Fréttir

Efnisveitur frá Naxos aðgengilegar lánþegum Borgarbókasafnsins

Heimildarmyndir, sígild tónlist og tónleikar meðal efnis

Kristín Clausen skrifar
Mánudaginn 9. janúar 2017 17:30

Naxos efnisveiturnar Naxos Music Library, Naxos Music Library World og Naxos Video Library eru nú aðgengilegar skírteinishöfum Borgarbókasafnsins til streymis í gegnum netið frá heimasíðu safnsins. Það eina sem fólk þarf er gilt bókasafnsskírteini.

Með aðgangi að efnisveitunum opnast lánþegum bókasafnsins heill heimur af tónlist og myndefni. Þar er að finna yfir tvær milljónir verka af tæplega 140 þúsund geisladiskum aðallega á sviði sígildrar tónlistar og heimstónlistar. Lánþegar bókasafnsins hafa jafnframt aðgang að myndefni þar sem hægt er að nálgast hátt í þriðja þúsund myndbönd í fullri lengd, þar af nálægt 1300 óperur, balletta og tónleika.

Einnig er að finna fræðslumyndir um tónlist, tónskáld og flytjendur og myndir frá markverðum stöðum innan tónlistarsögunnar. Auk efnis af tónlistarlegum toga má benda á heimildarmyndir um einstök lönd, sögufrægar borgir og staði, fræðslumyndir um strauma og stefnur í listheiminum og myndir um marga af þekktustu myndlistarmönnum sögunnar.

Jafnframt þessu er hægt að skoða sér til fróðleiks og skemmtunar ýmiskonar texta með ítarefni tónlistarlegs eðlis. Þar má nefna tónlistarorðabók, upplýsingar um einstök verk og tímabil í tónlistarsögunni, æviágrip rúmlega 40 þúsund tónskálda og flytjenda og texta og útdrætti úr fjölda ópera.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af