Bjarna harðlega eftir að hann lauk máli sínu.

Einn nemandi sagði á Twitter:


„Bjarni ben að rakka niður 18 ára strák í fullum bláa sal því hann mentionaði landsrétt og borgun keepin it classy like always.“

Þá bætti önnur stúlka við:

„Málefnalegt að sjá forsætisráðherra saka menntaskólastrák um „ómerkilegan áróður“ fyrir að spyrja spurninga.“

Myndskeið er að finna neðst í fréttinni og getur þá hver dæmt fyrir sig.

Bjarni og Borgun

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Borgunarmálið hefur ítrekað verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu ár með einum eða öðrum hætti. Þegar það er rifjað upp er það oftast tengt við Bjarna Benediktsson eða ættingja hans, Einar Sveinsson og Benedikt Sveinsson. Í úttekt Eyjunnar í mars 2015 um samninga og viðskipti Engeyinga við íslenska ríkið sagði:

„Í nóvember á síðasta ári seldi Landsbanki Íslands, sem íslenska ríkið á að 98 prósentum, eignarhlut sinn í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun. Eignarhlutinn nam 31,2 prósentum og var seldur Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. fyrir 2,2 milljarða króna. Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt og fóru kaupin fram bak við luktar dyr en engum öðrum aðila var boðið að koma að kaupunum. Félagið P 126 ehf. á 19,71 prósent hlut í Eignarhaldsfélaginu Borgun en eigandi þess er Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, og sonur Einars, Benedikt Einarsson, kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins.“

Einar Sveinsson sagði í viðtali 2016 að hann hefði ekki rætt kaupin við Bjarna Ben fóðurbróður hans. Bjarni átti seinna eftir að gagnrýna harkalega hvernig staðið var að þessum viðskiptum og sagði það skaða Landsbankann og fyrirhugaða sölu ríkisins. Þessi viðskipti hafa vakið mikla tortryggni og hafa eigendur fengið arð í sinn vasa sem talinn er í tugum milljóna. Eins og segir í frétt Stundarinnar hefur málið reynst Bjarna erfitt vegna fjölskyldutengsla þó ekkert bendi til að hann hafi átt aðkomu að sölu Borgunar.

Unglingurinn og Bjarni

Spurninginn sem hinn ungi nemandi í Verzlunarskólanum beindi til Bjarna var þessi:

„Í kjölfar stjórnarslita hafa Sjálfstæðismenn mikið talað um smáflokkarnir á Alþingi hafi lítið bakland og þar af leiðandi um mikilvægi þess að kjósa flokka með alvöru rætur. En er það samt sem áður ekki það sterka bakland Sjálfstæðisflokksins og hagsmunir tengdir því sem hafa komið flokknum í sífelld vandræði? Til dæmis í Borgunarmálinu og Landsréttarmálinu.“

Eftir að pilturinn lét þessa spurningu falla má heyra að unglingarnir klöppuðu dátt. Bjarni tók sér nokkrar sekúndur í að svara og vakti það enn frekari kátínu hjá nemendum sem töldu að Bjarni væri í bobba. Bjarni svaraði:

„Ég er þeirrar skoðunar að við ættum í raun og veru að gera þá breytingu á Íslandi að taka upp fyrirkomulag sem líkist því sem er á sveitarstjórnarstiginu og gildir í mörgum öðrum löndum, eins og Noregi, að við kjósum bara á fjögurra ára fresti og það er ekkert annað í boði,“ svaraði Bjarni og hlógu unglingarnir þá aftur.

Bjarni hélt áfram:

„Það sem þetta snýst um er að við getum ekki hleypt stjórnmálunum í uppnám með því að ganga út úr ríkisstjórn, neita að semja um meirihluta og setja öðrum flokkum afarkosti. Já, ég tel að þetta nýjasta dæmi sé einmitt gott dæmi um veikleika smáflokkanna. Horfðu bara á næturfundina sem voru haldnir, horfðu bara á það sem þetta fólk segir núna í dag, núna síðustu daga, þegar rykið er sest, horfðu bara á það hvernig fundurinn fór fram. Horfðu bara til þess að ég er í samskiptum við þetta fólk áður en fundur hefst og svo fer fram einhver netkosning og ríkisstjórnin er fallin. Ég segi að allt í tengslum við þessa atburðarás, hvernig þetta hefur gengið fram er í raun og veru ekki boðlegt íslenskum stjórnmálum. Þarna hafa allir verstu kostir smáflokka og þess að vera með lítið bakland og ótraustan strúktur komið í ljós. Þess vegna erum við stödd hér í aðdraganda kosninga,“ sagði Bjarni.

„Þetta er ómerkilegt“

Hann vék svo máli að Borgunarmálinu sem pilturinn nefndi:

„Að taka Borgunarmálið sem dæmi um það að það sé eitthvað að í baklandi Sjálfstæðisflokksins er alveg ótrúlega ómerkilegt, fyrirgefðu, alveg ótrúlega ómerkilegt. Það hefur hvergi nokkur staðar, nokkur staðar, komið fram ein einasta vísbending um að Sjálfstæðisflokkurinn, ég sem fjármálaráðherra, eða einhver í stjórnarkerfinu hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöðu í því máli og þess vegna er þetta ótrúlega ómerkilegur áróður sem þú ert að flytja hér í salinn um það mál. Þetta er ekkert nema áróður þetta Borgunarmál, það er engin innistæða fyrir öllum stóru orðunum. Ég verð bara að fá að verja mig fyrst menn ætla að taka það upp hér og nota gegn mér. Þetta er ómerkilegt.“

Björt Ólafsdóttir tók til máls eftir að Bjarni lauk máli sínu og gagnrýndi hann harðlega. „Í fyrsta lagi Bjarni, þá verð ég pirruð þegar þú kemur hingað og talað við hóp af ungu fólki og kallar einn þeirra ómerkilegan. Mér finnst það ómaklegt þegar við erum að tala um pólitík og við skulum gera það almennilega,“ sagði Björt og uppskar klapp.

Hér fyrir neðan má sjá umrætt myndskeið og viðbrögð forsætisráðherra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.