Bergur og Halldór Auðar skamma Benedikt: „Ég vona að fólk muni“

„Að það sé hægt að mæta bara í sjónvarp eftir allt sem á undan er gengið og sýna ennþá svona gríðarlegt skilningsleysi fyrir framan alþjóð,“ segir Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata um ummæli sem Benedikt Jóhannesson lét falla um tilefni stjórnarslitanna á RÚV í gær. „Það man varla nokkur hvað þetta er,“ sagði Benedikt og átti þar við málið sem sneri að uppreistri æru kynferðisbrotamannsins Hjalta Sigurjónssonar. Benedikt hefur nú beðist afsökunar á ummælunum.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir Viðreisn lét þau ummæli falla á Bylgjunni á dögunum að ekki hafi verið tilefni til að slíta ríkistjórnarsamstarfinu og að Björt Framtíð hefði mátt bíða með að „sprengja“ ríkisstjórnina. Í sjónvarpsþættinum Forystusætið á RÚV í gærkvöldi gaf Benedikt einnig í skyn að málið sem sneri að uppreistri æru Hjalta Sigurjónssonar gæti varla talist stjórnarslitamál.

„Þetta mál, sem þótti svo stórt að það var ástæða til stjórnarslita, það man varla nokkur hvað þetta er. Ef að þetta hefði verið stjórnarslitamál þá ætti þetta að vera eitt aðal kosningamálið núna,“ svaraði Benedikt þegar hann var spurður hvort hann væri sammála Þorsteini.

Ummæli Benedikts stinga í stúf við það sem fram kom í yfirlýsingu Viðreisnar eftir að Björt Framtíð sleit stjórnarsamstarfinu:

„Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varðar. Í ljósi stöðunnar sem nú er upp komin telur þingflokkur réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta.“

Vonar að fólk muni

Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata er einn þeirra sem lýsa yfir vanþóknun sinni á ummælum Benedikts á samfélagsmiðlum og segir að í gærkvöldi ríkisjónvarpið bæði sýnt það besta og versta sem íslenska þjóðin hefur upp á að bjóða. Það besta var þegar landslið karla í fótbolta lagði lið Kósóvó og tryggði sér þar með sæti í heimsmeistarakeppninni í Rússlandi næsta sumar.

Halldór Auðar Svansson.
Halldór Auðar Svansson.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Seinna um kvöldið mátti sjá á skjánum jakkafataklæddan mann afskrifa mál sem varðaði þöggun á meðvirkni ættmenna hans gagnvart kynferðisofbeldi með þeim orðum að „það man varla nokkur hvað þetta er.“

Þó hugrakkt fólk í Bjartri framtíð hafi ákveðið að standa með gildum sínum og senda skýr skilaboð með því að slíta ríkisstjórnarsamstarfi hafa þau skilaboð greinilega því miður ekki síast inn,“

segir Halldór Auðar og bætir síðan við að hafi ýft upp gömul sár að fylgjast með viðbrögðum Bjarna Benediktssonar eftir að í ljós kom að faðir hans hefði skrifað undir meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjónsson.

„Ég gerði mér ekki alveg strax grein fyrir því hvað var í gangi en ég geri það núna, eftir mikla og erfiða úrvinnslu. Það að sjá valdhafa senda þau skilaboð að þeim er meira annt um eigin völd og heiður en þolendur kynferðisofbeldis fer einfaldlega mjög illa í mig. Svo gildir um marga þolendur, þetta er þekkt einkenni og ekkert óeðlilegt við það.
Það sem er hins vegar óeðlilegt er að svona framkoma þyki sjálfsögð. Að það sé hægt að mæta bara í sjónvarp eftir allt sem á undan er gengið og sýna ennþá svona gríðarlegt skilningsleysi fyrir framan alþjóð.“

Halldór Auðar segir málið rammpólitískt af þeim ástæðum að „allt of margir pólitíkusar skilja greinilega bara ekkert í því af hverju það er mál.“

„Ég vona svo sannarlega að kosningarnar snúist um málið sem sprengdi ríkisstjórnina. Ég vona að fólk muni.“

„Þrúgandi þögn“

Bergur Þór Ingólfsson leiakri og leikstjóri hefur verið áberandi í umræðunni um endurskoðun laga um uppreist æru en hann er faðir eins af brotaþolum kynferðisbrotamannsins Róberts Downey. Rétt eins og Halldór Auðar lýsir hann yfir hneykslan sinni á ummælum Benedikts.

„Formaður Viðreisnar:
„Það man varla nokkur hvað þetta er“
„Í alvöru?!
Tveir barnaníðingar og uppreist æra þeirra.
Sjö brotaþolar.
Endalaus tregða yfirvaldsins sem var dæmt til að afhenda upplýsingar.
Þrúgandi þögn forsætisráðherrans.“

Bergur Þór Ingólfsson.
Bergur Þór Ingólfsson.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ekki ætlunin að gera lítið úr sársauka

Benedikt birti í morgun afsökunarbeiðni a facebooksíðu sinni.

„Í viðtalsþætti í gær notaði ég afar klaufaleg ummæli um tilefni stjórnarslitanna, þegar ég sagði að enginn myndi lengur um hvað málið snerist. Þar var ég að vísa til meðferðar málsins í stjórnsýslunni síðastliðið sumar, en sannarlega ekki til þeirra brota að sem að baki lágu.

Það er fjarri mér að gera lítið úr þeim sársauka sem þolendur kynferðisbrota og aðstandenda verða fyrir. Öllum ber að tala af virðingu og auðmýkt í þessu samhengi og ég bið alla aðila málsins innilega afsökunar.

Það er óásættanlegt að slík mál séu hjúpuð leyndarhyggju og það er skýr skoðun mín og Viðreisnar að upplýsa um alla þætti málsins. Hefði það sjónarmið verið haft í heiðri hefðu allar upplýsingar legið á borðinu frá upphafi. Ég ítreka hve leitt mér þykir að hafa talað með þessum hætti.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.