fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Almenn hneykslan í Danmörku yfir dómi yfir leiðtoga alræmds glæpagengis – Mannréttindasamtök segja dómstóla oftúlka Mannréttindasáttmála Evrópu

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 11. október 2017 07:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að danskur almenningur sé hneykslaður og hissa á dómi yfir Shuaib Khan, leiðtoga glæpagengisins Loyal To Familia, sem var kveðinn upp á mánudaginn. Hann var ákærður fyrir að hóta lögreglumanni og að hafa dvalið ólöglega í Danmörku en hann er ekki danskur ríkisborgari heldur pakistanskur.

Shuaib Khan var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og til skilorðsbundinnar brottvísunnar frá Danmörku en saksóknari hafði krafist þess að honum yrði vísað úr landi. Brotaferill Khan er langur og hann hefur hlotið nokkra refsidóma fyrir alvarleg afbrot, manndráp, önnur ofbeldisbrot og brot á vopnalögum. Hann er aðeins þrítugur að aldri en hefur þegar verið dæmdur til 12 ára fangelsisvistar á fullorðinsárum sínum.

Það vekur hneykslan almenning og stjórnmálamanna að brottvísunin skuli vera skilorðsbundinn því Khan hefur áður hlotið skilorðsbundinn brottvísunardóm og einnig er afbrotaferill hans svo alvarlegur að fólki blöskrar það sem það telur vera linkind dómstóla. Á sama tíma sé hægt að vísa saklausum flóttamönnum úr landi, fólki sem hafi ekki gert neitt af sér nema leita skjóls í Danmörku.

Loyal To Familia er glæpagengi ungra manna, meirihluti þeirra er af innflytjendaættum, í Kaupmannahöfn. Khan er óumdeildur leiðtogi gengisins en draumur hans er að gengið verði stærsta glæpagengi Danmerkur. Þegar hann var látinn laus úr fangelsi í lok mars á þessu ári, eftir að hafa afplánað langan dóm, varaði lögreglan strax við að nú myndu átök glæpagengja brjótast út í Kaupmannahöfn því metnaður Khan væri mikill. Hann þykir grimmur og skirrist einskis og er ekki ragur við að grípa til ofbeldis.

Sú spá rættist því skömmu síðar hófust skotárásir á Norðurbrú sem enn sér ekki fyrir endann á. Lögreglan er með mikinn viðbúnað í borginni vegna þessa og notar meðal annars flugvélar og þyrlur til að vaka yfir sumum hverfum. Søren Pape Poulsen, dómsmálaráðherra, sagði í útvarpsviðtali að Khan „ætti að fá gott spark í afturendann svo hann færi alla leið til Pakistan“.

Eins og svo algengt er með glæpagengi þá er einn leiðtogi á toppnum og það er Khan, undir honum eru síðan nokkrir tugir meðlima sem sjá síðan um skítverkin á vegum gengisins. Hermt er að félagar í genginu séu hræddir við Khan og hlýði honum í einu og öllu því það sé aldrei að vita hvernig hann bregðist við óhlýðni. Það má kannski líkja þessu við hóp þar sem greindasti félaginn trónir á toppnum og notar síður greinda félaga sína til að sjá um skítverkin en kannski eru ekki allir sammála þeirri greiningu.

Khan gerir mikið út á dulúð og að leyna eigin persónu. Það er til dæmis ekki hægt að finna neinar ljósmyndir af honum á netinu en hins vegar er mikið um orðróm og óbeinar frásagnir um hann sem segja hann valdamikinn, nákvæman og gæddan miklum persónutöfrum.

Ríkissaksóknari ákvað í gær að áfrýja dómnum til Landsréttar og krefjast þess að Khan verði vísað úr landi. Danska ríkisútvarpið hefur eftir dómsmálaráðherranum að hann sé ánægður með áfrýjunina og láti reyna á hana fyrir æðra dómsstigi.

Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála, segir þetta óþolandi ástand og leggur á næstunni fram frumvarp sem herðir reglurnar enn frekar í tengslum við brottvísanir.

Það vakti athygli í gær þegar Jonas Christoffersen, forstjóri Institut for Menneskerettigheder (danska mannréttindastofnunin) sagði í samtali við TV2 að hægt sé að vísa fleiri útlendingum úr landi en gert sé. Danskir dómstólar hafi miskilið Mannréttindasáttmála Evrópu og oftúlki hann. Rannsókn stofnunarinnar sýni að dönsk yfirvöld séu fjarri því að láta reyna á þolmörk sáttmálans. Hann sagði að í dómum Mannréttindadómsstóls Evrópu komi fram að dómstóllinn fallist á brottvísanir úr landi þegar um er að ræða útlendinga sem eru fæddir í Danmörku eða hafi komið þangað á barnsaldri og eigi ekki börn eða maka í Danmörku.

Mikael Sjöberg, formaður samtaka danskra dómara, sagði í samtali við TV2 að hann viðurkenni að það virðist vera munur á framkvæmd danskra og erlendra dómstóla í málum sem þessum. Hann sagðist þó telja að danskir dómstólar hafi haldið sig innan lagaramma hvað varðar brottvísanir erlendra afbrotamanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi