Fyrirvaralaus árás á Tinnu fyrir utan Bónus: „Maður trúir því ekki að nokkur maður geti verið svona illgjarn“

Fyrirvaralaus árás fyrir utan Bónus í Lóuhólum - Eigandinn leitar vitna

Tinna mín er aum, sefur endalaust og skelfur af geðshræringu,“ segir Kristín Alfreðsdóttir, eigandi labradortíkarinnar Tinnu sem varð fyrir árás ókunnugs manns við verslun Bónus í Lóuhólum í Breiðholti um helgina. Rétt er að geta þess að um aðra tík er að ræða en þá sem týndist í Reykjanesbæ fyrir rúmum tíu dögum og DV hefur fjallað talsvert um.

Sparkaði af miklum krafti í trýni Tinnu

Dóttir Kristínar fór í göngutúr með Tinnu út í Bónus og batt hana við staur fyrir utan verslunina á meðan hún sinnti innkaupum. Þegar hún kom tilbaka voru um átta manneskju að hlúa að tíkinni sem vældi af sársauka.

„Það gekk að henni ókunnugur maður og sparkaði af miklum krafti í trýnið á henni. Þetta sáu fjölmörg vitni,“ segir Kristín. Að hennar sögn varð dóttur hennar verulega hverft við að sjá tíkina svo kvalda að hún hugsaði um það eitt að koma henni heim til sín.

„Hún var í svo miklu sjokki að hún hugsaði ekki út í að taka niður nöfn og símanúmer þeirra sem að urðu vitni að þessu. Ég vildi gjarnan óska eftir því að þeir hinir sömu myndu hafa samband við mig því að þessi árás verður kærð til lögreglu,“ segir Kristín sem einnig var í áfalli eftir árásina.

Einhverfu börnin elska Tinnu

Að hennar sögn er Tinna afar ljúfur hundur sem er hvers manns hugljúfi.

„Ég passa einhverf börn fyrir Barnavernd aðra hverja helgi og Tinna hefur hjálpað mér við það. Hún er ótrúlega þolinmóð og góð við börnin og þau sjá ekki sólina fyrir henni. Ég tel það mjög ólíklegt að hún hafi verið að gelta eða urra á þennan vegfarenda. Því miður eru bara einstaklingar þarna úti sem hata dýr,“ segir Kristín.

Hún skrifaði stuttlega um atvikið inn á Facebook-síðuna Hundasamfélagið og er óhætt að segja að málið hafi vakið mikla athygli. Færslunni var deilt inn á aðrar síður en enn sem komið er hefur ekkert vitni stigið fram.

„Ég var búinn að fá ábendingu um einn aðila og símanúmer hans. Ég hef ekki náð í hann enn,“ segir Kristín. Þá vekur athygli að fjölmargir hundaeigandur höfðu tjáð sig um miður skemmtileg atvik sem átt höfðu sér stað þegar hundarnir biðu eftir þeim fyrir framan verslanir.“

DV hafði sambandið við verslun Bónus í Lóuhólum en fékk þær upplýsingar að engar myndavélar væru fyrir utan verslunina og því hefði atvikið ekki náðst á myndband. Ef einhver lesandi varð vitni að atvikinu getur sá hinn sami haft samband við Kristínu í síma 897-3497.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.